Föstudagskveðja

Heil og sæl kæra skólasamfélag

Vikan í Höfðaskóla gekk vel, nemendur unnu ýmis verkefni bæði innandyra og utan. Nú er farið að verða kalt úti og minnum við mikilvægi þess að nemendur séu klæddir eftir veðri og að endurskinsmerkin séu á sínum stað. 

Foreldrafélagið hélt aðalfund s.l. mánudag og var mætingin ekki nógu góð. Foreldrasamstarf er mikilvægur hluti af skólastarfi og hlutverk foreldrafélags er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimilis og skóla. Öll sem eiga börn í Höfðaskóla eru hluti af foreldrafélaginu þó stjórnin sé fámenn. Foreldrafélagið skiptir máli og við vonum að við getum öll látið félagið skipta okkur máli. 

Miðvikudaginn 23. október n.k. verður bleikur dagur í Höfðaskóla. Á vef Krabbameinsfélagsins segir: Á Bleika deginum hvetjum við landsmenn til að vera bleik - fyrir okkur öll bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. 

Næsta vika verður stutt í annan endann þar sem vetrarfrí verður í Höfðaskóla 24., 25., 28. og 29. október. 

Við vonum að þið njótið helgarinnar.
Með góðum kveðjum,
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín