Heil og sæl
Enn á ný er kominn föstudagur. Vikurnar líða áfram og ný önn er hafin hjá okkur. Í þessari viku voru nemendaviðtöl og við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna. Gott samstarf milli heimila og skóla skiptir máli og nemendaviðtöl eru stór þáttur í því samstarfi.
Í dag er fyrsti dagur þorra, bóndadagur. Yngsta stig er í þemavinnu tengdri þorranum og ætlar í dag að heimsækja Spákonuhof af því tilefni.
Nemendur eru á fullu að lesa inn á www.samromur.is og hvetjum við enn og aftur alla sem vettlingi geta valdið til að skrá sig í Höfðaskólaliðið og lesa inn nokkrar setningar. Vegleg verðlaun eru fyrir þann skóla sem endar í fyrsta sæti í hverjum flokki.
Í dag mun umhverfisnefnd funda um stöðu mála í tengslum við verkefnið ,,skóli á grænni grein" en við stefnum enn að því að sækja um Grænfána við fyrsta tækifæri. Það hefur aðeins dregist hjá okkur vegna heimsfaraldursins.
Á fundi umhverfisnefndar í dag kom upp sú hugmynd að nemendur skólans safni brauðafgöngum og ávaxtaafgöngum og gefi fuglunum á skólalóðinni. Erna, umsjónarkennari í 1. og 2.bekk var skipaður yfirmaður fæðufélags fugla í skólanum.
Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð,
kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil,
hlær við hríðarbyl
hamragil.
Mararbára blá
brotnar þung og há
unnarsteinum á,
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn,
harmar hlutinn sinn
hásetinn.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa