Fréttir

Framsagnarkeppnin

Þriðjudaginn 29.mars var framsagnarkeppni Höfðaskóla haldin, að þessu sinni í bekkjarstofu miðstigs. Nemendur 5., 6. og 7. bekkjar tóku þátt og stóðu sig öll með prýði. Á myndinni má sjá þá Alexander Áka, Anton Loga og Andra Snæ sem hrepptu þrjú efstu sætin í 7. bekk. Á meðfylgjandi myndum má sjá þá nemendur þóttu skara frammúr í lestri í 5. og 6.bekk, á myndina hjá 5.bekk vantar Arney Nadíu.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru skólavinir Nú er mars liðinn, apríl mættur og páskafrí handan við hornið. Eins og flestum er kunnugt þá er hafragrautur í boði fyrir nemendur á morgnana en eftir að því var veitt athygli að nemendur á unglingastigi voru ekki að nýta sér grautinn prufuðum við að bjóða þeim uppá hafragraut á fimmtudögum og föstudögum í nestinu. Þetta hefur gefist mjög vel og hafa mjög margir nemendur nýtt sér þessa nýjung. Í næstu viku fara nemendur fimmta bekkjar í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi ásamt því að fara í minni hópum og skoða fyrstu stafrænu textílsmiðjuna á Íslandi, TextílLab á vegum Textílmiðstöðvarinnar. Textílsmiðjan er útbúin stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi. Þegar hefur verið fjárfest í stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél, auk leiserskera og vínylprentara. Nemendur á yngsta stigi fengu kennslu í skák fyrr í vetur, þetta vakti mikla lukku og tefla nemendur nánast alla morgna meðan beðið er eftir að kennsla hefjist. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu klæddir í takt við síbreytilega veðráttu Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Sara Diljá
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Nemendur 9.og 10.bekkjar lögðu land undir fót og fóru á Akureyri þriðjudaginn sl. og kynntu sér námsframboð í MA og VMA. Innritun í framhaldsskólana hefst 25. apríl og lýkur 10. júní. Þetta er stór ákvörðun, sum hafa ákveðið sig fyrir löngu en önnur eru að velta vöngum. Það getur því verið snjallt að heimsækja skólana, skoða vel heimasíður þeirra og kynnast því sem í boði er. Kiwanisklúbburinn Drangey á Sauðárkróki afhendi nemendum í 1.bekk Höfðaskóla endurskinsvesti og þökkum við þeim kærlega fyrir. Sveitarstjóri kíkti upp í Höfðaskóla á þessum fallega föstudegi til þess að skrifa undir samning við UNICEF og Mennta- og barnamálaráðuneytið í viðurvist nemenda úr Höfðaskóla. Frétt um það hér. Búið er að staðsetja 3D prentarann á bókasafninu og fengum við góða gesti í dag sem settu hann upp og kenndu grunntökin. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir Vikan hefur gengið sinn vanagang. Nemendur og kennarar eru upprisnir úr covid og aðeins örfáir sem eiga eftir að glíma við pestina. Nemendur í 10.bekk tóku PISA próf í vikunni og er það jákvæð lífsreynsla fyrir nemendurnar. Fulltrúar skólans fóru á Bessastaði í vikunni og tóku á móti verðlaunum fyrir lestur í skólalestrarkeppni Samróms. Við erum mjög stolt af nemendum okkar, fjölskyldum þeirra og starfsfólki skólans sem allir eiga hlut í sigrinum. Starfsdagur er á mánudaginn og verða lögð drög að árshátíð sem verður auglýst síðar sem og ráðgert er að hafa opið hús í lok mánaðarins. Nemendur í 9. og 10.bekk munu leggja land undir fót á þriðjudaginn og fara að skoða VMA og MA á Akureyri. Framundan eru hinar ýmsu uppákomur fyrir nemendurnar sem legið hafa í dvala undanfarin ár, má þá nefna Stóru upplestrarkeppnina, sameiginlega íþróttadaga, fyrir bæði miðstig og unglingastig, með grunnskólunum í Austur- og Vestur- Húnavatnssýslu. Við hvetjum foreldra til að hafa samband ef eitthvað er, við leggjum mikla áherslu á jákvæð og góð samskipti milli heimilis og skóla. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Viðurkenning í lestrarkeppni grunnskóla á Bessastöðum

Samrómur lestrarkeppni grunnskóla stóð yfir dagana 20. - 26. janúar 2022. Höfðaskóli tók þátt, eins og svo margir aðrir grunnskólar, í keppninni með glæsilegum árangri. Í vikunni voru fulltrúar skólans viðstaddir athöfn á Bessastöðum þar sem forseti Íslands afhenti verðlaun og viðurkenningar fyrir frammúrskarandi árangur. Veitt voru verðlaun til skólanna sem voru í fyrsta sæti í sínum flokki, auk þess fengu þrír skólar sem lásu mest þvert á flokka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Skólarnir sem sigruðu sína flokka voru Salaskóli, Smáraskóli og Höfðaskóli. Þeir nemendur sem tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans voru systurnar Ylfa Fanndís og Arney Nadía Hrannarsdætur, nemendur í 5. og 6.bekk. Með þeim var Þorgerður Þóra Hlynsdóttir umsjónarkennari á miðstigi. Keppnin var hreint út sagt ótrúleg og allir sem tóku þátt eiga hrós skilið.
Lesa meira

Það er aldrei of mikið talað um fjármál!

Fyrstu skref í fjármálum Nemendur unglingastigs vinna þessa dagana að ýmsum verkefnum tengdum efni frá Fjármálaviti. Stuðst er við bókina Fyrstu skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson, sem er um grunnþætti fjármála einstaklinga og hentar einstaklega vel í kennslu í fjármálalæsi. Bókina fá nemendur til eignar. Nemendur hafa unnið ýmis verkefni tengd sköttum, launum, launaseðlum og kjarasamningum, lántökum, vaxtarútreikningum og ávöxtunarleiðum. Nemendur hafa skoðað mismun þess að taka lán eða spara, hvað þeir kosti eins og þeir mæta í skólann, hvað séu traust fjármál og hvernig maður getur sett sér markmið í fjármálum. Hægt er að kynna sér efnið á síðunni fjármálavit og við mælum sérstaklega með skemmtilegum myndböndum á síðunni. Í tengslum við þetta hafa nemendur tekið þátt í Fjármálaleikunum sem er keppni milli skóla í fjármálalæsi og lýkur þeirri keppni 18. Mars. Hægt er að sjá allt um keppnina hér: https://fjarmalaleikar.is/#/login Það er ánægjulegt að heyra nemendur ræða sín á milli um viðfangsefnin sem við höfum farið yfir utan kennslustunda og við erum sannfærðar um að allt efni þessarar lotu kemur til með að nýtast þeim strax, sem og í framtíðinni. Það er aldrei of mikið talað um fjármál!
Lesa meira

Himingeimurinn og yngsta stig

Síðustu vikur hefur yngsta stig verið að læra um himingeiminn. Þau lásu bókina Tunglið, gerðu hópverkefni um plánetu sem þau fengu úthlutað og fengu einnig að búa til sína eigin plánetu. Þau skoðuðu pláneturnar í gegnum Merge cube með hjálp Ipad og síðan var sólkerfið límt á gólfið og fengu þau að forrita Sphero bolta til að ferðast um himingeiminn. Þetta vakti mikla lukku hjá krökkunum og skemmtu þau sér konunglega við að læra um himingeiminn!
Lesa meira

Öskudagur 2022

Öskudagur 2022 Í ljósi þess hversu margir af yngstu kynslóðinni eru nú smitaðir af covid leggjum við í Höfðaskóla ásamt foreldrafélagi skólans til að öskudeginum verði frestað um eina viku svo að fleiri geti tekið þátt í gleðinni. Við vonumst til að samstaða sé um það í samfélaginu okkar og að fyrirtæki séu tilbúin til að taka á móti syngjandi börnum miðvikudaginn 9. mars 2022. Öskudagsskemmtun foreldrafélagsins verður einnig þann dag, nánar auglýst síðar. Sjáumst (vonandi :)) syngjandi kát, viku á eftir áætlun og leyfum með því fleirum að taka þátt í þessum skemmtilega degi.
Lesa meira

Skólahaldi aflýst

Sæl öll. Að höfðu samráði við sveitarstjóra hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa skóla í dag, mánudaginn 28.febrúar. Förum varlega og sýnum aðgát! Kær kveðja Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir Vikan var stutt annan endann og vonum við að þið hafið getað notið vetrarfrísins. Skólastarf er nú farið að ganga sinn vanagang eftir töluverða fjarveru nemenda vegna Covid. Frá og með deginum í dag er öllum sóttvarnartakmörkunum aflétt en við hvetjum samt fólk áfram til að gæta að persónulegum sóttvörnum. Í vikunni kom tilkynning um að ekki verða haldin samræmd próf þetta skólaárið og hafin er vinna við hönnun Matsferils nýrrar verkfærakistu kennara og skóla. Matsferill mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð verkfæri fyrir kennara sem fagmenn, ætluð til nota í umbótaskyni, nemendum til hagsbóta. Vetur konungur blæs töluvert á okkur og gott er þá að hafa í huga að nemendur séu klædd eftir veðri og veðurspá. Nú er febrúar senn á enda og hefur blásið vel nú í góubyrjun og samkvæmt heimildum skólans þykir það vísa á gott veðurfar á vormánuðum. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira