Fréttir

Síðasta föstudagskveðjan árið 2021

Í byrjun vikunnar kíktu rauðklæddir karlar í heimsókn til nemenda skólans, rétt aðeins til að minna á sig. Uppátæki þeirra vöktu mikla kátínu sérstaklega hjá nemendum yngsta stigs. Í gærmorgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á jólaminningar Ingibergs Guðmundssonar. Hugrún spilaði og söng ásamt nemendum sem tóku undir af mikilli snilld. Í hádeginu var síðan boðið uppá möndlugraut sem Guðrún og Finnbogi hrærðu ásamt dyggu aðstoðarfólki. Í dag voru litlu jólin, nemendur mættu margir hverjir í sínu fínasta pússi. Þrátt fyrir að fjöldatakmarkanir hefðu komið í veg fyrir að haldið yrði jólaball í íþróttahúsinu þá var sett upp jólatré og það skreytt í anddyri skólans. Nemendur komu svo eftir bekkjum og dönsuðu þar í kring og sungu. Myndir hér Í dag lauk söfnuninni okkar til styrktar jólasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar, söfnuðust 70þúsund krónur sem munu án efa koma sér vel nú fyrir jólahátíðina. Þess má geta að ein amman gaf 1000kr fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum og kunnum við henni okkar bestu þakkir. Þetta ár hefur verið viðburðarríkt og óhætt að segja að við séum enn að takast á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári. Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar. Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól. Með jólakveðjum Guðrún Elsa, Sara Diljá og Dagný Rósa
Lesa meira

Piparkökuhús

Nemendur yngsta stigs koma heim í dag með fagurlega skreytt piparkökuhús. Myndirnar hér meðfylgjandi sína einbeitningu og þolinmæði sem einkenndi nemendurna meðan á verkinu stóð.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Á miðvikudaginn var fyrsti söngsalurinn okkar í desember og fengum við fjórar stúlkur af unglingastigi til að leiða sönginn, þann daginn bauð einnig nemendafélagið öllum í vöfflukaffi. Í dag var svo boðið var upp á heitt og kalt kakó með rjóma í nestistímanum. Í næstu viku verður sundkennsla á mánudag en á þriðjudag fara nemendur í íþróttir í staðin svo það er mikilvægt að hafa með sér íþróttafötin. Við ætlum að bralla ýmislegt síðustu dagana fyrir jól. Á mánudag verður verður smá jólagleði fyrir yngsta stig. Á miðvikudag verður jólasöngsalur og rautt þema, jólapeysur, jólasokkar, jólahitt og jóla þetta :) Á fimmtudag ætlum við að eiga notalega jólastund saman. Við förum í kirkjuna, hlustum á jólasögu, syngjum nokkur jólalög og höfum gaman. Í hádeginu fáum við svo möndlugrautinn. Ein möndlugjöf verður fyrir hvern bekk og það verður spennandi að sjá hverjir verða hinir heppnu í ár :) Það verður ekki matur í Fellsborg þennan dag og enginn skóli eftir hádegi hjá mið- og unglingastigi. Frístund verður með hefðbundnu sniði. Á föstudag verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Ástrós Elís leiðir sönginn eins og svo oft áður :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. Við erum komin í jólaskap og ætlum að njóta síðustu daganna fyrir frí saman. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum jólakveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Vöfflukaffi

Nemendafélag Höfðaskóla stóð fyrir vöfflukaffi í gær, miðvikudaginn 8.des. Frá kl. 8:20 um morguninn stóðu þau í ströngu, hrærðu og steiktu eins og vindurinn. Allir nemendur og kennarar skólans fengu vöfflu, rjóma, súkkulaði og sultu. Einstaklega skemmtilegt framtak og nýttum við söngstund dagsins til að klappa vel fyrir þessum flottu krökkum.
Lesa meira

Leiðangur í myrkrinu

Nemendur í 1.-4.bekk nýttu myrkrið í gærmorgun og fóru í leiðangur. Komu við hjá Haffa Páls og fengu að berja nýja slökkviliðsbílinn augum og þar á eftir fóru þau að eldstæðinu við Bjarmanes og grilluðu sér sykurpúða. Við öll kunnum vel að meta liðlegheit Haffa og færum honum þakkir fyrir. Myndir hér
Lesa meira

