Föstudagskveðja í desember

Þá er desember genginn í garð og spennan fyrir jólunum eykst með hverjum deginum sem líður. Í dag kom skólablaðið Höfðafréttir út, en það má sjá hér. Í vikunni var fullt um að vera og við erum dugleg að setja inn fréttir á heimasíðuna og hvetjum ykkur til að fylgjast með. Hafdís lestraramma kom í heimsókn í vikunni, það er alltaf gaman þegar hún kemur í heimsókn og hittir nemendur. 

Mánudaginn 9. desember n.k. verða jólaljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni. 1. bekkur sér um að aðstoða Alexöndru sveitarstjóra við að tendra ljósin og eiga þau að mæta rétt fyrir kl. 17:00. 

Við höfum hægt og rólega verið að vinna í að endurgera jólamyndirnar sem voru í gluggum skólans hér á árum áður. Nokkrar myndir eru komnar upp á vesturhlið skólans og hvetjum við ykkur til að skoða þær :)

Breytingin á nestismálum hefur farið vel af stað og erum við að finna okkar takt í þessu öllu saman. 

Jólatónleikar tónlistarskólans voru í gær og stóðu nemendur sig með stakri prýði. Það er alltaf hátíðlegt að mæta á jólatónleikana þeirra og sjá þau spila og syngja.

Í næstu viku er jólapeysudagur á mánudag og hvetjum við öll til að mæta í jólapeysum. Á miðvikudag ætlum við að hlusta á jólasögu hjá Söndru og syngja með Hugrúnu og Elvari, á fimmtudag ætlum við að vera með smá jólaföndur og á föstudag ætlum við að fá okkur heitt kakó og piparkökur - semsagt, alltaf nóg um að vera. 

Næsta vika er síðasta heila skólavikan á þessu ári, litlu jólin okkar verða svo 18. desember en allar nánari upplýsingar um þau koma í næstu viku.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Gleðilegan annan sunnudag í aðventu
Með góðri kveðju
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín