Vikan í Höfðaskóla var lífleg og skemmtileg og margt um að vera eins og sjá má á heimasíðunni okkar. Við höfum sett inn mikið af myndum og fréttum og hvetjum ykkur til að vera dugleg að skoða það allt saman.
Í gær vorum við með jólaföndurstöðvar og þrautabraut í íþróttahúsinu sem gekk mjög vel hjá okkur. Myndir frá því eru hér.
Í dag ætlum við svo að fá okkur heitt kakó og piparkökur sem við höfum gert árlega í desember undanfarin ár.
Næsta vika er svo síðasta vikan fyrir jólafrí, en hún er stutt í annan endan þar sem litlu jólin okkar eru 18. desember og nemendur fara í jólafrí eftir þau. Á mánudag ætla drengirnir okkar í 10. bekk að skreyta jólatréð okkar, á þriðjudag er engin kennsla eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði og á miðvikudag ætlum við að syngja saman jólalög, eiga notalega stund í stofum með umsjónarkennurum og fara svo öll saman í möndlugraut upp í Fellsborg í hádeginu. Engin kennsla eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði.
Litlu jólin hefjast svo 18. desember kl. 17:00 og mæta nemendur í skólann. Við ætlum svo að borða saman hátíðarkvöldverð í Fellsborg og dansa í kringum jólatréð en Hugrún Sif ætlar að leiða jólasönginn. Þar sem litlu jólin eru með breyttu sniði og hátíðlegri en undanfarin ár viljum við biðja nemendur um að mæta prúðbúin og snyrtileg. Litlu jólunum lýkur svo um kl. 20:00 og þá halda nemendur heim í jólafrí. Við erum orðin öllu vön og langtímaspáin er okkur ekki sérstaklega hliðholl þennan dag, en þar sem langt er í þetta ennþá vonum við að það breytist nú og við getum haldið þessa stund eins og til stendur.
Að lokum minnum við á að foreldrar og forráðamenn eru alltaf velkomin í heimsókn til okkar, ekki þarf að gera boð á undan sér. Hvort sem það er til að kíkja í kaffibolla eða sjá það sem nemendur eru að fást við.
Gleðilegan þriðja sunnudag aðventu
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |