24.02.2023
Sæl öll
Vikan í Höfðaskóla var fjölbreytt og setti öskudagurinn mark sitt á skólastarfið.
Á mánudaginn heimsótti 10. bekkur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og kynnti sér nám og aðstöðu á Sauðárkróki. Þau enduðu svo á leiksýningu í boði NFNV og höfðu gaman af.
Hingað mættu svo hinar ýmsu furðuverur á miðvikudaginn og var kennslu slitið klukkan 12:00 og héldu nemendur þá af stað í söng leiðangur um samfélagið. Foreldrafélög leik- og grunnskólans stóðu svo fyrir öskudagsskemmtun í íþróttahúsinu og er ekki annað að heyra á nemendum en að þau hafi skemmt sér mjög vel.
Í gær, fimmtudag, lagði 10. bekkur aftur land undir fót og heimsótti Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi en nemendur voru mjög ánægðir bæði með ferðina á Sauðárkrók og í Borgarnes.
Á miðvikudaginn í næstu viku verður íþróttadagur yngsta stigs í Höfðaskóla haldinn frá kl. 16:00-18:00. Nemendur ætla að fara í hinar ýmsu þrautir í íþróttahúsinu og enda svo í skólanum í pizzuveislu, það verður eflaust mjög gaman.
Við minnum svo á hafragrautinn okkar sem er í boði alla morgna sem og ávaxta stundina á miðvikudögum en þann dag þurfa nemendur ekki að koma með nesti.
Að lokum vekjum við athygli á stöðu verkefnastjóra sérkennslu við Höfðaskóla sem auglýst var á dögunum, allar nánari upplýsingar má finna hér.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
20.02.2023
Laust er til umsóknar starf sérkennara/verkefnastjóra sérkennslu.
Um er að ræða 100% starf, þar af 50% verkefnastjórn.
Laun samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga og KÍ.
Lesa meira
17.02.2023
Heil og sæl
Þessi vika var stutt hjá okkur, tveir kennsludagar þar sem vikan hófst á vetrarfríi. Unnið var að ýmsum verkefnum og í dag kom skólahópur leikskólans í heimsókn til okkar.
Í næstu viku er margt um að vera enda bollu-, sprengi- og öskudagur framundan.
Á mánudaginn, bolludag, mega nemendur koma með bollur eða sparinesti. Þann dag ætla nemendur 10. bekkjar einnig að heimsækja FNV og kynnast starfseminni þar.
Á miðvikudaginn, öskudag, mega nemendur koma í búningum í skólann. Við skulum muna að hafa virðingu að leiðarljósi við val á búningum. Kennsla fellur niður eftir hádegi og gefst nemendum færi á að fara og syngja og safna góðgæti. Öllum nemendum yngsta stigs stendur til boða að fara og syngja með frístund.
Öskudagsskemmtun verður svo í íþróttahúsinu frá kl. 16:00-17:30.
Á fimmtudaginn er svo stefnan að nemendur 10. bekkjar haldi í heimsókn í Borgarnes og kynni sér starfsemi Menntaskólans þar.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
16.02.2023
Í dag fengum við góða heimsókn frá viðbragðsaðilum á svæðinu þegar lögreglan, slökkiliðið og björgunarsveitin komu og sýndu nemendum tækin sín. Heimsóknin var í tengslum við 1-1-2 daginn. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.
Lesa meira
10.02.2023
Heil og sæl
Í vikunni sem nú er að líða var margt um að vera í Höfðaskóla. Nemendur unnu að fjölbreyttum verkefnum og margt skemmtilegt var um að vera í frístund.
Í dag fengu nemendur á unglingastigi skemmtilega heimsókn. Fulltrúar frá samvinnuverkefni FNV, FabLab og Sýndarveruleika ehf komu og kynntu tækni fyrir nemendum en verkefnið hefur það að markmiði að gera tækni aðgengilegri fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn og þannig stuðla að því með beinum hætti að auka tækniþekkingu þeirra og varpa ljósi á möguleika í tækni- og iðnnámi.
