Föstudagskveðja

Sæl og blessuð

Nú er desember genginn í garð og við ætlum að reyna að brjóta upp hefðbundið skólastarf og létta lund nemenda eins og kostur er. Í dag var jólapeysudagur hjá nemendum og starfsfólki sem vakti lukku.
 
Á mánudag er stefnan að nemendur á yngsta- og miðstigi fari og verði viðstaddir þegar ljósin verða tendruð á jólatrénu okkar. Eingöngu nemendum yngsta- og miðstig stendur þetta til boða vegna þeirra samkomutakmarkana sem eru í gildi. Mikilvægt er að nemendur mæti vel klæddir en við ætlum að syngja nokkur jólalög og dansa kringum jólatréð. Þegar við komum aftur í skólann fáum við okkur heitt kakó og piparkökur. 
 
Á miðvikudag í næstu viku ætlum við vera með jólasöng, þar sem allir nemendur (vonandi, ef samkomutakmarkanir leyfa), hittast og syngja saman nokkur jólalög. Við höfum samið við Ástrós okkar Elís að aðstoða okkur við að leiða sönginn. 
 
Á föstudag í næstu viku verður svo jólanáttfata/náttfatadagur hjá öllum, bæði nemendum og starfsfólki og boðið verður upp á heitt og kalt kakó í nestistímanum þann daginn. 

Litlu jól nemenda verða 18. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulagið sem við tókum upp í fyrra hvað varðar pakkaskiptin. Í ár hafa nemendur kosið að styrkja Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna og koma nemendur ekki með pakka heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk ef heimilin hafa tök á. Starfsfólk skólans mun einnig styrkja Neistann í stað þess að skiptast á gjöfum. Í næstu viku fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Styrknum verður svo skilað til Neistans á litlu jólunum. 

Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólastýrur í síma 4522800 eða á saradilja@hofdaskoli.is og gudrunelsa@hofdaskoli.is

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa