19.11.2021
Heil og sæl
Róleg og góð vika að baki, nemendur eru að klára hin ýmsu verkefni og kennarar farnir að undirbúa, sérstaklega fyrir yngri krakkana, þemaverkefni um jólin.
Dagur íslenskrar tungur var 16.nóvember og nýttu nemendur á yngsta stigi daginn í að semja póstkort og senda á vini og ættingja. Þetta framtak heppnaðist mjög vel og viðtakendur himinsælir með framtakið.
Nemendur á miðstigi taka þátt í spurningakeppni í sama dúr og Kappsmál á hverjum föstudegi fram að jólum. Fyrsta skiptið var í morgun og allir skemmtu sér konunglega bæði þeir sem tóku þátt og horfðu á.
Í næstu viku breytum við stundatöflunni á unglingastigi og tökum list- og verkgreinaviku, frá mánudegi til fimmtudags. Nemendum unglingastigs verður skipt í 4 hópa og fara í verklega kennslu milli kl. 8:20 og 12:00. Það sem kennt verður er: heimilisfræði, myndmennt, tálgun og plastvinna.
Eins og tíðin hefur verið undandarið er myrkrið og snjórinn allsráðandi á morgnana og því viljum við minna á endurskinsmerkin.
Nemendur hafa verið ansi snjóugir og blautir eftir útivist undanfarna daga og gott væri ef auka sokkapar myndi leynast í tösku sem hægt væri að grípa til.
Vonandi eigið þið ánægjulega helgi
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
17.11.2021
Foreldrafélag Höfðaskóla ætlar að selja piparkökuhús og skreytingasett.
Pakkinn inniheldur:
- piparkökuhús
- glassúr tilbúinn í sprautupoka (rauður og hvítur)
- sælgæti
Verð 2700kr.
Hægt er að panta húsin til 22.nóvember og húsin verða svo afhend 2.desember.
Pantanir berast áforeldrafelag@hofdaskoli.is
Lesa meira
12.11.2021
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel, nemendur komu margir hverjir úthvíldir og endurnærðir eftir vetrarfrí.
Eins og flestum ætti að vera kunnugt voru tilkynntar breyttar reglur vegna Covid í dag. Helstu breytingarnar í grunnskólanum eru þær að nú verður meter á milli nemendaborða í kennslustofunum fram til 8.des.
Árshátíðin okkar hefði samkvæmt skóladagatali átt að vera 19. nóvember, fimmtudaginn í næstu viku. Eins og áður hefur verið upplýst um var henni frestað og verður staðan endurmetin í febrúar.
Þar sem desember er rétt handa við hornið ætlum við að halda okkur við að styrkja gott málefni í stað þess að skiptast á gjöfum og langar okkur að velja málefni sem stendur samfélaginu okkar nærri. Ákveðið var að styrkirnir færu til félagasamtaka en ekki einstaklinga. Allar ábendingar um málefni til að styrkja má senda okkur hér.
Nemendur verða að sjálfsögðu hafðir með í ráðum þegar kemur að því að velja endanlega hvaða málefni verður styrkt.
Barnaheill stendur fyrir símalausum sunnudegi, n.k. sunnudag þann 14. nóvember og hvetjum við alla til að taka þátt. Upplýsingar um þennan dag má sjá hér.
Að lokum minnum við ykkur á að hafa samband ef eitthvað er. Netföng allra starfsmanna eru aðgengileg hér á heimasíðunni og símanúmerið í skólanum er 452-2800.
Við skulum stilla okkur saman um að tala fallega um skólann okkar og stuðla saman að jákvæðum skólabrag.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
10.11.2021
Eins og öllum ætti að vera ljóst þá heldur Covid áfram að stríða okkur og í ljósi stöðunnar í samfélaginu hefur sú ákvörðun verið tekin að fresta árhátíðinni og kökuhlaðborðinu sem átti að vera 18.nóvember. Staðan verður endurmetin í byrjun febrúar og nánari dagsetning auglýst í kjölfarið.
Lesa meira
04.11.2021
Okkar árlegi flippíþróttadagur var haldinn í dag. Að þessu sinni var hann innandyra en það var ekki til að skemma stemninguna. Nemendur kepptu í hópum, þrjú lið á yngsta stigi, þrjú lið á miðstigi og nemendur unglingastigs kepptu að þessu sinni eftir bekkjarskiptingu.
Keppt var í greinum eins og púsli, uppröðun plastglasa og stígvélakasti.
Nemendur ásamt starfsfólki skemmtu sér konunglega.
Lesa meira
04.11.2021
Heil og sæl kæru vinir!
Vikan hefur verið annasöm hjá okkur. Menntabúðirnar á þriðjudeginum heppnuðust með afbrigðum vel og enn og aftur þökkum við ykkur kærlega fyrir komuna.
Í morgun héldum við svo okkar árlegu flippíþróttakeppni þar sem greinarnar voru meðal annars stígvélakast, bottleflip og limbo.
Framundan er vetrarfrí á föstudag og mánudag svo næsti kennsludagur er þriðjudagurinn 9. nóvember.
Á döfinni er svo árshátíðin okkar sem er áætluð 18.nóvember.
Við vonum að þið njótið vetrarfrísins.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
03.11.2021
Kæru foreldrar, forráðafólk og aðrir velunnarar skólans.
Við hér í Höfðaskóla erum himinlifandi með frábæra mætingu á menntabúðirnar sem haldnar voru í gær, stuðningur ykkar og áhugi á skólastarfinu skiptir okkur öll máli.
Mikil þekking og reynsla í upplýsingatækni og tækniþróun er til staðar hjá nemendum Höfðaskóla eins og sjá mátti á þeim tæplega 40 stöðvum sem nemendur í 1.-10.bekk settu upp og í gær og fögnum við því tækifæri að geta deilt hugmyndum og reynslu með því að sýna, sjá og ræða saman. Tæknin gerir skólastarfið fjölbreyttara og þau verkfæri og þekking sem hlotnast er oft mögnuð.
Lesa meira
29.10.2021
Sæl öll sömul
Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel. Á mánudaginn fengum við heimsókn frá Samtökunum 78 þar sem allir nemendur og starfsfólk fengu hinseginfræðslu. Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra var svo seinnipartinn þennan sama dag og þökkum við þeim sem sáu sér fært að mæta kærlega fyrir komuna. Það skiptir miklu máli að foreldrar reyni eftir fremsta megni að mæta á viðburði í skólanum og haldi þannig skólasamfélaginu lifandi og skemmtilegu.
Á miðvikudaginn hélt Finnbogi íþróttakennari ásamt nokkrum nemendum til Akureyrar þar sem fram fór kynning á blaki fyrir grunnskólakrakka. Það vel heppnað og skemmtilegt.
Þriðjudaginn 2. nóvember n.k. verður opið hús þar sem nemendur í Höfðaskóla ætla að halda menntabúðir fyrir gesti og gangandi frá kl. 16:00-18:00. Þar ætla nemendur að kynna hin ýmsu tæki og tól og hvetjum við alla til þess að mæta og kynna sér starfsemi og skoða skólahúsnæðið í leiðinni. Nemendur í 10. bekk verða með vöfflur og kaffi/djús til sölu á 500 krónur en Vilko styrkti þau um vöfflumix og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Breytingar verða á starfsmannahaldi eftir helgina þegar Sara Diljá og Fjóla Dögg fara báðar í leyfi. Nánari upplýsingar verða sendar foreldrum/forráðamönnum í tölvupósti.
Næstu tvær vikur verða svo í styttra lagi þar sem vetrarfrí er föstudaginn 5. nóvember og mánudaginn 8. nóvember.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
29.10.2021
Nemendur dunduðu sér við að búa draugalegar til myndir í myndmennt tengt hrekkjavökunni.
Myndir hér
Lesa meira
28.10.2021
Nemendur Höfðaskóla hafa undanfarin ár tekið virkan þátt í þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað í námi og kennslu. Þriðjudaginn 2.nóvember milli kl. 16:00 og 18:00 verður opið hús í Höfðaskóla þar sem forráðafólk, ættingjar og aðrir velunnarar skólans eru hjartanlega velkomnir að kíkja í heimsókn og kynna sér hin ýmu tæki og tól.
Nemendur 10.bekkjar munu selja vöfflur og kaffi/djús á 500kr. Vilko styrkti nemendahópinn um vöfflurnar og þökkum við þeim vel fyrir.
Lesa meira