Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel. 7. bekkur fór í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og skemmtu þau sér mjög vel. Það er mikill þroski sem felst í því að fara í svona ferð, gista annars staðar en heima hjá sér og kynnast nýju fólki. Ferðalagið var mismikil áskorun fyrir krakkana en öll komust þau í gegnum þetta og svei mér þá ef þau stækkuðu ekki um nokkra sentimetra á meðan þau voru í burtu.
Valgreinadagur unglingastigs var haldinn hjá okkur í gær, fréttir og myndir frá því má sjá hér.
Í næstu viku er Kvennaverkfall þann 24. október og ljóst að það gæti haft áhrif á skólastarfið þann daginn. Við sendum út upplýsingar til foreldra/forráðamanna ef breytingar verða.
Þá er alþjóðlegi bangsadagurinn í næstu viku og mögulega verða einhverjir loðboltar á ferðinni um skólann þann daginn. Þeir kennarar sem ætla að taka þátt í deginum með sínum nemendahópum munu senda foreldrum/forráðamönnum upplýsingar um það.
Það styttist svo og styttist í vetrarfríið okkar, en áður en það skellur á verða drungalegar verur á sveimi um bæinn á hrekkjavökunni, graskersútskurður með foreldrafélaginu, draugahús í félagsmiðstöðinni og margt fleira - nánar um það síðar.
Að lokum minnum við ykkur á að hafa samband ef eitthvað er, við erum hér fyrir ykkur.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa