Sæl öll
Vikan í Höfðaskóla leið hratt og var afar fjölbreytt.
Á mánudaginn héldum við upp á bolludaginn, og fengu allir nemendur skólans ljúffenga bollu í morgunkaffinu. Á sprengidaginn, þriðjudag, var boðið upp á saltkjöt og baunir í hádeginu. Vikan náði svo hápunkti á miðvikudaginn þegar öskudagurinn var haldinn hátíðlegur. Nemendur og starfsfólk mættu í alls konar búningum, og var sannkölluð skemmtun í loftinu. Öskudagsball var haldið í íþróttahúsinu kl. 16:00 fyrir alla og síðar um kvöldið í félagsmiðstöðinni fyrir unglingana. Myndir frá deginum má nálgast hér.
Sundkennsla hófst í vikunni, og að því tilefni ákvað veðrið að stríða okkur aðeins – en það var auðvitað ekkert sem hörkutól Höfðaskóla réðu ekki við!
Mánudaginn næstkomandi mun Einar Óli Fossdal, sjúkraflutningamaður, halda skyndihjálparnámskeið fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Þá fara nemendur í þessum bekkjum á fimmtudaginn til Reykjavíkur á stóru framhaldsskólakynninguna Mín framtíð í Laugardalshöll.
Nemendur yngsta stigs hafa verið dugleg að nýta fjölbreytt veðrið undanfarið til útiveru, og því skiptir miklu máli að allir séu vel klæddir til að geta notið hennar sem best.
Að lokum má nefna að undirbúningur fyrir árshátíðina okkar, sem fer fram 3. apríl, er hafinn!
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |