Föstudagskveðja

Heil og sæl

Enn ein skemmtileg vika að baki í Höfðaskóla og nú styttist heldur betur í desember. Á miðvikudaginn s.l. var dagur mannréttinda barna og unnu nemendur á yngsta stigi með hugmyndir um drauma skólalóðina sína og nemendur í 5.-10. bekk hittu stjórnendur og unnu hópavinnu um sex mismunandi þætti skólastarfsins, hvaða breytingar þau vilja sjá og hvaða óskir þau hafa. Það var margt áhugavert og skemmtilegt sem þar kom fram og munum við eftir helgi hefjast handa við að vinna úr niðurstöðunum og sjá hvaða breytingar við getum gert til að koma til móts við óskir nemenda. 

Það hefur verið mikið fjör hjá nemendum að leika sér í snjónum og mikilvægt að öll séu vel klædd. Kuldaboli getur heldur betur bitið í kinnar þegar verið er að leika sér úti. 

Skammdegið færist alltaf meira og meira yfir og endurskinsmerkin mjög mikilvæg. Nú væri ráð að yfirfara þau öll um helgina og passa uppá að allur útifatnaður og töskur sjáist örugglega vel í myrkinu.

Hér á heimasíðunni okkar eru svo alltaf ýmsar nýjar fréttir og myndir sem við hvetjum ykkur til að vera dugleg að skoða. Á meðfylgjandi mynd er skólahópur leikskólans sem kom í heimsókn í vikunni, en það er alltaf fjör að fá vini okkar í heimsókn og frábært hversu vel kennarar beggja skólanna standa að samstarfinu milli skólastiga.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín