Föstudagskveðja í blíðunni

Þá er aldeilis viðburðarík vika að líða undir lok í Höfðaskóla. Nemendur í 8. og 9. bekk drógu úr happdrættinu sínu sem var vel heppnað. 

Í gær var árshátíðin okkar og heppnaðist hún með eindæmum vel. Nemendur léku á alls oddi og voru alveg frábær á sviðinu öll sem eitt, hvort sem um ræðir þau sem tóku þátt í leikþáttum, söng, dansi, sviðsmenn, ljósamenn, tæknimenn og hvað eina :) Við erum mjög stolt af þeim og þeim ótrúlegu framförum sem mörg hafa tekið. Þetta er ekki auðvelt fyrir mörg að stíga á svið og því er óhætt að segja að hver stórsigurinn af öðrum hafi unnist í gær. Þá er vert að þakka öllum þeim sem lögðu til góðgæti á kökuhlaðborðið og gestunum sem mættu. Þetta var samvinnuverkefni sem heppnaðist eins og best verður á kosið.

Í næstu viku, sem er síðasta vikan fyrir páskafrí verður eitt og annað upp á teningnum. Nemendur munu vinna ýmis verkefni sem sett voru í bið á meðan á árshátíðarundirbúning stóð og við endum svo vikuna á páskabingó með öllum nemendum skólans í boði nemendafélagsins. 

Nú fer hver að verða síðastur að panta ljósmyndir sem teknar voru fyrir stuttu en allar upplýsingar um hvernig þið snúið ykkur í þeim efnum bárust ykkur í tölvupósti. Frá og með mánudeginum n.k. verður ekki hægt að panta myndir.

Við vonum að þið njótið helgarinnar og kærar þakkir aftur fyrir komuna í gær
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín