14.03.2025
Vikan í Höfðaskóla gekk vel, veðrið lék við okkur og það birtir með hverjum deginum sem líður. Nemendur fengust við ýmis verkefni og við reynum að vera dugleg að setja fréttir á heimasíðuna sem og myndir. Í gær fóru nemendur í 9. og 10. bekk til Reykjavíkur á sýninguna mín framtíð og gekk ferðalagið vonum framar og voru krakkarnir til fyrirmyndar í einu og öllu. Í gær fóru einnig nokkrir nemendur á skíði í Tindastól og skemmtu sér vel.
Í kvöld fara nemendur í 8.-10. bekk á söngvakeppnina Norðurorg sem er undankeppni fyrir söngvakeppni Samfés. Keppnin verður haldin á Sauðárkróki þetta árið og verður eflaust mjög skemmtilegt hjá þeim.
Mánudaginn 17. mars n.k. ætlum við að flagga Grænfánanum í annað skipti þar sem við vorum að fá endurvottun. Það er alltaf gaman að uppskera eftir góða vinnu.
Föstudaginn 21. mars n.k. verður starfsdagur í skólanum, en þann dag ætlar allt starfsfólk sveitarfélagsins að fara saman á námskeið sem verður án efa bæði gagnlegt og skemmtilegt.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
13.03.2025
Í dag fóru nemendur í valgreininni útivist og skíði á skíði upp í Tindastól. Öll stóðu þau sig frábærlega, veðrið var með besta móti og færið gott. Góður dagur með flottum krökkum. Myndir hér.
Lesa meira
07.03.2025
Sæl öll
Vikan í Höfðaskóla leið hratt og var afar fjölbreytt.
Á mánudaginn héldum við upp á bolludaginn, og fengu allir nemendur skólans ljúffenga bollu í morgunkaffinu. Á sprengidaginn, þriðjudag, var boðið upp á saltkjöt og baunir í hádeginu. Vikan náði svo hápunkti á miðvikudaginn þegar öskudagurinn var haldinn hátíðlegur. Nemendur og starfsfólk mættu í alls konar búningum, og var sannkölluð skemmtun í loftinu. Öskudagsball var haldið í íþróttahúsinu kl. 16:00 fyrir alla og síðar um kvöldið í félagsmiðstöðinni fyrir unglingana. Myndir frá deginum má nálgast hér.
Sundkennsla hófst í vikunni, og að því tilefni ákvað veðrið að stríða okkur aðeins – en það var auðvitað ekkert sem hörkutól Höfðaskóla réðu ekki við!
Mánudaginn næstkomandi mun Einar Óli Fossdal, sjúkraflutningamaður, halda skyndihjálparnámskeið fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Þá fara nemendur í þessum bekkjum á fimmtudaginn til Reykjavíkur á stóru framhaldsskólakynninguna Mín framtíð í Laugardalshöll.
Nemendur yngsta stigs hafa verið dugleg að nýta fjölbreytt veðrið undanfarið til útiveru, og því skiptir miklu máli að allir séu vel klæddir til að geta notið hennar sem best.
Að lokum má nefna að undirbúningur fyrir árshátíðina okkar, sem fer fram 3. apríl, er hafinn!
Lesa meira
06.03.2025
Nemendur skólans mættu galvösk í skólann í gærmorgun, öskudag. Margir klæddust skrautlegum búningum og var gleðin við völd. Eftir hádegið héldu sönghópar af stað með bros á vör og fylltust fljótt fyrirtæki og verslanir af börnum sem sungu fyrir nammi sem gæti enst fram á sumar (eða allavegana fram að helgi).
Lesa meira
04.03.2025
Kennslu fellur niður eftir hádegið á morgun, öskudag, hjá nemendum skólans.
Nemendum 1.-4.bekkar stendur til boða að mæta í frístund og fara með hópnum milli fyrirtækja og syngja fyrir nammi.
Minnum á grímuball í íþróttahúsinu frá kl. 16:00-17:30 í íþróttahúsinu.
Einnig er grímuball fyrir nemendur unglingastigs kl. 19:30-21:30 í félagsmiðstöðinni.
Lesa meira
28.02.2025
Heil og sæl!
Vikan var stutt hjá okkur með aðeins þrjá skóladaga eftir gott vetrarfrí.
Í næstu viku hefst sundkennsla á ný, og hún verður áfram á mánudögum og þriðjudögum eins og fyrir áramót. Allir nemendur skólans verða keyrðir í sund, en íþróttatímar á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum haldast óbreyttir.
Bolludagur er mánudaginn 3. mars, og þá verða bollur í boði fyrir nemendur skólans í morgunkaffinu ásamt hafragraut og ávöxtum.
Öskudagur er miðvikudaginn 5. mars, og þá mæta nemendur og kennarar í búningum til að gera sér glaðan dag. Nemendum í 1.–4. bekk stendur einnig til boða að taka þátt í frístund og fara með hópnum milli fyrirtækja til að syngja fyrir nammi.
Lesa meira
27.02.2025
Á miðvikudaginn í síðustu viku tóku nemendur í tilraunavali þátt í keppni þar sem markmiðið var að hanna leið til að vernda egg gegn skemmdum þegar það var látið falla úr mikilli hæð.
Eins og má sjá á meðfylgjandi myndum nýttu nemendur fjölbreyttan efnivið og skapandi hugsun til að leysa áskorunina. Reyndu sumir að nota fallhlífar til að koma egginu sínu öruggu niður til jarðar, á meðan aðrir notuðu blöðrur, pappakasa, tuskur, sykurpúða, og önnur mjúk efni til að draga úr álagi við lendingu. Hópurinn sem vann keppnina var valinn fyrir frumlegustu hönnunina og fyrir að halda egginu sínu óskemmdu.
Viðburðurinn reyndist nemendum bæði skemmtilegur og fræðandi og gaf þeim tækifæri til að speyta sig í hönnun og verkfræði á áhugaverðan hátt.
Lesa meira
26.02.2025
Glitrandi dagur í Höfðaskóla föstudaginn 28.febrúar. Við ætlum að glitra með einstökum börnum. Markmiðið er að vekja athygli á degi sjaldgæfra sjúkdóma og heilkenna. Við hvetjum öll til að mæta glitrandi í skólann.
Lesa meira
21.02.2025
Þá er skólavikan að renna sitt skeið og vetrarfrí hjá nemendum og starfsfólki handan við hornið en frí verður á mánudag og þriðjudag.
Í vikunni var ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt brallað. Nemendur unnu ýmis verkefni innandyra og utan og nemendur í 8.-10. bekk svöruðu íslensku æskulýðsrannsókninni. Í list- og verkgreinum unnu nemendur fjölbreytt verkefni og á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá afrakstur vinnu í textíl hjá nemendum á miðstigi.
Veðrið hefur leikið við okkur og verið hálfgert vor í lofti þrátt fyrir að við séum stödd í febrúar. Nemendur hafa sumir hverjir dregið fram hjólin sín og því minnum við á mikilvægi þess að nemendur séu með hjálma þegar hjólað er.
Í gær stóð nemendafélagið fyrir bíó kvöldi fyrir nemendur á miðstigi sem heppnaðist mjög vel, nemendur horfðu á myndina Goosbumps og fengu popp og drykk.
Næsta vika verður stutt v. vetrarfrís en föstudaginn 28. febrúar verður glitrandi dagur í Höfðaskóla en þann dag tökum við þátt í viðburði Einstakra barna þar sem markmiðið er að vekja athygli á sjaldgjæfum sjúkdómum og heilkennum. Við hvetjum öll til að sýna stuðning og mæta í einhverju glitrandi í skólann þann dag.
Við vonum að þið njótið vetrarfrísins
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira