27.08.2021
Heil og sæl
Þá er fyrsta skólavikan þetta skólaárið runnin sitt skeið og gekk hún vel. Nemendur hafa verið mikið úti við þar sem veðrið hefur verið gott og unnið ýmis verkefni.
Nokkur atriði sem við viljum minna á:
- hafragrautur í boði alla morgna frá 7:50 nemendum að kostnaðarlausu.
- ávaxtastund á miðvikudögum í nestistímanum, þá daga er ekki æskilegt að nemendur komi með annað nesti að heiman. Ávaxtastundin er nemendum einnig að kostnaðarlausu.
- mikilvægt að passa að sundfötin séu með í för þá daga sem sundkennsla er.
- íþróttir eru kenndar úti fyrst um sinn og þá skiptir máli að koma klædd eftir veðri og í góðum skóm.
Í næstu viku höldum við áfram að koma okkur í rútínu og vinna fjölbreytt og skemmtilegt verkefni.
Að lokum minnum við á að okkur vantar tvo fulltrúa foreldra/forráðamanna í skólaráð. Skólaráð er góður vettvangur fyrir foreldra/forráðamenn til að hafa áhrif á skólastarfið. Ef einhver er áhugasamur má senda okkur póst á saradilja@hofdaskoli.is eða gudrunelsa@hofdaskoli.is
Við vonum að þið njótið helgarinnar
með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
26.08.2021
Nú er svo komið að okkur vantar tvo foreldra/forráðamenn í skólaráð. Fundað er amk. tvisvar á skólaárinu og er fyrsti fundur fyrirhugaður í september þar sem farið verður yfir starfsáætlun skólaársins ásamt fleiri atriðum.
Við óskum því eftir foreldrum/forráðamönnum sem eru tilbúnir til að sitja í skólaráði næstu tvö skólaárin, vinsamlegast hafið samband við okkur á netföngin saradilja@hofdaskoli.is eða gudrunelsa@hofdaskoli.is ef þið sjáið ykkur fært um að vera með.
Skólaráð er tilvalinn vettvangur fyrir foreldra/forráðamenn til að hafa áhrif á skólastarfið.
Lesa meira
19.08.2021
Heil og sæl kæru foreldrar/forráðamenn
Senn líður að skólabyrjun og nú er ljóst að skólasetning fer fram með svipuðu sniði og síðasta haust v. Covid takmarkana. Við vonuðumst til að geta haft hefðbundna skólasetningu en svo verður því miður ekki.
Skólasetning Höfðaskóla fyrir skólaárið 2021-2022 fer fram mánudaginn 23. ágúst. Nemendur mæta beint í skólann en ekki í kirkjuna eins og vaninn er og mikilvægt er að aðeins annað foreldrið eða annar forráðamaðurinn fylgi hverju/m barni/systkinum. Vinsamlegast athugið að grímuskylda er fyrir foreldra/forráðamenn. Tímasetningar á skólasetningu eru:
9:00 - yngsta stig
9:30 - unglingastig
10:00 - miðstig
Í haust eru skráðir 70 nemendur í Höfðaskóla sem er fækkun á milli ára. Breyting verður á dagafjölda en við förum úr 175 dögum í 180 skóladaga.
Breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi síðan á síðasta skólaári. Ástrós Elísdóttir, Ílóna Sif Ásgeirsdóttir og Lilja Dögg Hjaltadóttir hafa allar látið af störfum og þökkum við þeim kærlega fyrir gott samstarf. S. Agnes Sævarsdóttir er í leyfi og Inga Jóna Sveinsdóttir í barneignarleyfi. Elva Þórisdóttir er komin aftur til starfa eftir námsleyfi.
Í ár verður Erna Berglind Hreinsdóttir umsjónarkennari 1. og 2. bekkjar, Vigdís Elva Þorgeirsdóttir 3. og 4. bekkjar, Halla María Þórðardóttir og Þorgerður Þóra Hlynsdóttir skipta með sér umsjón hjá 5.-7. bekk og þær Dagný Rósa Úlfarsdóttir og Elva Þórisdóttir hjá 8.-10. bekk.
Frístund verður starfrækt með svipuðu sniði og undanfarin ár og er hún í boði fyrir nemendur á yngsta stigi eftir að venjulegum skóladegi lýkur. Starfsmenn frístundar skólaárið framundan eru Erna Ósk og Judith Maria.
Frístund verður í boði endurgjaldslaust fyrir alla nemendur á yngsta stigi út ágúst. Eftir það hafa aðeins skráðir nemendur aðgang að frístund en skráning fer fram hér. Skráning í frístund veturinn 2021-2022
Mötuneytið okkar verður áfram staðsett í Fellsborg og geta foreldrar skráð börnin sín í mat hér. Skráning í mat veturinn 2021-2022. Ekki verður gerð krafa um lágmarksskráningu (hægt að skrá sig á einn dag þess vegna). Skráning þarf að berast fyrir 27. ágúst 2021. Ef þið viljið breyta eða segja upp áskrift eftir að skráningartíma lýkur er það gert á netfanginu skagastrond@skagastrond.is
Við munum áfram bjóða upp á hafragraut á morgnanna áður en kennsla hefst og verður hann í boði frá fyrsta hefðbundna skóladeginum, 24. ágúst frá klukkan 7:45. Haddý sér um grautinn í vetur.
Sund verður áfram kennt tvo morgna í viku, mánudaga og þriðjudaga. Kiddi sér um akstur til og frá sundlaug.
Að lokum minni ég aftur á að aðeins einn fylgi nemendum á skólasetningu og sami aðili fylgi systkinum.
Ekki hika við að hafa samband við okkur ef spurningar vakna.
Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á nýju skólaári og hlakka til að vinna með ykkur.
Skólaárið 2021-2022 hefst mánudaginn 23. ágúst og þar með er skóli settur.
Kær kveðja
Sara Diljá
skólastjóri
Lesa meira
16.08.2021
Nú er hægt að skrá nemendur í frístund, við bendum á að öllum nemendum í 1.-4.bekk stendur til boða að vera gjaldfrjálst í frístund til 1.sept 2021.
Lesa meira
16.08.2021
Upplýsingar er varða skráningu í hádegismat ásamt skráningarkerfi er hægt að nálgast hér fyrir neðan.
Lesa meira
10.06.2021
Í ár kusum við að fara þá leið að taka upp leiksýninguna og bjóða upptökuna til kaups. Vegna reglugerðar um starfsemi grunnskóla í Covid var ekki mögulegt að sýna verkið fyrir fleiri en 20 manns í einu. Það var því ljóst að miðasala á leiksýninguna yrði ekki partur af fjáröflun nemenda í ár. Þess í stað freistum við þess að selja aðgang að upptökunni, svo að sem flestir geti notið og fjáröflun nemenda nái samt fram að ganga.
Leiksýningin var tekin upp með nokkra hressa áhorfendur í sal þann 5. maí 2021. Fyrrum nemandi leiklistardeildar Höfðaskóla, Kristmundur Elías Baldvinsson, var að ljúka námi í kvikmyndagerð frá Borgarholtsskóla. Hann mætti vel græjaður í Fellsborg, tók sýninguna upp og klippti.
Til þess að horfa á verkið þarf að senda póst á hofdaskoli@hofdaskoli.is og fylgja leiðbeiningum sem verða sendar um greiðslu. Að því loknu fáið þið sendan hlekk á sýninguna á YouTube. Góða skemmtun!
Hér er hægt að nálgast leikskrána.
Lesa meira
28.05.2021
Hefð er fyrir því að nemendur í 10. bekk fari í skólaferðalag að vori. Stundum hefur verið farið til útlanda en að þessu sinni var ákveðið að fara í innanlandsferð og fara um Norðurland, enda hefur það uppá margt að bjóða. Nemendur, með dyggri aðstoð foreldra, söfnuðu fyrir skólaferðinni og vija þakka öllum þeim er studdu við þá í fjáröflun vetrarins. Hér fyrir neðan er ferðasaga þeirra :)
Lesa meira
27.05.2021
Skólaslit Höfðaskóla voru haldin í dag með óhefðbundnu sniði. Nemendur komu saman í heimastofunum sínum og tóku á móti einkunnarblöðum.
Nemendur í 10.bekk mæta hinsvegar á morgun til útskriftar sem haldin verður í kirkjunni.
Við vonumst til að geta haldið hefðbundin skólaslit vorið 2022.
Lesa meira
27.05.2021
Haustið 2019 var skipuð umhverfisnefnd í Höfðaskóla með það að markmiði að verða skóli á grænni grein og geta sótt um Grænfána. Á heimasíðu Landverndar segir m.a. að skólar á grænni grein styðji við umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og almennt umhverfisstarf á öllum skólastigum.
Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarin tvö ár þar sem stigin hafa verið skrefin sjö sem þarf að uppfylla til þess að hljóta fánann. Fulltrúi frá Landvernd tók út vinnuna hjá okkur í síðustu viku og í dag var fáninn loks dreginn að húni.
Það var því stór stund þegar fulltrúar nemenda í umhverfisnefnd, þær Lárey Mara Velemir, Súsanna Valtýsdóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir veittu fánanum viðtöku frá Alexöndru Jóhannesdóttur, sveitarstjóra, sem var mætt fyrir hönd Landverndar. Þessar stúlkur hafa unnið mikið og gott starf í umhverfisnefnd, þær hafa setið þrjá fundi á önn, séð um dreifingu umhverfissáttmála, komið skilaboðum af fundum til samnemenda sinna og setið úttektar fund með Landvernd svo dæmi séu tekin.
Við höldum ótrauð áfram og stefnum að sjálfsögðu að því að fá endurnýjun á fánanum eftir tvö ár.
Lesa meira
27.05.2021
Undanfarna tvo daga hafa nemendur á öllum stigum skólans verið mikið úti.
Á miðvikudaginn fór unglingastigið í ratleik og meðan yngsta og miðstig hjóluðu útað sandlæk og léku sér þar.
Á fimmtudag fór 9.bekkur að gróðursetja meðan 8. og 10.bekkur týndu rusl. Yngsta og miðstig fóru í ratleik.
Veðrið hefur verið eins og best verður á kosið og allir, bæði nemendur og kennarar, orðin ansi sólkysst.
Lesa meira