Fréttir

Annáll og jólakveðja stjórnenda

Heil og sæl Hér kemur síðasta föstudagskveðja ársins 2020. Senn er hið viðburðaríka 2020 á enda og margt sem hefur sett svip sinn á skólastarfið hjá okkur. Janúar og febrúar voru með rólegra móti. Veðrið lék okkur aðeins grátt sem hafði áhrif á skólahaldið. Við gerðum þó ýmislegt, unnum að umhverfissáttmála skólans og birtum hann á heimasíðu, yngsta stig hélt þorrablót, 112 dagurinn var haldinn 11. febrúar og fengum við skemmtilega heimsókn frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitinni Strönd. 17. febrúar héldu nemendur í viðburðarstjórn Bingó þar sem allur ágóði rann til Krabbameinsfélags Austur Húnavatnssýslu. Í lok febrúar var svo öskudagurinn þar sem hinar ýmsu verur mættu í skólann og í lok febrúar var formlega tekið í notkun nýtt bókasafn Höfðaskóla.
Lesa meira

Sögustund og möndlugrautur

Í morgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á lestur úr bókinni hennar Ástrósar Elísdóttur okkar einnig var sungið og trallað. Þegar allir komu til baka í skólann var mynduð friðarkeðja og kærleiksljós látið ganga. Í hádeginu í dag var boðið uppá möndlugraut sem stýrurnar og Stína hrærðu.
Lesa meira

Söfnun fyrir Neistann

Á morgun líkur söfnuninni okkar fyrir Neistann styrktarfélag hjartveikra barna. Í dag barst okkur framlag í söfnunina frá kvenfélaginu Heklu í Skagabyggð og þökkum við þeim kærlega fyrir.
Lesa meira

Jólapóstur

Samningar hafa náðst við þá jólasveinabræður og þeir eru væntanlegir til byggða á Þorláksmessu til þess að bera út pakka og bréf. Þeir taka ekki annað í mál en að gæta sóttvarna og verða að sjálfsögðu með grímur og hanska. Þeir sem vilja nýta sér þjónustu þeirra geta hitt umboðsmenn þeirra við kennarainngang Höfðaskóla þann 21. desember kl. 18.00 – 20.00
Lesa meira

Jólaföndurdagur

Í dag var jólaföndurdagur í Höfðaskóla. Nemendur allra bekkja gátu þá flakkað um skólann og komið við á hinum ýmsu föndurstöðvum. Einnig var hægt að horfa á myndina Home alone í einni af kennslustofum unglingastigs. Krakkarnir skemmtu sér konunglega.
Lesa meira

Heimsókn jólasveina

Þessir fögru jólasveinabræður skelltu sér til byggða í dag. Þegar þeir sáu mannlausa skólalóðina ákváðu þeir að álagsprófa leiktækin. Tækin stóðust álagið og vakti þetta uppátæki mikinn fögnuð nemenda Höfðaskóla sem stóðu út í glugga og fylgdust með hamaganginum.
Lesa meira

Heimsókn á yngsta stig

Yngsta stig fékk óvænta heimsókn í vikunni, það var hann Snjálfur jólaálfur. Hann er mjög uppátækjasamur og hefur gert hina og þessa hluti og falið sig á ólíklegustu stöðum. Mikil gleði og spenna hefur verið í nemendahópnum vegna heimsóknar hans. Snjálf má þó ekki snerta, þá missir hann töframáttinn. Hann varð fyrir því óláni að verða snertur og hvarf þá um stundarsakir. Upphófst þá mikill grátur og mikil sorg, hann var fljótur að jafna sig og birtist aftur í mikla gleði og fagnarðlæti. Bestu kveðjur nemendur og starfsfólk yngsta stigs.
Lesa meira

Sigruðu í stuttmyndasamkeppni

Í nóvember stóð yfir stuttmyndakeppni á landsvísu fyrir 8. -10. bekkinga og var þemað kvikindi í hvaða formi sem er. Nemendur unglingastigs unnu með ævintýraþema í nóvember og þótti tilvalið að hafa eitt verkefnið sem stuttmynd sem væri þá hægt að skila inn í keppnina. Alls sendu nemendur Höfðaskóla 4 stuttmyndir í keppnina. Í dag voru úrslit kynnt og þær Arnrún Hildur, Helga Margrét, Ísabella Líf, Karen Líf og Sóley Sif sigruðu keppnina með myndinni Gilitrutt. Við óskum þeim kærlega til hamingju með sigurinn.
Lesa meira

Föstudagskveðja í vikulok

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Í gær var fyrsti söngsalurinn okkar í desember og fengum við góða heimsókn frá Ástrós Elís sem leiddi sönginn af sinni alkunnu snilld. Í dag var svo náttfatadagur hjá nemendum og starfsfólki og boðið var upp á heitt og kalt kakó og piparkökur í nestistímanum. Í næstu viku verður engin sundkennsla og fara nemendur í íþróttir í staðin svo það er mikilvægt að hafa með sér íþróttafötin. Við ætlum að bralla ýmislegt síðustu dagana fyrir jól. Á mánudag verður verður smá jólagleði fyrir yngsta stig og aldrei að vita nema rauðklæddir karlar komi við hjá okkur. Á þriðjudag verður jólaföndur frá 10:00-11:30 þar sem nokkrar stöðvar verða í gangi og nemendur geta valið sér föndur. Þá verður einnig í boði að horfa á jólamynd fyrir þá sem ekki vilja föndra. Á miðvikudag verður jólasöngsalur þar sem Ástrós Elís leiðir söng. Á fimmtudag ætlum við að eiga notalega jólastund saman. Við förum í kirkjuna, hlustum á jólasögu sem Ástrós Elísdóttir les fyrir okkur uppúr nýju bókinni sinni, Jól undir Spákonufelli, syngjum nokkur jólalög og höfum gaman. Í hádeginu fáum við svo möndlugrautinn sem Stína okkar, Kristín Kristmundsdóttir ætlar að aðstoða okkur við að útbúa. Ein möndlugjöf verður fyrir hvern bekk og það verður spennandi að sjá hverjir verða hinir heppnu í ár :) Það verður ekki matur í Fellsborg þennan dag og enginn skóli eftir hádegi hjá mið- og unglingastigi. Frístund verður með hefðbundnu sniði. Á föstudag verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Ástrós Elís leiðir sönginn eins og svo oft áður :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. Við erum komin í jólaskap og ætlum að njóta síðustu daganna fyrir frí saman. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum jólakveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Stuð á miðstigi

Nemendur á miðstigi voru að vinna með stöðurafmagn, athuguðu hvort væri hægt að beygja vatn, kveikja á ljósaperum með batteríi og læra að skipta um klær á innstungum. Mjög fróðlegt og skemmtilegt.
Lesa meira