Heil og sæl kæru vinir!
Áfram heldur tíminn að æða frá okkur, fyrsti í aðventu á sunnudaginn og desember handan við hornið. Það er margt um að vera og ýmislegt spennandi framundan hjá okkur.
Í desember verður eitthvað um uppbrot frá hefðbundinni kennslu og verður það allt auglýst í byrjun desember. Við stefnum að því að halda jólaföndurdag eins og undanfarin ár, fara í kirkjuna og hlusta á jólasögu og syngja nokkur lög, jólagrauturinn verður á sínum stað sem og litlu jólin sem haldin verða 17. desember.
Uppbrotsvika var hjá unglingastiginu í liðinni viku og var nemendum skipt í fjóra hópa sem fóru á milli stöðva, þannig að allir fóru á eina stöð á dag. Í boði var að læra að tálga, búa til plast, bókleg heimilisfræði ásamt myndmennt í samvinnu við Nes listamiðstöð. Nemendur skemmtu sér konunglega og verður þetta gert aftur þegar fer að vora. Myndir má sjá hér.
Lögreglan er búin að vera með eftirlit á bílaplaninu hér við skólann undanfarna tvo morgna. Við fögnum því þar sem ávallt er gott að lögreglan sé sýnileg. Í morgun fóru nokkrir nemendur af stað út á plan og buðu lögreglumanninum inn í hafragraut og spjall í morgunsárið, sem var að sjálfsögðu þegið.
Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund og nemendur miðstigs sem eru í útivist á mánudögum. Nokkuð hefur borið á að nemendur séu ekki klæddir til útivistar í kuldanum og síbreytilegu veðri sem hefur verið undanfarið. Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd.
Við vonum að þið njótið helgarinnar.
Með góðum aðventukveðjum,
Guðrún Elsa og Dagný Rósa.
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |