Föstudagskveðja í vikulok

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Í gær var fyrsti söngsalurinn okkar í desember og fengum við góða heimsókn frá Ástrós Elís sem leiddi sönginn af sinni alkunnu snilld. Í dag var svo náttfatadagur hjá nemendum og starfsfólki og boðið var upp á heitt og kalt kakó og piparkökur í nestistímanum. 

Í næstu viku verður engin sundkennsla og fara nemendur í íþróttir í staðin svo það er mikilvægt að hafa með sér íþróttafötin. Við ætlum að bralla ýmislegt síðustu dagana fyrir jól.

Á mánudag verður verður smá jólagleði fyrir yngsta stig og aldrei að vita nema rauðklæddir karlar komi við hjá okkur. 

Á þriðjudag verður jólaföndur frá 10:00-11:30 þar sem nokkrar stöðvar verða í gangi og nemendur geta valið sér föndur. Þá verður einnig í boði að horfa á jólamynd fyrir þá sem ekki vilja föndra. 

Á miðvikudag verður jólasöngsalur þar sem Ástrós Elís leiðir söng. 

Á fimmtudag ætlum við að eiga notalega jólastund saman. Við förum í kirkjuna, hlustum á jólasögu sem Ástrós Elísdóttir les fyrir okkur uppúr nýju bókinni sinni, Jól undir Spákonufelli, syngjum nokkur jólalög og höfum gaman. Í hádeginu fáum við svo möndlugrautinn sem Stína okkar, Kristín Kristmundsdóttir ætlar að aðstoða okkur við að útbúa. Ein möndlugjöf verður fyrir hvern bekk og það verður spennandi að sjá hverjir verða hinir heppnu í ár :) Það verður ekki matur í Fellsborg þennan dag og enginn skóli eftir hádegi hjá mið- og unglingastigi. Frístund verður með hefðbundnu sniði. 
 
Á föstudag verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Ástrós Elís leiðir sönginn eins og svo oft áður :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. 

Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. 

Við erum komin í jólaskap og ætlum að njóta síðustu daganna fyrir frí saman.
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum jólakveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa