Fréttir

Páskabingó

Nemendur Höfðaskóla spiluðu páskabingó í dag og skapaðist skemmtileg stemning í tilefni páskanna. Fjölbreyttir og glæsilegir vinningar voru í boði, og nutu nemendur þess að taka þátt og eiga notalega stund saman. Ekki fengu öll vinning sem vildu en það er hægt að draga lærdóm af því :) Nemendafélagið vill koma á framfæri innilegu þakklæti til eftirfarandi fyrirtækja og aðila fyrir rausnarlegan stuðning og vinninga: Skíðadeild Tindastóls Vilko Hólanes Viva Hársnyrtistofa Þórdísar Teni N1 Skagfirðingabúð Kaupfélag Vestur Húnvetninga Kjörbúðin Skagaströnd Gránu Bistro Stuðningur sem þessi skiptir miklu máli fyrir félagslíf nemenda og er afar vel metinn. Nemendafélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn og óskar öllum gleðilegra páska! Skemmtileg stund - myndir hér.
Lesa meira

Páskakveðja

Síðasta vikan fyrir páskafrí var lífleg og skemmtileg hjá okkur. Nemendur unnu ýmis verkefni og nutu veðurblíðunnar þess á milli. Í gær fengum við góða heimsókn þegar nemendur í 2.-.4. bekk sáu leikritið Krakkarnir í hverfinu en það er leikþáttur þar sem brúður eru notaðar til að fræða börnin um ofbeldi og mikilvægi þess að börn segi frá. Í dag stendur nemendafélagið svo fyrir páskabingói fyrir alla nemendur skólans sem verður spennandi :) Við höldum svo í páskafrí eftir daginn í dag og mætum aftur í skólann þriðjudaginn 22. apríl. Vikan eftir páska verður óhefðbundin þar sem sumardagurinn fyrsti kemur á fimmtudeginum eftir páska og því bara skóli þriðjudag, miðvikudag og föstudag. Síðustu vikurnar fyrir sumarfrí verður svo nóg um að vera, íþróttadagur unglinga mun fara fram á Hvammstanga, við ætlum að vera með umhverfisdag, íþróttadagur miðstigs fer fram í Húnabyggð og margt fleira - nánar um það síðar. Við vonum að þið eigið góða páska og hlökkum til að hitta nemendur endurnærð eftir gott frí Með páskakveðju Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Tilraunagleði

Á miðvikudaginn fengu nemendur í tilraunavali skemmtilega heimsókn frá krökkunum í frístund. Nemendurnir höfðu undirbúið fjölbreyttar og spennandi tilraunir sem þeir sýndu gestunum sínum. Á meðal tilrauna má nefna hraðfrjósandi vatn, heimagerðan hraunlampa og oobleck-slím sem breytir hegðun sinni eftir því hvort það er hreyft eða ekki. Nemendurnir útskýrðu af mikilli fagmennsku hvað tilraunirnar sýndu og svöruðu spurningum yngri krakkanna með bros á vör. Krakkarnir í frístund voru mjög áhugasamir og höfðu greinilega gaman af heimsókninni. Þegar þau voru spurð hvað hefði verið skemmtilegast, áttu þau erfitt með að velja – allt var svo spennandi! Myndir hér.
Lesa meira

Fjársjóðsleit í útikennslu

Í dag tóku nemendur þátt í skemmtilegu útinámi þar sem þeir æfðu kortalæsi, upplýsingalestur og leiðsögn. Verkefnið fór fram á tjaldsvæðinu og var unnið í fimm hópum. Hver hópur faldi sinn fjársjóð og bjó til kort sem leiddi að honum. Síðan skiptu hóparnir á kortum og leituðu að fjársjóðum hvers annars. Nemendur þurftu að lesa kortin, fylgja leiðbeiningum og sýna sköpunargleði við gerð eigin korta. Verkefnið efldi læsi, samvinnu og gagnrýna hugsun á lifandi og skemmtilegan hátt. Þetta er hluti af markvissu starfi við að samþætta nám og leik í daglegu skólastarfi.
Lesa meira

Frá eggjabakka til listaverks

Nemendur yngsta stigs Höfðaskóla hafa undanfarið verið að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem snúa að fuglum. Sérstök áhersla var lögð á lóuna, þar sem margir tengja við vorið og endurkomu bjartari tíma. Hugmynd verkefnanna var meðal annars sótt í bókina Lói, þú flýgur aldrei einn, sem fjallar á fallegan hátt um vináttu, tilfinningar og samkennd í gegnum ævintýri fuglsins Lóa. Nemendur unnu út frá efni bókarinnar og létu sköpunargleðina flæða. Nemendur gerðu litríka fuglal úr pappamassa, gerður var úr gömlum eggjabökkum. Verkefnið var því ekki aðeins skapandi heldur líka umhverfisvænt, enda Höfðaskóli stoltur skóli á grænni grein. Nýting á annars ónýtu efni í listsköpun er í fullkomnum takti við þær áherslur sem skólinn leggur á sjálfbærni og umhverfisvitund. Verkefnin voru bæði fræðandi og skemmtileg og sýna vel hvernig hægt er að samþætta náttúrufræði, bókmenntir, listsköpun og umhverfismennt á lifandi og skapandi hátt.
Lesa meira

Nemendur í 5. og 6. bekk tóku til hendinni

Í morgun lögðu nemendur í 5. og 6. bekk Höfðaskóla sitt að mörkum til hreinna umhverfis með því að tína rusl í nágrenni skólans. Það var af nógu að taka og voru krakkarnir dugleg við að tína upp það sem hafði safnast í kringum skólalóðina og nærliggjandi svæði. Verkefnið var liður í umhverfismennt og góð áminning um mikilvægi þess að ganga vel um og sýna umhverfinu virðingu. Nemendur stóðu sig frábærlega og sýndu bæði samvinnu og samfélagslega ábyrgð.
Lesa meira

Páskastemning í bakstursvali

Nemendur á unglingastigi í bakstursvali bjuggu til girnilegar rice krispies körfur í dag í tilefni af páskunum. Körfurnar voru fjölbreyttar að útliti og innihalda sumar rjóma og aðrar ekki. Skreyttar með litlum páskaeggjum. Nemendurnir unnu af mikilli vandvirkni og skapaðist skemmtileg stemning meðal þeirra. Svona verkefni sýna hversu fjölbreytt og skemmtilegt heimilisfræðinám getur verið.
Lesa meira

Föstudagskveðja í blíðunni

Þá er aldeilis viðburðarík vika að líða undir lok í Höfðaskóla. Nemendur í 8. og 9. bekk drógu úr happdrættinu sínu sem var vel heppnað. Í gær var árshátíðin okkar og heppnaðist hún með eindæmum vel. Nemendur léku á alls oddi og voru alveg frábær á sviðinu öll sem eitt, hvort sem um ræðir þau sem tóku þátt í leikþáttum, söng, dansi, sviðsmenn, ljósamenn, tæknimenn og hvað eina :) Við erum mjög stolt af þeim og þeim ótrúlegu framförum sem mörg hafa tekið. Þetta er ekki auðvelt fyrir mörg að stíga á svið og því er óhætt að segja að hver stórsigurinn af öðrum hafi unnist í gær. Þá er vert að þakka öllum þeim sem lögðu til góðgæti á kökuhlaðborðið og gestunum sem mættu. Þetta var samvinnuverkefni sem heppnaðist eins og best verður á kosið. Í næstu viku, sem er síðasta vikan fyrir páskafrí verður eitt og annað upp á teningnum. Nemendur munu vinna ýmis verkefni sem sett voru í bið á meðan á árshátíðarundirbúning stóð og við endum svo vikuna á páskabingó með öllum nemendum skólans í boði nemendafélagsins. Nú fer hver að verða síðastur að panta ljósmyndir sem teknar voru fyrir stuttu en allar upplýsingar um hvernig þið snúið ykkur í þeim efnum bárust ykkur í tölvupósti. Frá og með mánudeginum n.k. verður ekki hægt að panta myndir. Við vonum að þið njótið helgarinnar og kærar þakkir aftur fyrir komuna í gær Með góðum kveðjum Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Happdrætti - vinningaskrá

Í gær var dregið í happdrætti 8. og 9. bekkjar Höfðaskóla. Við þökkum öllum þeim sem keyptu af okkur miða og gáfu okkur vinninga fyrir happdrættið. Kærar kveðjur frá 8. og 9. bekk.
Lesa meira

Árshátíð Höfðaskóla

Árshátíð Höfðaskóla fer fram fimmtudaignn 3. apríl n.k. Leiksýningar hefjast kl. 17:00. Eftir leiksýningar verður kökuhlaðborð og svo endum við daginn á diskóteki. Nemendur í 1.-4. bekk mega vera til kl. 19:00 og nemendur í 5.-10. bekk til kl. 20:00. Hlökkum til að sjá ykkur :)
Lesa meira