Í byrjun vikunnar kíktu rauðklæddir karlar í heimsókn til nemenda skólans, rétt aðeins til að minna á sig. Uppátæki þeirra vöktu mikla kátínu sérstaklega hjá nemendum yngsta stigs.
Í gærmorgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á jólaminningar Ingibergs Guðmundssonar. Hugrún spilaði og söng ásamt nemendum sem tóku undir af mikilli snilld. Í hádeginu var síðan boðið uppá möndlugraut sem Guðrún og Finnbogi hrærðu ásamt dyggu aðstoðarfólki.
Í dag voru litlu jólin, nemendur mættu margir hverjir í sínu fínasta pússi. Þrátt fyrir að fjöldatakmarkanir hefðu komið í veg fyrir að haldið yrði jólaball í íþróttahúsinu þá var sett upp jólatré og það skreytt í anddyri skólans. Nemendur komu svo eftir bekkjum og dönsuðu þar í kring og sungu. Myndir hér
Í dag lauk söfnuninni okkar til styrktar jólasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar, söfnuðust 70þúsund krónur sem munu án efa koma sér vel nú fyrir jólahátíðina. Þess má geta að ein amman gaf 1000kr fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum og kunnum við henni okkar bestu þakkir.
Þetta ár hefur verið viðburðarríkt og óhætt að segja að við séum enn að takast á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári.
Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar.
Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól.
Með jólakveðjum
Guðrún Elsa, Sara Diljá og Dagný Rósa
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |