Senn líður að því að skóli hefjist á ný eftir sumarfrí og verður skólasetning með sama hætti og undanfarin ár.
Skólasetning fyrir skólaárið 2024-2025 fer fram föstudaginn 23. ágúst 2024 og mæta nemendur beint í skólann í sínar heimastofur og eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að mæta með þeim.
Við gerðum örlitlar breytingar á hópaskiptingum fyrir komandi skólaár, en hóparnir og tímasetningar á skólasetningu eru sem hér segir:
1.-3. bekkur - 9:00-9:30 í Dvergastein
4.-6. bekkur - 9:30-10:00 í miðjustofu á efri hæð
7.-8. bekkur - 10:00-10:30 í Villingaholti
9.-10. bekkur - 10:30-11:00 í Skýjaborg
Eins og staðan er í dag eru 65 nemendur skráðir við skólann og verða skóladagar 175 talsins.
Lítið er um mannabreytingar hjá okkur en Ásdís Ýr Arnardóttir hefur sagt upp störfum og Esme kemur til baka úr barneignarleyfi. Að öðru leyti verður sami starfsmannahópur og var við skólalok í vor.
Umsjónarkennarar í ár verða:
1.-3. bekkur - Fjóla Dögg, Halla María og Vigdís Elva
4.-6. bekkur - Þorgerður Þóra
7.-8. bekkur - Dagný Rósa
9.-10. bekkur - Elva
Frístund verður starfrækt eins og undanfarin ár og er hún í boði fyrir nemendur í 1.-4. bekk eftir að kennslu lýkur á daginn. Starfsmenn frístundar verða þau Erna Ósk, Esme og Hrafnkell Heiðarr. Frístund stendur öllum nemendum í þessum bekkjum til boða endurgjaldslaust út ágúst en frá 1. september hafa aðeins skráðir nemendur aðgang. Skráning fer fram hér.
Sú breyting hefur orðið að nú er hádegismatur gjaldfrjáls og ávaxtastund verður alla daga vikunnar. Nemendur eiga því ekki að koma með nesti í skólann. Matráður verður Daniela Esme og henni til aðstoðar Kristín Þórhallsdóttir. Mikilvægt er að skrá nemendur í mat þó að ekki þurfi að greiða fyrir hann, skráning fer fram hér.
Sund verður kennt á mánu- og þriðjudögum í ágúst, september, október, mars, apríl og maí.
Hafragrauturinn verður áfram í boði alla virka morgna frá kl. 7:45.
Ekki hika við að hafa samband ef spurningar vakna, við erum hér fyrir ykkur.
Foreldrar/forráðamenn verðandi 1. bekkinga munu heyra frá umsjónarkennurum áður en skólasetning fer fram.
Skólaárið 2024-2025 hefst 23. ágúst 2024 og þar með segi ég Höfðaskóla settan.
Ég hlakka til samstarfsins með ykkur í vetur.
Kær kveðja
Sara Diljá
skólastjóri
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |