Föstudagskveðja skólastjórnenda

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Nemendur eru í óða önn að ljúka við námsmatsverkefni sem hefur gengið vel.
 
Veðrið hefur farið ljúfum höndum um okkur þó það hafi verið fremur kalt. Við klæðum okkur þá bara betur og þökkum fyrir að vera ekki að takast á við sama tíðarfar og í fyrra, en á þessum tíma á síðasta skólaári var búið að þurfa aflýsa skóla fjórum sinnum vegna veðurs. 
 
Í næstu viku er starfsdagur á mánudag og því enginn skóli hjá nemendum, hefðbundinn skóladagur verður á þriðjudag en á miðvikudag verða svo nemendaviðtöl. Nemendur mæta því ekki í hefðbundna kennslu á miðvikudag heldur einungis í sín viðtöl. Viðtölin bóka foreldrar í gegnum Mentor. Ef þær tímasetningar sem í boði eru henta alls ekki má hafa samband við umsjónarkennara í tölvupósti og fundin verður lausn á þeim málum. Á fimmtudag og föstudag verða svo hefðbundnir skóladagar og ný önn hefst. 
 
Lestrarkeppni á milli grunnskóla landsins verður haldin í annað sinn inni á samromur.is þar sem keppt verður um fjölda setninga sem nemendur lesa inn í Samróm. Forseti Íslands mun setja keppnina formlega af stað í Fellaskóla mánudaginn 18.janúar. Keppnin stendur yfir í viku og lýkur 25. janúar. Höfðaskóli ætlar í ár að taka þátt og biðjum við foreldra um að aðstoða börnin sín við að fara inn á síðuna, samromur.is  mánudaginn 18.janúar,  og skrá sig til leiks í Höfðaskóla.  Þessi keppni er hinsvegar ekki bara fyrir nemendur heldur geta allir í bæjarfélaginu lagt hönd á plóg og skráð sig inn í Höfðaskólahópinn og lesið.  Það er síðan framlag hópsins sem telur. Vegleg verðlaun eru fyrir þann skóla sem les mest.
 
Við minnum að lokum á að hafragrauturinn er á sínum stað alla þá morgna sem hefbundið skólastarf er, frá klukkan 7:45 og ánægjulegt er hversu margir nýta sér það. 
 
Við vonum að þið njótið langrar helgar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa