22.03.2023
Í gær fengum við skemmtilega heimsókn frá fréttafólki Landans. Þau tóku viðtöl við nemendur og starfsfólk ásamt því að fylgjast með uppsetningu listinnsetningar sem er samvinnuverkefni nemenda skólans og listafólks frá Nes listamiðstöð. Þátturinn verður sýndur á RUV næstkomandi sunnudagskvöld og við hvetjum alla til að horfa.
Lesa meira
21.03.2023
Þriðjudaginn 14. mars var alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar. Í tilefni hans fengu nemendur á unglingastigi að vinna skapandi verkefni sem tengja saman stærðfræði og listir. Nemendur unnu mynstur og þrívíddarteikningar út frá hringforminu og einu verkfærin sem þeir notuðu auk ritfanga voru hringfarar og reglustikur
Lesa meira
17.03.2023
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Það var margt um að vera eins og gengur í skólastarfinu. Unglingarnir unnu skemmtilegt verkefni í náttúrufræði þar sem Elín Ósk Björnsdóttir kom í heimsókn, nánar um það hér.
Miðstig flutti upplestur í tengslum við framsagnarkeppnina og stóðu þau sig öll með prýði. Nánar um það hér.
Unglingastig fór til Reykjavíkur þar sem þau fóru á sýninguna Mín framtíð í Laugardalshöll og skemmtu sér vel. Nemendur 10. bekkjar fóru svo í áhugasviðskönnun hjá námsráðgjafa þar sem þau standa nú frammi fyrir því að ákveða hvað tekur við eftir grunnskóla.
Í næstu viku verður opið hús í Höfðaskóla, fimmtudaginn 23. mars frá kl. 10:00-11:30. Engin formleg dagskrá verður en gestum og gangandi gefst kostur á að koma í heimsókn og sjá það sem nemendur eru að fást við í kennslustundum. Við vonumst til að sjá sem flesta.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
16.03.2023
Miðvikudaginn 15.mars var framsagnarkeppni Höfðaskóla haldin í skólanum. Nemendur 5., 6. og 7. bekkjar tóku þátt og stóðu sig öll með prýði.
Lesa meira
16.03.2023
Hvernig lítur DNA út?
Þetta er spurning sem nemendur unglingastigs leituðu svara við í morgun en þá kom Elín Ósk Björnsdóttir BS nemi í líftækni við HA og gamall nemandi Höfðaskóla í heimsókn og kenndi nemendum að ná DNA úr jarðarberjum.
Það er mjög auðvelt að eingangra DNA úr jarðarberjum. Það sem til þarf er jarðarber, salt, uppþvottalög og etanól (hægt að notast við handspritt). Þegar búið var að einangra DNA í etanólinu var það tekið upp með tannstönglum og skoðað í víðsjá. Þetta var hin fróðlegasta kennslustund og þökkum við Elínu fyrir aðstoðina. Fyrir áhugasöm er hægt að sjá á heimasíðu Vísindasmiðjunnar hvernig DNA er einangrað úr lauk, sjá hér.
Auðvitað voru teknar margar myndir sem hægt er að sjá hér.
Lesa meira
13.03.2023
Ómetanlegt samstarf Höfðaskóla og Nes listamiðstöðvar.
Nemendur í myndmennt fengu að fara í Nes listamiðstöð í vikunni til að spreyta sig á kínverskri leturgerð hjá Martin og Wen-Hsi.
Martin og Wen-Hsi búa í Bretlandi en Wen-Hsi er upprunalega frá Taívan og fengu nemendur einnig að læra aðeins um hina ýmsu siði og öðruvísi menningu fólks sem er frá Asíu. Meðal annars um það hvernig fólk í Asíu fagnar nýju ári og hvaða stjörnuspá þau fara eftir.
Síðan fengu nemendur kennslu í þeirri sérstöku tækni sem notuð er við kínverska leturgerð. Nemendur máluðu með bleki á rauðan pappír ( sem er gerður úr hrísgrjónum og bómull ) með penslum úr úlfa og kinda hárum sem Wen-Hsi og Martin komu með frá Taívan.
Nemendur æfðu sig í að mála tákn sem þýða: Að eilífu, Mikla lukku og Vor, en þessi orð eru notuð til að skreyta hús fólks sem heldur upp á áramótin með Asískum sið.
Öll stóðu sig frábærlega og öll sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og höfðu gaman af.
Myndir hér
Lesa meira
10.03.2023
Sæl öll
Vikan sem er að líða var róleg og tíðindalítil.
Komandi fimmtudag leggur unglingastigið land undir fót og ætla þau, ásamt umsjónarkennurum, að bregða sér til Reykjavíkur. Ætlunin er að fara á sýninguna Mín framtíð í Laugardalshöll.
Upplestrarkeppnin á miðstigi verður haldin innanhúss þetta árið og ætla nemendur að lesa á miðvikudag og vera með uppskeruhátíð á Harbour á föstudag.
Nú eru laus þrjú störf til umsóknar hjá skólanum, allar nánari upplýsingar hér.
Munum að klæða okkur vel því nú er kári kaldur.
Vonum að þið njótið helgarinnar
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
10.03.2023
Nú eru þrjú störf til umsóknar við skólann hjá okkur. Vilt þú slást í hópinn? :)
Um er að ræða sérkennara/verkefnastjóra sérkennslu, húsvörð og ritara.
Hægt er að skoða auglýsingarnar, lesa starfslýsingar og sækja um hér.
Lesa meira
03.03.2023
Sæl öll
Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel, veðrið var gott og nemendur á yngsti stigi voru mikið úti.
Frístund hefur einnig notið veðurblíðunnar og borðuðu kaffitíma úti einn dag í vikunni.
Á miðvikudaginn var íþróttadagur yngsta stigs sem var einstaklega vel heppnaður og svo sannarlega kominn til að vera einu sinni á hverju skólaári.
Nemendur 10. bekkjar eru að safna sér fyrir útskriftarferð og eru að selja happadrættisvinninga. Hægt er að panta miða með því að senda póst á hofdaskoli@hofdaskoli.is eða hafa samband við einhvern af nemendunum en þau ætla einnig að ganga í hús á Skagaströnd, miðvikudaginn 8. mars kl. 18:00 og selja miða.
Einn miði kostar 3000 krónur og hver miði umfram þann fyrsta 2000 krónur stk. Dæmi um vinninga eru gjafabréf hjá flugfélagi, bílaleigubílar í tvo daga, gistingar, gjafabréf í hinar ýmsu verslanir, glæsilegt málverk og fleira og fleira. Alls eru 50 vinningar og aðeins er dregið úr seldum miðum.
Í næstu viku verðum við stöllur fjarverandi á mánu- og þriðjudag vegna skólastjóranámskeiðs í Hveragerði. Dagný Rósa er okkar staðgengill þá sem endra nær.
Við vonum að þið njótið helgarinnar í vorblíðunni áður en kólnar aftur
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
02.03.2023
Íþróttadagur yngsta stigs Höfðaskóla var haldinn miðvikudaginn 1. mars. Nemendur fóru í ýmsa skemmtilega leiki í íþróttahúsinu og endaði dagurinn á pizzuveislu og bíó í skólanum. Ekki var annað að sjá en að nemendur hafi skemmt sér vel.
Vel heppnaður dagur með hressum og kátum krökkum. Myndir hér.
Lesa meira