Sæl og blessuð kæru vinir!
Tíminn flýgur áfram og enn á ný er kominn föstudagur, þá er ekki úr vegi að setjast niður og líta yfir vikuna sem nú er að renna sitt skeið og fara að spá í þeirri næstu.
Árshátíðarundirbúningur er kominn á fullt skrið og atriði nemenda er smá saman að verða að flottum sýningaratriðum og við hlökkum til að leyfa ykkur að sjá afrakstur þessarar vinnu í næstu viku.
Árshátíð Höfðaskóla fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Fellsborg. Að morgni árshátíðardags mæta nemendur í Fellsborg kl. 9:00 á generalprufu. Þann dag verður ekki hafragrautur í boði og þau mega koma með sparinesti með sér ásamt drykk. Það er ekki leyfilegt að koma með sælgæti, gos eða orkudrykki.
Árshátíðin hefst svo klukkan 18:00 en allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag hennar verða sendar út eftir helgi.
Unglingastigið fékk góða gesti í heimsókn í vikunni. Geðlestin kom og fræddi um mikilvægi þess að huga að geðrækt og minntu á að við förum til læknis ef við erum veik hvort sem það er andlega eða líkamlega, bæði er jafn mikilvægt. Með Geðlestinni var góður gestur, tónlistarmaðurinn Flóni og var hann með "mini" tónleika fyrir krakkana. Þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.
Á þriðjudaginn fara nemendur 8.-10.bekk á Starfamessu á Sauðárkróki. Á Starfamessunni verða kynntar um 30 náms- og starfsleiðir í iðn-, tækni- og verkgreinum, með áherslu á þau tækifæri sem standa nemendum til boða hér á Norðurlandi vestra. Hugmyndin er að nemendur fái tækifæri til að hitta bæði forsvarsmenn starfsgreinanna sem og aðstandendur námsins á bakvið þær greinar. Þannig öðlist þeir innsýn í ferlið allt frá námi og inni í fyrirtækin þar sem störfin eru unnin.
Ég vona að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjur
Guðrún Elsa
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |