Föstudagskveðja

Vikan í Höfðaskóla gekk vel og allt í einu er janúar hálfnaður. Á miðvikudaginn var viðtalsdagur hjá okkur og þökkum við öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna. Það er gott þegar foreldrar/forráðamenn skrá sig í viðtöl og mæta því samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli. Foreldrakönnun var send út í gær og biðjum við ykkur um að svara henni fyrir 30. janúar en könnunin er hluti af innra mati skólans. 

Við fengum allskonar veður í vikunni, rigningu og snjó og enn og aftur minnum við á að gott er ef nemendur, þá sérstaklega á yngsta stigi, eru með auka sokka og buxur í skólatöskunni og komi alltaf klædd eftir veðri. Við förum út alla daga og það er vont að verða blautur og kaldur. 

Í næstu viku verður starfsdagur á föstudeginum en þá ætlar starfsfólk skólans á skyndihjálparnámskeið. Slík námskeið eru mjög mikilvæg og pössum við uppá að fara alltaf reglulega á upprifjunarnámskeið. Einar Óli kemur til okkar og heldur námskeiðið. 

Ef einhver náðu ekki að bóka viðtöl en vilja fá slík er ekkert mál að hafa samband við umsjónarkennara og þeir finna tíma með ykkur. Eins ef einhver telur sig ekki hafa náð að fara yfir allt í viðtalinu í vikunni má að sjálfsögðu óska eftir öðru viðtali.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín