Heil og sæl
Góð vika að baki í Höfðaskóla. Við fengum góða heimsókn frá Siggu Dögg kynfræðing í heimsókn s.l. mánudag sem hélt fyrirlestur fyrir unglingana og var með foreldrafræðslu. Á þriðjudaginn var svo perlað af krafti sem gekk vel. Nánari frétt um það kemur í næstu viku.
Það sem af er ári hefur ýmislegt verið í boði fyrir foreldra/forráðamenn að mæta á og efla þannig samvinnu heimilis og skóla. Foreldrar/forráðamenn spila ekki síður en skólinn stórt hlutverk í því að skapa á Skagaströnd gott skólasamfélag og hluti af því er að taka þátt í viðburðum á vegum skólans, mæting foreldra skiptir gríðarlega miklu máli. Á þeim skapast vettvangur fyrir fólk til þess að hittast, skiptast á skoðunum, fá fræðslu og hafa áhrif. Við hvetjum öll þau sem eiga börn í Höfðaskóla til að skoða hvort ekki sé svigrúm til að mæta þegar viðburðir eru auglýstir og taka þátt í þeim þætti skólagöngu barna sinna.
Í næstu viku er síðasta heila skólavikan fyrir sumarfrí, námsmat er í fullum gangi og verið að ljúka þeim verkefnum sem þarf að klára fyrir frí. Eftir daginn í dag eru aðeins átta skóladagar eftir, en skólaslit Höfðaskóla fara fram í Fellsborg, fimmtudaginn 1. júní kl. 17:00.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa