Heil og sæl
Í gær var viðtalsdagur þar sem nemendur mættu með foreldrum/forráðamönnum í viðtal og lögðu línurnar fyrir skólaárið framundan. Vel var mætt og þökkum við ykkur öllum kærlega fyrir komuna.
Veðrið hefur verið með betra móti og nemendur á yngsta stigi verið töluvert úti. Það getur þó verið kalt þó sólin sé á lofti og mikilvægt að nemendur mæti vel klædd í skólann.
Í næstu viku er dagur íslenskrar náttúru og vonumst við til að veðrið verði áfram gott svo hægt verði að fara út og gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
Við erum að fikra okkur áfram með ávaxtastundirnar okkar og þökkum við fyrir það þegar foreldrar/forráðamenn eru með okkur í liði í að láta hlutina ganga vel. Við reynum eftir fremsta megni að hafa alltaf eitthvað í boði fyrir alla og enginn á að vera svangur. Við ætlum einnig að vera með uppábrot og bjóða stundum upp á heimabakað í nestistímanum. Þetta er allt í þróun hjá okkur og við tökum vel á móti öllum ábendingum.
Hafragrauturinn hefur verið vel sóttur í upphafi skólaársins og vonumst við til að það haldi áfram, en hann er í boði frá 7:45 alla daga sem nemendur eru í skóla.
Myrkrið fer að færast yfir okkur á morgnanna og því er kjörið að fara skoða endurskinsmerki, kanna hvort að útifatnaður og töskur sjáist örugglega vel í myrkinu og fara yfir umferðarreglurnar með krökkunum.
Við vonum að þið njótið helgarinnar og óskum þeim sem eru á leið í smalamennsku góðrar skemmtunar og biðjum ykkur öll að fara varlega og koma heil heim.
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |