Föstudagskveðja

Sæl öll

Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Á miðvikudaginn var takmörkunum aflétt að hluta svo við gátum farið aftur af stað með hafragrautinn sem var kærkomið :) Nemendur á yngsta- og miðstigi eru nú samkvæmt hefðbundinni stundaskrá í skólanum að öllu leyti nema því að þau fara í mat kl. 12:00 á föstudögum í stað 12:40. Það mun svo breytast aftur þegar við getum aflétt takmörkunum á unglingastigi sem verður vonandi sem allra fyrst. 

Nú þurfum við að fara taka ákvörðun um hvaða málefni við ætlum að styrkja í desember söfnuninni okkar en líkt og í fyrra ætlum við að styrkja gott málefni í stað þess að skiptast á gjöfum, það á bæði við um nemendur og starfsfólk. Frétt um söfnina í fyrra má sjá hér og hér má senda okkur ábendingar um málefni sem við getum styrkt, allar ábendingar eru vel þegnar svo endilega sendið okkur tillögur. 

Í næstu viku höldum við sama skipulagi og í þessari. Við vonumst til að skólahald færist að öllu leyti í eðlilegt horf þegar núgildandi reglugerð um samkomutakmarkanir fellur úr gildi þann 1. desember, við munum fylgjast vel með og upplýsa ykkur um skipulag desembermánaðar þegar það liggur fyrir. 

Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund. Nokkuð hefur borið á að nemendur séu ekki klæddir til útivistar í kuldanum sem hefur verið undanfarið og við þurfum að bæta úr því :) Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd.

Í vikunni komu Kristinn Rúnar Kristjánsson og Lilja Dögg Hjaltadóttir fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Strandar og færðu öllum nemendum skólans endurskinsmerki. Við hvetjum ykkur til að nota þau, festa á útifatnað eða skólatöskur og gera börnin okkar enn sýnilegri í myrkrinu en þau eru nú þegar. Við þökkum Björgunarsveitinni Strönd kærlega fyrir þessa góðu gjöf til nemenda. 

Annars biðjum við að heilsa og vonum að þið njótið helgarinnar

Með góðum kveðjum

Sara Diljá og Guðrún Elsa