Jólasöfnun fyrir Jólasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar

Litlu jól nemenda verða 17. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulagið sem við tókum upp fyrir tveim árum hvað varðar pakkaskiptin. Í ár hafa nemendur kosið að styrkja Jólasjóðinn, hann er til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem minna mega sín, og koma nemendur ekki með pakka heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk, ef heimilin hafa tök á. Starfsfólk skólans mun einnig styrkja Jólasjóðinn í stað þess að skiptast á gjöfum. Á morgun fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Styrknum verður svo skilað til Jólasjóðsins á litlu jólunum. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólastýrur í síma 4522800 eða á gudrunelsa@hofdaskoli.is og dagnyrosa@hofdaskoli.is
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Nemendur á yngsta stigi fóru síðan á Hnappstaðatún í vikunni og nemendur í fyrsta bekk kveiktu á jólatré okkar Skagstrendinga. Stærðfræðijóladagatal er á unglinga- og miðstigi þar sem nemendur fá eina þraut á dag til að leysa, setja svarið sitt í kassa og áður en við förum í jólafrí verður dregið úr réttum svörum og veitt verðlaun. Við enduðum vikuna á að gera okkur glaðan dag og höfðum jólaföndur frá kl. 10:00-12:00 þar sem nokkrar stöðvar hér og þar um skólann voru í gangi og nemendur gátu flakkað á milli. Þá var einnig í boði að horfa á jólamynd fyrir þá sem ekki vildu föndra. Myndir hér. Í næstu viku verður söngur á "sal" á miðvikudaginn ásamt því að nemendafélagið ætlar að steikja vöfflur í kaffinu og gefa öllum nemendum skólans. Við vonum að þið njótið annarrar helgar aðventu. Jólakveðja Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Ljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni

Fulltrúi fyrsta bekkjar í Höfðaskóla sá að þessu sinni um að tendra ljósin á jólatré okkar Skagstrendinga á Hnappataðatúni. Nemendur yngsta stigs dönsuðu svo í kringum jólatréð og sungu jólalög.
Lesa meira

Snjálfur álfur

Snjálfur álfur mætti nú í byrjun vikunnar á yngsta stig. Álfurinn er þekktur fyrir hin ýmsu uppátæki og verður spennandi að fylgjast með honum á komandi dögum.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir! Áfram heldur tíminn að æða frá okkur, fyrsti í aðventu á sunnudaginn og desember handan við hornið. Það er margt um að vera og ýmislegt spennandi framundan hjá okkur. Í desember verður eitthvað um uppbrot frá hefðbundinni kennslu og verður það allt auglýst í byrjun desember. Við stefnum að því að halda jólaföndurdag eins og undanfarin ár, fara í kirkjuna og hlusta á jólasögu og syngja nokkur lög, jólagrauturinn verður á sínum stað sem og litlu jólin sem haldin verða 17. desember. Uppbrotsvika var hjá unglingastiginu í liðinni viku og var nemendum skipt í fjóra hópa sem fóru á milli stöðva, þannig að allir fóru á eina stöð á dag. Í boði var að læra að tálga, búa til plast, bókleg heimilisfræði ásamt myndmennt í samvinnu við Nes listamiðstöð. Nemendur skemmtu sér konunglega og verður þetta gert aftur þegar fer að vora. Myndir má sjá hér. Lögreglan er búin að vera með eftirlit á bílaplaninu hér við skólann undanfarna tvo morgna. Við fögnum því þar sem ávallt er gott að lögreglan sé sýnileg. Í morgun fóru nokkrir nemendur af stað út á plan og buðu lögreglumanninum inn í hafragraut og spjall í morgunsárið, sem var að sjálfsögðu þegið. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund og nemendur miðstigs sem eru í útivist á mánudögum. Nokkuð hefur borið á að nemendur séu ekki klæddir til útivistar í kuldanum og síbreytilegu veðri sem hefur verið undanfarið. Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd. Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum aðventukveðjum, Guðrún Elsa og Dagný Rósa.
Lesa meira