Tíminn flýgur áfram og allt í einu er nóvembermánuður að líða undir lok. Í vikunni sem leið var margt skemmtilegt um að vera og má sjá ýmsar fréttir og myndir hér á heimasíðunni okkar. Nemendur gerðu tilraunir, fengu óvænt símtal frá Herra Hnetusmjör, yngsta stig fór á ball og margt fleira.
Í næstu viku verður breyting á hafragrautnum hjá okkur, en við ætlum að færa hann frá því að vera í boði áður en kennsla hefst á morgnanna og yfir í nestistímann. Nemendur fá því öll morgunmat í skólanum á milli kl. 9:00 og 10:00 og við vonum að þetta muni reynast vel. Þá ætlum við líka að byrja jólasöngsalinn okkar í næstu viku en einu sinni í viku fram að jólum ætla Hugrún Sif og Elvar að koma í heimsókn til okkar frá tónlistarskólanum og leiða sönginn. Sandra bókavörður ætlar að kynna fyrir nemendum þær bækur sem hafa verið keyptar inn að undanförnu svo það er margt skemmtilegt og spennandi framundan. Í bland við þetta allt saman reynum við samt að halda í reglu, röð og rútínu og vonum að desembermánuður verði ljúfur og góður.
Heyrst hefur að jólasveinarnir séu farnir að undirbúa komu sína til byggða, einn af öðrum. Þeir báðu okkur um að skila því til samfélagsins að þeir ætla leggja sig alla fram um að gæta jafnræðis milli barnanna og stilla gjöfunum í hóf, þar sem þeir þurfa að fylla í marga skó. Þá minntu þeir okkur einnig á að vera ekki að ræða tilvist jólasveinsins innan veggja skólans, hvort sem við trúum eða ekki og virða skoðanir hvers annars.
Við munum svo upplýsa ykkur jafnóðum um allt það sem við ætlum að bralla í desember fram að jólafríi, en nemendur fara í jólafrí í lok dags 18. desember, sem verður tvöfaldur dagur. Við ætlum að vera með litlu jólin okkar frá kl. 17:00-19:30 þann dag - nánar um það síðar.
Við vonum að helgin verði ykkur ljúf og góð
Gleðilegan fyrsta í aðventu
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |