Heil og sæl
Nú er árið að líða undir lok og kjörið að renna aðeins yfir hvað á daga okkar í Höfðaskóla hefur drifið árið 2023. Við erum dugleg að setja fréttir á heimasíðuna okkar og við hvetjum öll til að fylgjast með þar.
Í janúar fengum við heimsókn frá Þorsteini V. Einarssyni sem heldur úti miðlinum karlmennskan og nemendur unnu ýmis verkefni. Annar skipti voru eftir miðjan janúar og þá voru foreldrasamtöl. Í febrúar fór 10. bekkur í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar, við héldum uppá afmæli vináttubangsanns Blæs, fengum góða heimsókn frá FNV, FabLab og Sýndarveruleika ehf og fengum góða gesti þegar allir viðbragðsaðilar á svæðinu komu og sýndu tækin sín á 1-1-2 deginum. Þá fór 10. bekkur í heimsókn í FNV í lok febrúar. Í mars var m.a. framsagnarkeppnin okkar og nemendur heimsóttu Nes listamiðstöð og unnu verkefni. Alþjóðadagur stærðfræðinnar var haldinn hjá okkur og við fengum góða heimsókn frá Landanum. Í apríl fóru nemendur 9. og 10. bekkjar á skyndihjálparnámskeið, við fengum heimsókn frá Umboðsmanni barna og nemendur unglingastigs fóru á Hvammstanga í tvo daga og unnu verkefni á vegum List fyrir alla. Þá enduðum við apríl á danskennslu. Í maí perluðum við af krafti fyrir Kraft, nemendur fóru í vorferðir, 10. bekkur til Danmerkur og miðstig fór á íþróttadag á Hvammstanga. Skólaslitin okkar voru svo í Fellsborg og nemendur héldu í sumarfrí eftir gott skólaár.
Í ágúst var skóli settur og nemendur mættu endurnærðir eftir sumarfrí. Í september hittu nemendur í 6. og 7. bekk Gunnar Helgason á fjarfundi og við fengum heimsókn frá tveimur lögreglumönnum frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Við unnum verkefni í tengslum við dag íslenskrar náttúru og 4. og 5. bekkur heimsótti Árnes. Í október var valgreinadagur unglingastigs haldinn á Skagaströnd og 7. bekkur fór í Reykjaskóla. Í nóvember fengum við heimsókn frá skáldum í skólum, héldum nemendaþing, gengum mílu umburðarlyndis og stigsskemmtanir voru á öllum stigum. Desember kom svo með öllu sem honum fylgir og við brölluðum margt eins og birst hefur á heimasíðunni undanfarna daga, m.a. menntabúðir og opið hús ásamt öllu jólatrallinu.
Í gær, 19. desember voru litlu jólin okkar haldin. Myndir frá þeim degi má sjá hér.
Það er alltaf nóg um að vera hjá okkur, við erum afskaplega þakklát þegar samfélagið tekur þátt í viðburðum með okkur og vonumst til að fá ykkur í heimsókn sem oftast á nýju ári. Skólinn er hjartað í samfélaginu okkar og saman eigum við að standa vörð um hann, tala fallega um skólann og skólastarfið og vera stolt af öllu því frábæra sem nemendur eru að gera.
Nemendur mæta aftur samkvæmt stundaskrá þann 4. janúar 2024.
Við vonum að þið eigið góð og gleðileg jól og þökkum ykkur fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Með jólakveðju
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |