Fréttir

Jólaföndur

Í gær gerðum við okkur glaðan dag og höfðum jólaföndur frá kl. 10:00-12:00 þar sem nokkrar stöðvar hér og þar um skólann voru í gangi og nemendur gátu flakkað á milli. Skemmtileg hefð þar sem allir gátu föndrað eitthvað við sitt hæfi.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir! Áfram heldur tíminn að æða frá okkur, fyrsti í aðventu var sl. sunnudag og desember byrjaður. Það er margt skemmtilegt framundan hjá okkur. Í desember verður eitthvað um uppbrot frá hefðbundinni kennslu má þar nefna jólaföndurdag 7. des eins og undanfarin ár, jólaþema - rauður dagur 9.des, kakó og piparkökur í nestinu 14. des, fara í kirkjuna og hlusta á Giggu rifja upp jólin þegar hún var barn og syngja saman nokkur lög og borða síðan jólagraut í skólanum 16.des, litlu jólin verða svo haldin verða 19. desember. Unglingastigið fer á Sauðárkrók 7. og 8. desember þar sem þau fá kynningu á því verknámi sem Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra hefur uppá að bjóða. Ómetanlegt fyrir nemendur skólans að fá kynningu sem þessa. Undanfarin ár hafa nemendur og starfsfólk skólans styrkt Velunnarasjóði. Þetta árið var ákveðið að styrkja sama málefni og í fyrra, Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar, þar sem upplifunin er að við séum að hafa góð áhrif á okkar nærumhverfi með framlaginu. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólann í síma 4522800 eða gudrunelsa@hofdaskoli.is Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund. Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd. Ég vona að þið njótið helgarinnar. Með góðum aðventukveðjum, Guðrún Elsa
Lesa meira

Jólasöfnun fyrir Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar

Litlu jól nemenda verða 19. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulag undanfarinna ára þ.e. engin pakkaskipti á litlu jólunum, bæði hjá nemendum og starfsfólki skólans. Óskað er eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk, ef heimilin hafa tök á. Í fyrra kusu nemendur að styrkja Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar en hann er til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem minna mega sín. Ákveðið hefur verið að styrkja sama málefni þetta árið þar sem upplifunin er að við séum að hafa góð áhrif á okkar nærumhverfi með framlaginu. Föstudaginn 2. desember fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Velunnarasjóðnum verður síðan afhentur styrkurinn föstudaginn 16.desember. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólann í síma 4522800 eða gudrunelsa@hofdaskoli.is
Lesa meira

Jólatónleikar Tónlistarskóla A.-Hún. fara fram 13. desember kl.16:30 í Hólaneskirkju

Jólatónleikar Tónlistarskóla A.-Hún. fara fram 13. desember kl.16:30 í Hólaneskirkju. ATH. Breytt dagsetning v/ferðar unglingastigs í Skagafjörðinn.
Lesa meira

Ævintýri á aðventunni

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri heimsótti nemendur á yngsta stigi í morgun með jólasýninguna Ævintýri á aðventunni. "Ævintýri á aðventunni er nýr gleðilegur jólasöngleikur úr smiðju sviðslistahópsins Hnoðra í norðri sem sniðinn er að börnum á 6-10 ára aldri, en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap. Lengd verksins er 30 mín. Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar." Nánari upplýsingar um verkið er að finna á heimasíðu List fyrir alla. Við þökkum sviðslistahópnum hjartanlega vel fyrir komuna og einnig styrktaraðilum hópsins fyrir tækifærið.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Í gærkvöldi var árshátíð skólans haldin í Fellsborg. Nemendur skólans stigu á stokk og léku m.a. persónur úr Hálsaskógi, Bósa ljósár og sveitarstjóra. Eins og kom fram í ræðu formanns nemendafélagsins "Það er ekki sjálfgefið að allt gangi upp við uppsetningu árshátíðar sem þessarar. Undanfarnar vikur hafa nemendur, undir stjórn kennara sinna, samið og æft atriðin sem þið sáuð hér. Hjá mörgum var mikill sigur unninn við það að stíga hér á stokk og skemmta öðrum." Við þökkum öllum þeim sem sáu sér fært að koma hjartanlega fyrir komuna. Fyrsti desember er handan við hornið með öllum þeim ljósum, skrauti og skemmtilegheitum sem hægt er að ímynda sér. Í næstu viku förum við að huga að jólaróli og byrjum á að taka á móti leikhópnum Hnoðri í norðri sem er með leikriti fyrir yngsta stig sem heitir Ævintýri á aðventunni. Sýningin er styrkt af Tónskáldasjóði, Tónlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði SSNE, Menningarsjóði Akureyrar og Samfélagssjóði Norðurorku, þannig að við eigum þeim og List fyrir alla að þakka að þau geta komið til okkar. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjur Guðrún Elsa
Lesa meira