Fyrirhuguð er danskennsla á vordögum en við munum auglýsa hana nánar þegar tímasetningar liggja fyrir.
Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, 13., 14. og 15. febrúar er vetrarfrí hjá okkur og við vonum að þið njótið þess vel.
Góðar kveðjur
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
08.02.2023
Foreldrafélag Höfðaskóla selur skólapeysur.
Peysurnar verða merktar Höfðaskóla og eru nokkrir litir í boði.
Barnapeysa 4320kr. og unglingapeysa 5325kr.
Tekið verður við pöntunum í skólanum milli kl. 17:00 og 19:00 fimmtudaginn 9.febrúar og verður þá einnig hægt að máta.
Lesa meira
06.02.2023
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta skólabyrjun á morgun, 7. febrúar til kl. 10:00 en þá á appelsínugula viðvörunin að falla úr gildi.
Förum varlega
Góðar kveðjur
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
06.02.2023
Nemendur í 1.og 2.bekk eru að vinna verkefni tengt sjálfsmynd sinni uppúr bókinni Halló heimur. Nemendur teiknuðu sjálfa sig og kennara sína í fullri stærð á maskínupappír. Verkefnavinna gekk vel og allir nutu sín í botn.
Sjá myndir hér
Lesa meira
03.02.2023
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel, við fengum allskonar veður en létum það ekki á okkur fá. Fyrirhuguð ferð 10. bekkjar í Borgarnes, sem átti að vera í gær, var frestað til 23. febrúar vegna veðurs.
Skólahópur leikskólans kom aftur í heimsókn til okkar í gær eftir stutt hlé og munu þau koma reglulega í heimsókn fram á vor. Það er alltaf skemmtilegt að fá góða vini í heimsókn en þau ætla að prufa hinar ýmsu kennslustundir til að fá smjörþefinn af því sem koma skal í haust.
Yngsta stig hélt upp á afmælið hjá Blæ, en bangsinn Blær fylgir þeim í tengslum við vináttuverkefni Barnaheilla. Afmælið var vel heppnað og skemmtu nemendur sér konunglega.
Þegar veðrið er blautt er mikilvægt að klæða sig samkvæmt því og vera með auka sokka í töskunni.
Við minnum einnig á hafragrautinn okkar góða, sem er í boði alla morgna sem og ávaxta stundina okkar alla miðvikudaga en þá daga þurfa nemendur ekki að hafa með sér nesti.
Næsta vika er svo síðasta heila vikan okkar fyrir vetrarfrí.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
26.01.2023
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla hefur flogið áfram og skólastarfið gengur vel. Á mánudagskvöldið kom Þorsteinn V. Einarsson sem heldur úti samfélagsmiðlinum Karlmennskan og hélt fyrirlestur fyrir foreldra og forráðamenn. Erindið hans var virkilega áhugavert og þökkum við þeim foreldrum/forráðamönnum sem mættu kærlega fyrir komuna. Það skiptir miklu máli að foreldrar/forráðamenn séu duglegir að sækja þau erindi sem auglýst eru á vegum skólans.
Á þriðjudagsmorgninum hitti hann svo nemendur 8.-10. bekkjar og var með erindi fyrir þau líka. Nemendur voru áhugasamir og höfðu gagn og gaman af.
Á morgun er starfsdagur hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd og því er hvorki kennsla né frístund þann dag. Nemendur fá því langa helgi.
Í næstu viku fer 10. bekkur í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar, en þangað er þeim boðið til að kynna sér nám og starfsemi skólans. Elva umsjónarkennari þeirra ætlar að fylgja þeim þangað.
Þegar blautt er úti er mjög mikilvægt að nemendur séu með auka sokka í töskunni og ekki verra ef þessi yngstu eru með auka par af buxum líka.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira