Föstudagskveðja frá unglingastigi

Vikan hefur verið viðburðarrík og ánægjuleg.

Á mánudaginn lauk lestrarkeppni grunnskólanna hjá Samrómi og við lentum í 2. sæti í okkar flokki og 3. sæti yfir landið. Þær Súsanna og Steinunn Kristín tóku við viðurkenningu á Bessastöðum fyrir hönd skólans á miðvikudaginn.  Á fimmtudagsmorgni var gangafundur með skólastjórnendum og þar fengu Ylfa Fanndís og Lárey Mara viðurkenningu frá skólanum fyrir frábæra frammistöðu í lestrarkeppninni, en þær lásu samanlagt ríflega 20.000 setningar!

Við unglingarnir höfum verið að fjalla meðal annars um sjálfsmynd, kynlíf og klám í vikunni og á miðvikudaginn fengum við Steinar Gunnarsson rannsóknarlögregluþjón á Sauðárkróki á netfund með okkur. Hann fór yfir ýmis mál varðandi stafrænt kynferðisofbeldi og ofbeldisbrot af því tagi. Þetta var mjög gagnlegur og góður fundur. Við erum búin að útbúa jafningafræðsluefni og foreldrafræðsluefni sem við getum vonandi deilt á næstunni.

Miðstigið er að læra um landafræði Íslands og er að vinna “sérfræðingaverkefni” tengt því efni og vinna í fjölbreyttum tölfræðiverkefnum í stærðfræði. Yngsta stigið tók öllum snjónum sem safnaðist hér síðustu vikuna fegins hendi, því hér á skólalóðinni hafa skapast miklir ævintýraheimar til að leika sér í. Erum ekki viss um að allir bæjarbúar séu jafnánægðir með allan snjóinn.

Nemendur í 10. bekk tóku þátt í rafrænu skemmtikvöldi hjá Nemendafélagi FNV á fimmtudagskvöldið. Þá ætla 10. bekkingar að standa vaktina í Kjörbúðinni í dag, föstudag, frá 15-18 og selja margnota grímur til fjáröflunar fyrir væntanlegt skólaferðalag í vor.

Megið þið eiga góða og gleðilega helgi.

Unglingastigið.