Samstarf við Nes listamiðstöð

Þeir nemendur miðstigi sem eru í myndmennt fóru í Nes listamiðstöð í vikunni og fengu fræðslu um Collage art eða hvernig hægt er að gera listaverk úr klippimyndum. Þau fengu allskyns efni til að vinna með og bjuggu til sín eigin "collage" listaverk sem komu skemmtilega út, þrátt fyrir að hafa stuttan tíma. Krakkarnir í 2. og 3.bekk lærðu að búa til sólmyndir ( cyanotype ) í Nes listamiðstöð í vikunni og skemmtu sér konunglega. Það er ómetanlegt að vera í góðri samvinnu við menningarstarfsemi í nærumhverfinu. Myndirnar verða til sýnis á opnu húsi í Nes sem er í dag frá kl. 16:00 -18:00. við hvetjum alla til að mæta og berja verkin augum.
Lesa meira

Árshátíð Höfðaskóla

Árshátið Höfðaskóla verður haldin í Fellsborg 24. nóvember kl. 18:00. Fjölbreytt dagskrá. Skólafélagið Rán verður með diskótek og sjoppu að dagskrá lokinni.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl og blessuð kæru vinir! Tíminn flýgur áfram og enn á ný er kominn föstudagur, þá er ekki úr vegi að setjast niður og líta yfir vikuna sem nú er að renna sitt skeið og fara að spá í þeirri næstu. Árshátíðarundirbúningur er kominn á fullt skrið og atriði nemenda er smá saman að verða að flottum sýningaratriðum og við hlökkum til að leyfa ykkur að sjá afrakstur þessarar vinnu í næstu viku. Árshátíð Höfðaskóla fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Fellsborg. Að morgni árshátíðardags mæta nemendur í Fellsborg kl. 9:00 á generalprufu. Þann dag verður ekki hafragrautur í boði og þau mega koma með sparinesti með sér ásamt drykk. Það er ekki leyfilegt að koma með sælgæti, gos eða orkudrykki. Árshátíðin hefst svo klukkan 18:00 en allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag hennar verða sendar út eftir helgi. Unglingastigið fékk góða gesti í heimsókn í vikunni. Geðlestin kom og fræddi um mikilvægi þess að huga að geðrækt og minntu á að við förum til læknis ef við erum veik hvort sem það er andlega eða líkamlega, bæði er jafn mikilvægt. Með Geðlestinni var góður gestur, tónlistarmaðurinn Flóni og var hann með "mini" tónleika fyrir krakkana. Þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Á þriðjudaginn fara nemendur 8.-10.bekk á Starfamessu á Sauðárkróki. Á Starfamessunni verða kynntar um 30 náms- og starfsleiðir í iðn-, tækni- og verkgreinum, með áherslu á þau tækifæri sem standa nemendum til boða hér á Norðurlandi vestra. Hugmyndin er að nemendur fái tækifæri til að hitta bæði forsvarsmenn starfsgreinanna sem og aðstandendur námsins á bakvið þær greinar. Þannig öðlist þeir innsýn í ferlið allt frá námi og inni í fyrirtækin þar sem störfin eru unnin. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjur Guðrún Elsa
Lesa meira

Föstudagskveðja á fimmtudegi

Heil og sæl Framundan er vetrarfrí á morgun föstudag 11.nóv, mánudaginn 14.nóv og þriðjudaginn 15.nóv, næsti kennsludagur er miðvikudagurinn 16. nóv. Geðlestin heimsækir nemendur á unglingastigi nk.miðvikudag og heldur fyrirlestur kl. 13:20 sem tekur ca 50 mínútur. Á döfinni er svo árshátíðin okkar sem er áætluð 24.nóvember og er allt undirlagt í þeim undirbúningi. Við minnum á mikilvægi þess að láta vita ef nemendur forfallast, hægt er að hafa samband við skólann með því að hringja í s.4522800, senda tölvupóst á umsjónarkennara eða skólastjóra ásamt því að tilkynna gegnum heimasíðuna. Eins og tíðin hefur verið undandarið er myrkrið allsráðandi á morgnana og því viljum við minna á endurskinsmerkin. Til gamans má geta að einungis sjö vikur eru eftir af árinu. Við vonum að þið njótið vetrarfrísins. Með góðum kveðjum Starfsfólk Höfðaskóla
Lesa meira