Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla flaug áfram, veðrið var stillt og kalt og nemendur nutu þess að vera úti.
9. og 10. bekkur fór ásamt Elvu umsjónarkennara í heimsókn í MA og VMA þar sem þau kynntust námsframboði og skoðuðu heimavistina. Það var ekki annað að heyra en að nemendur hafi verið sáttir og voru þau til mikillar fyrirmyndar í þessari ferð.
Skáld í skólum heimsóttu nemendur í 5.-7. bekk en sjá má frétt og myndir frá þeirri heimsókn
hér.
Nemendur í 1.-3. bekk máluðu sig í tilefni af hrekkjavöku og voru ýmsar furðuverur á sveimi um skólann þann dag.
Myndir hér.
Þó veðrið sé gott er myrkrið svart og alltof algengt er að bæði fullorðnir og börn séu án endurskinsmerkja. Við biðlum kæru foreldrar, að vera fyrirmyndir, ganga með endurskinsmerki og gæta þess vel að börnin sjáist í myrkrinu, að fatnaður sé með endurskini að framan og aftan og ekki má gleyma að setja merki á töskur barnanna líka. Í leiðinni skulum við öll sem samfélag taka okkur saman og gæta að umferðarhraða, skafa rúðurnar vel þegar frostið bítur á þær og virða það að stöðva fyrir gangandi vegfarendum.
Nú er framundan vetrarfrí í Höfðaskóla mánu-, þriðju- og miðvikudag og kennsla hefst aftur fimmtudaginn 9. nóvember. Þann dag ætlum við að halda upp á dag umburðarlyndis, fræðast og ganga saman eina mílu sem fengið hefur titilinn míla umburðarlyndis. Öll sem vilja labba með okkur eru velkomin en farið verður frá Höfðaskóla kl. 10:00.
9. 10. og 13. nóvember verður kennaranemi í heimsókn hjá okkur en foreldrar/forráðamenn hafa fengið upplýsingar um það í tölvupósti.
Við vonum að þið njótið þess einkar vel að vera í vetrarfríi
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa