Hefð er fyrir því að nemendur í 10. bekk fari í skólaferðalag að vori. Stundum hefur verið farið til útlanda en að þessu sinni var ákveðið að fara í innanlandsferð og fara um Norðurland, enda hefur það uppá margt að bjóða. Nemendur, með dyggri aðstoð foreldra, söfnuðu fyrir skólaferðinni og vija þakka öllum þeim er studdu við þá í fjáröflun vetrarins.
Farið var á tveimur bílum sem Dagný Rósa og Lilja Dögg keyrðu.
Hér að neðan er ferðasaga þeirra og hér er hægt að sjá myndir:
Mánudagur 10. maí
Við byrjuðum daginn á að fara í River Rafting á Bakkaflöt það var mjög gaman, meiria að segja hoppuðu sumir nemendur af kletti í vestur Jökulsá. Við fengum góðan pastarétt í hádegismat á Bakkaflöt og keyrðum svo til Akureyrar og fórum í sund. Eftir sundið fengum við okkur ís hjá Ísgerðinni og fórum síðan upp á hótel sem er staðsett í Kjarnaskógi og heitir Hótel Kjarnalundur. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu fórum við á Hamborgarafabrikkuna, drifum okkur að borða þar og fórum svo í bíó og enduðum daginn á því að fara í feluleik í Kjarnaskógi ásamt því að villast þar.
Þriðjudagur 11.maí
Við byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunmat upp á hóteli. Eftir góðan morgunverð fórum við í búðarrölt á Glerártorgi og mættum klukkan 11:45 við Hof þar sem við fórum á Paddleboard og fengum að hoppa í sjóinn. Flestum fannst það skemmtilegasta í ferðinni. Eftir það keyrðum við til Mývatns þar sem við fórum á Fuglasafn Sigurgeirs og skoðuðum margar tegundir af fuglum. Við keyrðum síðan í kringum Mývatn og skoðuðum nokkra hveri við Námafjall og eftir það fórum við í jarðböðin á Mývatni. Við keyrðum svo til baka og seinna sama kvöld fengum við okkur að borða á veitingastaðnum Verksmiðjan. Við enduðum daginn þannig að allur bekkurinn fór saman á blakvöllinn í Kjarnaskógi og við spiluðum öll blak, síðan fórum við öll upp á hótel og spjölluðum saman til klukkan sirka 01:30.
Miðvikudagur 12. maí
Við byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunmat upp á hóteli og sumir sváfu yfir sig. Við pökkuðum dótinu okkar saman og hlóðum svo dótinu okkar í bílinn.Við byrjuðum á að keyra upp að gróðrastöðinni í Kjarnaskógi til að sækja trjáplöntur fyrir skólann og svo fórum við upp á Hamra og lékum okkur þar. Við fórum svo í miðbæinn og fengum okkur hádegismat og sumir versluðu sér eitthvað. Keyrðum svo til Hauganess og fórum í hvalaskoðun og stór hluti af nemendunum fengu sér góðan lúr á bátnum og flestir sólbrunnu. Við sáum 3 hnúfubaka í ferðinni. Á heimleiðinni fengu allir að prófa sjóstangveiði og flestir veiddu þorsk. Eftir það keyrðum við aftur til Akureyrar og fengum okkur aftur kvöldmat á Hamborgarafabrikkunni. Fórum svo í bílana og skemmtum okkur konunglega á heimleiðinni, stoppuðum síðan í Varmahlíð og fengum okkur ís og keyrðum svo heim.
Þessi bekkur hefur aldrei verið svona mikið saman fyrr en þarna við vorum alltaf saman gerðum allt saman allan tímann. Okkur samdi mjög vel og við munum aldrei gleyma þessari ferð. Við munum sakna hvers annars mikið og við meira segja sögðum að við ættum að hittast öll aftur á sama hóteli eftir framhaldsskóla og sjá hversu mikið við höfum breyst. Við skrifuðum svo nafnið okkar á blakboltann sem við notuðum í blakinu og ætlum að stilla honum upp í féló til að hafa sem minjagrip. Okkur finnst að það ætti að vera svona ferðalag um vorið eða einhvern tímann fyrr yfir skólaárið, þannig að bekkirnir myndu vera meira saman að því að það væri mjög eftirminnilegt eins og ferðin okkar var.
Kveðja, 10. bekkur 2020-2021
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |