Sæl og blessuð
Enn ein vikan liðin og alltaf nóg um að vera. Mikil veikindi hafa herjað bæði á nemendur og starfsfólk en við vonum að flensan sé á undanhaldi og allir sem lágu í valnum séu að hressast :)
Það er nóg um að vera hjá okkur í desember eins og sjá má á viðburðardagatali skólans
hér á heimasíðunni. Við erum einnig með lestrarátakið Lesið í skammdeginu í gangi um þessar mundir, þar sem nemendur eru í jólayndislestri alla morgna og við fáum til okkar fólk sem les fyrir nemendur. Við getum alltaf bætt við okkur lesurum, ef einhver hefur áhuga á að koma og lesa fyrir nemendur má sá hinn sami endilega hafa samband.
Litlu jól nemenda verða 19. desember og ætlum við að breyta örlítið fyrirkomulaginu hvað varðar pakkaskiptin. Í ár koma nemendur ekki með pakka eins og verið hefur heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk þar sem nemendur skólans ætla að fjárfesta í
vatnsdælu hjá Unicef. Starfsfólk skólans hefur einnig haft þann háttinn á að skiptast á gjöfum á litlu jólum starfsmanna, en í ár verður því breytt og munu starfsmenn einnig leggja til aur í verkefnið. Í næstu viku fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Við vonumst til að geta fjárfest í dælunni á litlu jóla daginn til þess að geta haft nemendur með okkur þegar við gögnum frá kaupunum.
Í næstu viku eigum við von á heimsókn frá Björgunarsveitinni Strönd þar sem þeir ætla hitta hvert stig fyrir sig og vera með fræðslu um öryggi í kringum flugelda og öllu sem því fylgir.
Við vonum að þið njótið annarrar helgar aðventu
Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans.
Því drottin sjálfur soninn þá
mun senda' í líking manns.
Jólakveðja
Sara Diljá og Guðrún Elsa