17.01.2025
Vikan í Höfðaskóla gekk vel og allt í einu er janúar hálfnaður. Á miðvikudaginn var viðtalsdagur hjá okkur og þökkum við öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna. Það er gott þegar foreldrar/forráðamenn skrá sig í viðtöl og mæta því samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli. Foreldrakönnun var send út í gær og biðjum við ykkur um að svara henni fyrir 30. janúar en könnunin er hluti af innra mati skólans.
Við fengum allskonar veður í vikunni, rigningu og snjó og enn og aftur minnum við á að gott er ef nemendur, þá sérstaklega á yngsta stigi, eru með auka sokka og buxur í skólatöskunni og komi alltaf klædd eftir veðri. Við förum út alla daga og það er vont að verða blautur og kaldur.
Í næstu viku verður starfsdagur á föstudeginum en þá ætlar starfsfólk skólans á skyndihjálparnámskeið. Slík námskeið eru mjög mikilvæg og pössum við uppá að fara alltaf reglulega á upprifjunarnámskeið. Einar Óli kemur til okkar og heldur námskeiðið.
Ef einhver náðu ekki að bóka viðtöl en vilja fá slík er ekkert mál að hafa samband við umsjónarkennara og þeir finna tíma með ykkur. Eins ef einhver telur sig ekki hafa náð að fara yfir allt í viðtalinu í vikunni má að sjálfsögðu óska eftir öðru viðtali.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
10.01.2025
Gleðilegt nýtt ár :)
Nú er allt komið á fullt aftur eftir gott jólafrí og fyrsta skólavika ársins að klárast. Nemendur virðast almennt ánægðir með að vera komnir aftur í rútínuna sína og gott að allt sé farið að rúlla aftur eftir gott frí.
Í vikunni unnu nemendur ýmis verkefni og nemendur 7. bekkjar fóru í skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði með Gísla kennara. Það var ekki annað að heyra á hópnum þegar þau komu heim seinnipartinn í gær en að þau hafi skemmt sér vel, eignast fullt af nýjum vinum og styrkt tengslin við gamla vini. Á Reykjum brölluðu krakkarnir margt skemmtilegt, en stelpurnar dressuðu, máluðu og greiddu til dæmis strákunum fyrir tískusýningu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, glæsilegir báðir tveir þeir Arnar Gísli og Sigurjón Ýmir.
Miðvikudaginn 15. janúar n.k. er viðtalsdagur hjá okkur og því ekki hefðbundin kennsla né frístund þann dag. Umsjónarkennarar munu senda foreldrum upplýsingar um fyrirkomulag viðtala ásamt upplýsingum um hvar eigi að skrá sig, en fyrirkomulagið getur verið aðeins mismunandi milli kennara.
Veðurspáin fyrir næstu viku er frekar blaut og því minnum við á að það er mjög gott ef nemendur eru með auka sokka í töskunni og jafnvel að þessi yngstu séu einnig með auka buxur. Mikilvægast er svo að koma klædd eftir veðri og muna eftir endurskinsmerkjunum.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Við hlökkum til samstarfsins á komandi ári
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
06.01.2025
Nemendur 8. bekkjar heimsóttu yngri nemendur í 1. og 2. bekk í dag og áttu skemmtilega stund saman. Nemendurnir spiluðu allskonar spil og nutu samverunnar.
Bæði yngri og eldri nemendur fengu tækifæri til að kynnast betur og efla samhug.
Lesa meira
19.12.2024
Í gær var dregið úr nöfnum þeirra sem skiluðu réttum svörum í stærðfræðiþrautum Flatar.
Úr 5. og 6. bekk var Kristján Sölvi Guðnason dreginn út.
Úr 7. og 8. bekk var Sædís Hrund Stefánsdóttir dregin út.
Úr 9. og 10. bekk var Andri Snær Björnsson dreginn út.
Á myndunum með þeim er Elva stærðfræðikennari.
Til hamingju krakkar :)
Lesa meira
18.12.2024
Í dag var síðasti skóladagur ársins sem endaði á skemmtilegri stund þegar litlu jólin voru haldin með breyttu sniði. Í morgun voru nemendur með sínum umsjónarkennurum og brölluðu ýmislegt skemmtilegt. Hugrún Sif og Jón Ólafur leiddu söng á söngsal og spiluðu undir, nemendur fóru í ratleik, spurningakeppnir og margt fleira skemmtilegt. Við fórum svo öll saman í hádeginu og borðuðum möndlugrautinn sem að þessu sinni var borðaður í Fellsborg.
Seinnipartinn mættum við svo aftur prúðbúin, áttum góða stund í skólanum áður en við héldum í Fellsborg þar sem Esme, Kristín og Atli voru búin að undirbúa dásamlegan hátíðarkvöldverð og dagurinn endaði svo á jólaballi, þar sem Hugrún Sif og Jón Ólafur voru aftur mætt til að leiða söng og dans.
Nemendur héldu svo í jólafrí og mæta aftur í skólann mánudaginn 6. janúar 2025.
Við þökkum öllum sem gerðu daginn að því sem hann var, við erum í skýjunum með þetta allt saman. Myndir hér.
Lesa meira
18.12.2024
Nemendur á yngsta stigi fengu góðan gest í heimsókn í morgun. Magnús B. Jónsson kom og las bókina sína, Horaða jólatréð og sýndi okkur jólatréð úttálgað.
Þökkum við Magga kærlega fyrir komuna, alltaf gaman þegar við fáum gesti
Lesa meira
18.12.2024
Þær stöllur Dadda og Sigrún tóku á móti krökkunum á yngsta stigi, lásu jólasögu um hann Askasleikir og sýndu þeim ask. Nemendurnir voru áhugasöm og öll höfðu gaman af. Áður en haldið var til baka í skólann fengu allir gullpening úr kistu Þórdísar. Við Þökkum kærlega fyrir okkur, alltaf notalegt að koma í Spákonuhofið.
Lesa meira
17.12.2024
Á morgun er síðasti skóladagurinn fyrir jólafrí. Nemendur verða með sínum umsjónarkennurum frá 8:20-12:00, frístund verður með hefðbundnu sniði eftir hádegi og svo hefjast litlu jólin í skólanum kl. 17:00. Við höldum svo í Fellsborg og borðum hátíðarkvöldverð og dönsum kringum jólatréð. Eftir það halda nemendur og starfsfólk í jólafrí.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar og komandi ári. Takk fyrir samstarfið á árinu. Við hlökkum til að hitta nemendur aftur, mánudaginn 6. janúar kl. 8:20.
Við vonum að þið njótið hátíðanna
Jólakveðja frá starfsfólki Höfðaskóla
Lesa meira