04.01.2024
Nemendur á yngsta stigi fóru í dag og heimsóttu hesthúsið þar sem Fjóla kennari er með hestana sína. Það var ansi glatt á hjalla bæði hjá nemendum og fjórfætlingum. Það er þakkarvert þegar hestaeigendur eru tilbúnir að taka á móti börnum og leyfa þeim að njóta nálægðar við dýrin.
Lesa meira
20.12.2023
Heil og sæl
Nú er árið að líða undir lok og kjörið að renna aðeins yfir hvað á daga okkar í Höfðaskóla hefur drifið árið 2023. Við erum dugleg að setja fréttir á heimasíðuna okkar og við hvetjum öll til að fylgjast með þar.
Í janúar fengum við heimsókn frá Þorsteini V. Einarssyni sem heldur úti miðlinum karlmennskan og nemendur unnu ýmis verkefni. Annar skipti voru eftir miðjan janúar og þá voru foreldrasamtöl. Í febrúar fór 10. bekkur í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar, við héldum uppá afmæli vináttubangsanns Blæs, fengum góða heimsókn frá FNV, FabLab og Sýndarveruleika ehf og fengum góða gesti þegar allir viðbragðsaðilar á svæðinu komu og sýndu tækin sín á 1-1-2 deginum. Þá fór 10. bekkur í heimsókn í FNV í lok febrúar. Í mars var m.a. framsagnarkeppnin okkar og nemendur heimsóttu Nes listamiðstöð og unnu verkefni. Alþjóðadagur stærðfræðinnar var haldinn hjá okkur og við fengum góða heimsókn frá Landanum. Í apríl fóru nemendur 9. og 10. bekkjar á skyndihjálparnámskeið, við fengum heimsókn frá Umboðsmanni barna og nemendur unglingastigs fóru á Hvammstanga í tvo daga og unnu verkefni á vegum List fyrir alla. Þá enduðum við apríl á danskennslu. Í maí perluðum við af krafti fyrir Kraft, nemendur fóru í vorferðir, 10. bekkur til Danmerkur og miðstig fór á íþróttadag á Hvammstanga. Skólaslitin okkar voru svo í Fellsborg og nemendur héldu í sumarfrí eftir gott skólaár.
Í ágúst var skóli settur og nemendur mættu endurnærðir eftir sumarfrí. Í september hittu nemendur í 6. og 7. bekk Gunnar Helgason á fjarfundi og við fengum heimsókn frá tveimur lögreglumönnum frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Við unnum verkefni í tengslum við dag íslenskrar náttúru og 4. og 5. bekkur heimsótti Árnes. Í október var valgreinadagur unglingastigs haldinn á Skagaströnd og 7. bekkur fór í Reykjaskóla. Í nóvember fengum við heimsókn frá skáldum í skólum, héldum nemendaþing, gengum mílu umburðarlyndis og stigsskemmtanir voru á öllum stigum. Desember kom svo með öllu sem honum fylgir og við brölluðum margt eins og birst hefur á heimasíðunni undanfarna daga, m.a. menntabúðir og opið hús ásamt öllu jólatrallinu.
Í gær, 19. desember voru litlu jólin okkar haldin. Myndir frá þeim degi má sjá hér.
Það er alltaf nóg um að vera hjá okkur, við erum afskaplega þakklát þegar samfélagið tekur þátt í viðburðum með okkur og vonumst til að fá ykkur í heimsókn sem oftast á nýju ári. Skólinn er hjartað í samfélaginu okkar og saman eigum við að standa vörð um hann, tala fallega um skólann og skólastarfið og vera stolt af öllu því frábæra sem nemendur eru að gera.
Nemendur mæta aftur samkvæmt stundaskrá þann 4. janúar 2024.
Við vonum að þið eigið góð og gleðileg jól og þökkum ykkur fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Með jólakveðju
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
19.12.2023
Heil og sæl
Ár hvert leggja nemendur og starfsfólk Höfðaskóla góðu málefni lið í desember í stað þess að skiptast á gjöfum. Í ár söfnuðust 62.000 krónur sem renna til Velunnarasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar.
Við þökkum öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir.
Ef einstaklingar vilja styrkja sjóðinn eru reikningsupplýsingarnar: 701121-1550 0133-26-004985.
Jólakveðja
Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla
Lesa meira
18.12.2023
Í dag er margt um að vera hjá okkur. Við byrjuðum daginn á ljósagöngu, leiðtogi göngunnar var Emilía Rut Friðfinnsdóttir og genginn var stuttur hringur um bæinn. Eftir gönguferðina kom Ástrós Elísdóttir og las fyrir okkur jólasögu og þar á eftir Hugrún Sif og Jón Ólafur og spiluðu undir í nokkrum jólalögum.
Dregið var úr stærðfræðiþrautakeppni og voru sigurvegararnir þau Ragnar Viðar Haraldsson, 1. bekk, Lárey Mara V. Sigurðardóttir, 7. bekk og Ellert Atli Þrastarson, 9. bekk. Öll fengu þau spilið Krakkakviss í verðlaun.
Sú hefð hefur skapast í Höfðaskóla að nemendur 1. bekkjar ár hvert setja merkta jólakúlu á jólatréð okkar, með nafninu sínu og ártali og setti árgangur 2017 kúlurnar sínar á tréð í dag.
Nemendur á mið- og unglingastigi fóru í sameiginlega Kahoot keppni og skemmtu sér vel.
Við endum svo daginn á möndlugrautnum okkar góða.
Nóg um að vera í dag og svo er komið að litlu jólunum á morgun.
Myndir hér.
Lesa meira
15.12.2023
Það er ansi viðburðarík vika að baki í Höfðaskóla. Á mánudaginn vorum við með menntabúðir og opið hús sem var vel sótt og er alltaf skemmtilegt. Við fengum marga góða gesti til okkar og krakkarnir stóðu sig öll mjög vel í sínum verkefnum. Á miðvikudaginn var söngsalur, á fimmtudag jólaföndur og í dag var boðið upp á piparkökur og kakó í nestistímanum. Sérlegur aðstoðarmaður við kakógerðina var Ragnar Viðar, nemandi í 1. bekk og stóð hann sig með stakri prýði. Nemendur í 1.-5. bekk fóru einnig upp í Fellsborg nú í morgunsárið og dönsuðu Zumba. 10. bekkur skreytti jólatréð okkar, svo það er klárt fyrir litlu jólin. Myndir frá deginum í dag eru hér.
Nú er heldur betur farið að styttast í jólafrí. Á mánudaginn ætlum við að byrja daginn í friðargöngu, labba saman stuttan hring um bæinn okkar og væri gott ef nemendur kæmu með LED kerti með sér í skólann. Þann dag ætlar Ástrós Elísdóttir að heimsækja okkur og lesa jólasögu og Jón Ólafur Sigurjónsson (Jonni húsvörður) ætlar að spila undir í nokkrum jólalögum fyrir okkur. Í hádeginu á mánudaginn verður möndlugrauturinn okkar góði og eru nemendur beðnir um að koma með plastskál og skeið með sér í skólann. Engin kennsla verður eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði.
Á þriðjudaginn eru litlu jólin okkar, en nánari upplýsingar um þau koma frá umsjónarkennurum. Skólinn hefst kl. 9:00 þann dag og halda nemendur í jólafrí kl. 12:00. Ekki verður boðið upp á hafragraut þann dag og ekki frístund eftir hádegi.
Jólasöfnunin okkar gengur vel og hafa velunnarar skólans einnig lagt söfnuninni lið. Ef einhver vill taka þátt í að safna fyrir Jólasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar má hafa samband við okkur á hofdaskoli@hofdaskoli.is, koma við hjá okkur eða senda einhvern með framlag til okkar í skólann. Þessu verður öllu komið til skila eftir að litlu jólunum er lokið.
Nú er síðasta helgin fyrir jól framundan og eflaust nóg að gera hjá flestum. Við vonum þó að allir nái að staldra aðeins við og njóta með sínu nánasta fólki, því þegar öllu er á botninn hvolft er það samveran með fólkinu sem okkur þykir vænt um sem skiptir mestu máli.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
15.12.2023
Frá því að skóli var settur í haust hafa nemendur í 6. og 7. bekk farið út á mánudögum og föstudögum og gengið u.þ.b. eina mílu í hvert skipti.
Gaman er að segja frá því að aldrei hefur þurft að fella niður göngutúrana vegna veðurs. Við vonum að það verði eins eftir áramótin.
Lesa meira
14.12.2023
Í dag var jólaföndur hjá öllum nemendum skólans. Föndurstöðvar voru víðsvegar um skólann og gátu nemendur flakkað á milli og fundið eitthvað við sitt hæfi. Notaleg stund þar sem mörg glæsileg listaverk voru föndruð. Myndir hér.
Lesa meira
14.12.2023
Í gær buðu nemendur í einum af list- og verkgreinahópunum í 4.-7. bekk nokkrum á leiksýningu, en þau voru búin að setja saman jólaleikþátt. Virkilega skemmtilegt og vel útfært hjá þeim.
Lesa meira
14.12.2023
Í gær fengu nemendur dýrindis jólamat í hádeginu og borðuðu allt upp til agna. Það þarf þó enginn að örvænta, boðið verður upp á jólamat aftur á föstudag og þá er hægt að fá sér aftur. Myndir hér.
Lesa meira
13.12.2023
Í dag komu Hugrún og Elvar aftur í heimsókn til okkar og við sungum nokkur jólalög saman. Skemmtileg jólastund. Fleiri myndir komnar í jólasöngsalbúmið okkar hér.
Lesa meira