29.05.2023
Heil og sæl
Þá hefur síðasta heila vikan á skólaárinu runnið sitt skeið. Við hefðum alveg verið til í aðeins betra veður en við vonum það besta fyrir komandi viku, þar sem síðustu þrír skóladagarnir verða bæði úti og inni.
Í næstu viku er frí á mánudag, á þriðjudag er hefðbundinn skóladagur, á miðvikudag er uppbrot fyrir hádegi og hefðbundin kennsla eftir hádegi.
Á fimmtudag hefst dagskrá kl. 9:00. Skólinn opnar á sínum tíma en ekki verður hafragrautur í boði þann dag. Foreldrafélag skólans ætlar að taka þátt í morgninum með okkur og lýkur dagskrá með pylsugrilli í hádeginu. Frístund verður opin eftir hádegi og verða skólaslit Höfðaskóla svo haldin í Fellsborg kl. 17:00 þann dag.
Nú brettum við öll upp ermar og klárum gott skólaár með stæl.
Hlökkum til að sjá ykkur öll á skólaslitum, en þangað eru öll velkomin.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
25.05.2023
Þann 7. maí lögðu nemendur 10. bekkjar af stað í langþráð skólaferðalag og var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar. Gist var í Keflavík nóttina fyrir flug. Kaupmannahöfn tók síðan fallega á móti okkur með glampandi sól og notalegheitum að morgni 8. maí. Þegar búið var að koma sér fyrir á hótelinu var höfðinginn McDonalds heimsóttur. Þaðan gengum við svo á Strikið þar sem við skoðuðum Guinness World Records safnið og fórum í siglingu frá Nyhavn. Að lokinni siglingu var komin þreyta í mannskapinn svo við kíktum í matvörubúð og upp á hótel.
Næsta dag byrjuðum við daginn í Metro og strætó til að komast í dýragarðinn. Þar fékk hver og einn að skoða með sínu nefi. Úr dýragarðinum fórum við í verslunarmiðstöðina Fields þar sem margir gerðu afbragðsgóð kaup. Það voru því þreyttar og lúnar tásur sem mættu á hótelið um kvöldið. Eftir smá hvíld var aftur skundað út og nú niður á Amager Strandpark sem var í göngufæri við hótelið okkar. Á ströndinni var leikið örlítið með blakbolta og horft yfir Ermasundið á brúna og Svíþjóð.
Á þriðja degi voru augnlokin orðin örlítið þyngri í morgunsárið en dagana á undan. Allir voru þó mættir í morgunmat rúmlega 9. Við byrjuðum daginn í Rundetaarn sem er glæsilegur 35 metra hár turn, frá 17. öld. Við gerðum okkur “lítið” fyrir og skunduðum upp á topp þar sem útsýni er yfir alla borgina. Turninn var áður fyrr mikill vísinda- og rannsóknastaður sérstaklega í stjörnufræði.
Frá turninum hèldum við sem leið lá um Kongens Nytorv að Amalienborg þar sem við sáum vaktaskipti lífvarða drottningar. Það var mikil upplifun að sjá. Frá Amalienborg gengum við um Nyhöfn niður Strikið að Rådhuspladsen og þaðan í Tivoligarðinn. Þar var mikið sprellað, hlegið og jafnvel smá tár sáust. Gríðarlega mikið fjör og við fylgdum ruslinu út þegar garðurinn lokaði kl 22. Við tók heimferð á hótelið, um miðborg Kaupmannahafnar. Það var öðruvísi upplifun en ferðast að degi til.
Á fjórða og jafnfram síðasta deginum var byrjað á því að bóka okkur út af hótelinu og koma farangrinum í geymslu. Síðan var enn og aftur tekinn metro og nú á Christianshavn. Þaðan gengum við til Christianiu, það var sérstakt fyrir flesta að koma þangað en mjög rólegt var í fríríkinu enda vorum við þar snemma dags. Frá fríríkinu héldum við á Kongens Nytorv þar sem allir fengu frjálsan tíma á Strikinu. Sumir versluðu á meðan aðrir sátu í sólinni. Seinni partinn var svo farangurinn sóttur og haldið út á flugvöll.
Það voru þreyttir en gríðarlega ánægðir nemendur og kennarar sem lentu svo á Íslandi um miðnætti þann 10. maí. Við erum öll sammála um að þetta hefur verið frábær ferð, þar sem allir sýndu sínar bestu hliðar og lærðu og upplifðu margt og merkilegt.
Nemendum 10. bekkjar langar að þakka öllum sem styrktu þau í fjáröflun fyrir stuðninginn. Án ykkar stuðnings hefði þessi ferð ekki verið farin.
Lesa meira
22.05.2023
Þriðjudaginn 16. maí s.l. fengum við í Höfðaskóla góða heimsókn frá starfskonum Krafts, styrktarfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra og héldum viðburðinn Perlað af krafti. Það má með sanni segja að það hafi gengið vel hjá okkur að perla armbönd en saman perluðum við 382 armbönd, sem gera 1.107.800 krónur fyrir Kraft ef þau seljast öll. Þar fyrir utan seldist varningur fyrir 250.830 krónur.
Við þökkum öllum þeim sem sáu sér fært um að mæta fyrir komuna, það hefði verið gaman að sjá fleiri andlit en vonandi verður betri mæting næst, þar sem við stefnum að því að halda svona viðburð aftur síðar.
Vel gert Höfðaskóli :)
Lesa meira
19.05.2023
Heil og sæl
Góð vika að baki í Höfðaskóla. Við fengum góða heimsókn frá Siggu Dögg kynfræðing í heimsókn s.l. mánudag sem hélt fyrirlestur fyrir unglingana og var með foreldrafræðslu. Á þriðjudaginn var svo perlað af krafti sem gekk vel. Nánari frétt um það kemur í næstu viku.
Það sem af er ári hefur ýmislegt verið í boði fyrir foreldra/forráðamenn að mæta á og efla þannig samvinnu heimilis og skóla. Foreldrar/forráðamenn spila ekki síður en skólinn stórt hlutverk í því að skapa á Skagaströnd gott skólasamfélag og hluti af því er að taka þátt í viðburðum á vegum skólans, mæting foreldra skiptir gríðarlega miklu máli. Á þeim skapast vettvangur fyrir fólk til þess að hittast, skiptast á skoðunum, fá fræðslu og hafa áhrif. Við hvetjum öll þau sem eiga börn í Höfðaskóla til að skoða hvort ekki sé svigrúm til að mæta þegar viðburðir eru auglýstir og taka þátt í þeim þætti skólagöngu barna sinna.
Í næstu viku er síðasta heila skólavikan fyrir sumarfrí, námsmat er í fullum gangi og verið að ljúka þeim verkefnum sem þarf að klára fyrir frí. Eftir daginn í dag eru aðeins átta skóladagar eftir, en skólaslit Höfðaskóla fara fram í Fellsborg, fimmtudaginn 1. júní kl. 17:00.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
12.05.2023
Nemendur á miðstigi lögðu land undir fót annan daginn í þessari viku. Förinni var nú heitið á Hvammstanga þar sem nemendur 5.-7.bekkjar úr Austur- og Vestur Húnavatnssýslu hittust og prufuðu sig áfram í hinum ýmsu íþróttagreinum. Meðfylgjandi eru myndir af nemendum sem kynntu sér pílukast af miklum móð.
Lesa meira
12.05.2023
Sæl kæru skólavinir
Áfram flýgur tíminn og skólaárið rétt að fara klárast. Í vikunni sem er að líða var 10. bekkur í skólaferðalagi í Danmörku ásamt þeim Elvu og Ásdísi og heppnaðist ferðin vel. Það voru þreyttir ferðalangar sem komu heim nú í morgunsárið og við hlökkum til að heyra ferðasöguna eftir helgi.
Yngsta- og miðstig fóru í sína vorferð s.l. þriðjudag sem var mjög skemmtileg. Nánar um ferðina ásamt myndum hér.
Miðstig fór svo á íþróttadag á Hvammstanga í gær og skemmtu allir sér vel. Nemendur sóttu ýmsa viðburði en um árlegan dag er að ræða þar sem skólarnir á svæðinu hittast og brjóta upp hefðbundna kennslu.
Kiwanisklúbbarnir Drangey og Freyja komu og gáfu nemendum 1.bekkjar hjólahjálma. Grilluðu pylsur og lögreglan renndi yfir helstu öryggisþætti sem reiðhjól eiga að hafa. Hægt að sjá hér. Við þökkum Kiwanisklúbbnum kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
Myndir af fjörinu.
Í næstu viku kemur Sigga Dögg kynfræðingur og hittir unglingastig á mánudag kl. 12:30 og er svo með fræðslu fyrir foreldra/forráðamenn og starfsfólk kl. 16:15 sem við hvetjum alla til að mæta á.
Á þriðjudag ætlum við að perla af krafti frá 13-15 og eru allir velkomnir að taka þátt í þeim viðburði.
Á miðvikudag fellur kennsla niður eftir hádegi, en frístund verður með hefðbundnu sniði.
Við vonum að þið njótið helgarinnar.
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
12.05.2023
Nemendur 1.-7.bekkjar ásamt kennurum og stuðningsfulltrúum skelltu sér saman í vorferð nú í vikunni, hér fyrir neðan eru ferðasögur þeirra og myndir.
Lesa meira
11.05.2023
Kraftur stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, mætir á svæðið með perluviðburð í Höfðaskóla þriðjudaginn 16.maí kl. 13-15.
Lesa meira
05.05.2023
Heil og sæl
Áfram fljúga vikurnar og allt á fullu í Höfðaskóla. Í þessari viku hafa nemendur verið í danskennslu hjá Ingunni Hallgrímsdóttur sem gengið hefur vonum framar. Myndir frá dans tímum má sjá hér.
Nemendur hafa verið að vinna að fjölbreyttum verkefnum og ýmislegt sem verið er að leggja lokahönd á fyrir vorið.
Valgreinar næsta skólaárs voru kynntar fyrir verðandi nemendum mið- og unglingastigs í dag. Valið er fjölbreytt og skemmtilegt og allar upplýsingar um það má sjá hér. https://sites.google.com/hofdaskoli.is/valgreinar-hfaskla-2023-2024/heim
Í næstu viku fer 10. bekkur í útskriftarferðina sína til Danmerkur ásamt þeim Elvu og Ásdísi og við vonum að ferðalagið verði í senn fróðlegt og skemmtilegt.
Þriðjudaginn 9. maí n.k. ætla yngsta- og miðstig saman í vorferð og munu allar upplýsingar um þá ferð berast frá umsjónarkennurum.
Fimmtudaginn 11. maí n.k. fer miðstig svo á Hvammstanga þar sem þau ætla taka þátt í sameiginlegum íþróttadegi með öðrum skólum á svæðinu. Allar upplýsingar um þann dag munu berast frá Finnboga.
Ýmislegt fleira er svo framundan hjá okkur, heimsókn og fræðsla frá Siggu Dögg kynfræðing, við ætlum að perla af krafti í samvinnu við Kraft og fleira og fleira. Allt þetta verður auglýst þegar nær dregur.
Sigríður Björk Sveinsdóttir hóf störf hjá okkur í vikunni sem ritari og við bjóðum hana velkomna í hópinn.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
28.04.2023
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel og hefur ýmislegt verið brallað. Veðrið hefur verið gott en kalt og nemendur verið talsvert úti við.
Nemendur unglingastigs fóru á þriðju- og miðvikudag á Hvammstanga í listasmiðjur á vegum Listalestarinnar, þar unnu þau ýmis verk og enduðu á að halda listasýningu í félagsheimilinu þar í bæ.
Nú um mánaðarmótin verða breytingar á starfsmannahópnum þegar Kristinn Rúnar hættir störfum sem húsvörður og Sigríður Björk tekur til starfa sem ritari.
Í næstu viku er danskennsla hjá öllum nemendum og endar vikan á opnum tímum föstudaginn 5. maí sem við hvetjum foreldra/forráðamenn til að mæta í, tímasetningar verða:
9:00-10:00 - 7. og 8. bekkur
10:00-11:00 - 9. og 10. bekkur
11:00-12:00 - 4. 5. og 6. bekkur
12:30-13:30 - 1. 2. og 3. bekkur
Enn og aftur er löng helgi framundan þar sem 1. maí er á mánudaginn.
Sjáumst hress á þriðjudag.
Við vonum að þið njótið helgarinnar.
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira