Fréttir

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Nemendur á yngsta stigi fóru síðan á Hnappstaðatún í vikunni og nemendur í fyrsta bekk kveiktu á jólatré okkar Skagstrendinga. Stærðfræðijóladagatal er á unglinga- og miðstigi þar sem nemendur fá eina þraut á dag til að leysa, setja svarið sitt í kassa og áður en við förum í jólafrí verður dregið úr réttum svörum og veitt verðlaun. Við enduðum vikuna á að gera okkur glaðan dag og höfðum jólaföndur frá kl. 10:00-12:00 þar sem nokkrar stöðvar hér og þar um skólann voru í gangi og nemendur gátu flakkað á milli. Þá var einnig í boði að horfa á jólamynd fyrir þá sem ekki vildu föndra. Myndir hér. Í næstu viku verður söngur á "sal" á miðvikudaginn ásamt því að nemendafélagið ætlar að steikja vöfflur í kaffinu og gefa öllum nemendum skólans. Við vonum að þið njótið annarrar helgar aðventu. Jólakveðja Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Ljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni

Fulltrúi fyrsta bekkjar í Höfðaskóla sá að þessu sinni um að tendra ljósin á jólatré okkar Skagstrendinga á Hnappataðatúni. Nemendur yngsta stigs dönsuðu svo í kringum jólatréð og sungu jólalög.
Lesa meira

Snjálfur álfur

Snjálfur álfur mætti nú í byrjun vikunnar á yngsta stig. Álfurinn er þekktur fyrir hin ýmsu uppátæki og verður spennandi að fylgjast með honum á komandi dögum.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir! Áfram heldur tíminn að æða frá okkur, fyrsti í aðventu á sunnudaginn og desember handan við hornið. Það er margt um að vera og ýmislegt spennandi framundan hjá okkur. Í desember verður eitthvað um uppbrot frá hefðbundinni kennslu og verður það allt auglýst í byrjun desember. Við stefnum að því að halda jólaföndurdag eins og undanfarin ár, fara í kirkjuna og hlusta á jólasögu og syngja nokkur lög, jólagrauturinn verður á sínum stað sem og litlu jólin sem haldin verða 17. desember. Uppbrotsvika var hjá unglingastiginu í liðinni viku og var nemendum skipt í fjóra hópa sem fóru á milli stöðva, þannig að allir fóru á eina stöð á dag. Í boði var að læra að tálga, búa til plast, bókleg heimilisfræði ásamt myndmennt í samvinnu við Nes listamiðstöð. Nemendur skemmtu sér konunglega og verður þetta gert aftur þegar fer að vora. Myndir má sjá hér. Lögreglan er búin að vera með eftirlit á bílaplaninu hér við skólann undanfarna tvo morgna. Við fögnum því þar sem ávallt er gott að lögreglan sé sýnileg. Í morgun fóru nokkrir nemendur af stað út á plan og buðu lögreglumanninum inn í hafragraut og spjall í morgunsárið, sem var að sjálfsögðu þegið. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund og nemendur miðstigs sem eru í útivist á mánudögum. Nokkuð hefur borið á að nemendur séu ekki klæddir til útivistar í kuldanum og síbreytilegu veðri sem hefur verið undanfarið. Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd. Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum aðventukveðjum, Guðrún Elsa og Dagný Rósa.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Róleg og góð vika að baki, nemendur eru að klára hin ýmsu verkefni og kennarar farnir að undirbúa, sérstaklega fyrir yngri krakkana, þemaverkefni um jólin. Dagur íslenskrar tungur var 16.nóvember og nýttu nemendur á yngsta stigi daginn í að semja póstkort og senda á vini og ættingja. Þetta framtak heppnaðist mjög vel og viðtakendur himinsælir með framtakið. Nemendur á miðstigi taka þátt í spurningakeppni í sama dúr og Kappsmál á hverjum föstudegi fram að jólum. Fyrsta skiptið var í morgun og allir skemmtu sér konunglega bæði þeir sem tóku þátt og horfðu á. Í næstu viku breytum við stundatöflunni á unglingastigi og tökum list- og verkgreinaviku, frá mánudegi til fimmtudags. Nemendum unglingastigs verður skipt í 4 hópa og fara í verklega kennslu milli kl. 8:20 og 12:00. Það sem kennt verður er: heimilisfræði, myndmennt, tálgun og plastvinna. Eins og tíðin hefur verið undandarið er myrkrið og snjórinn allsráðandi á morgnana og því viljum við minna á endurskinsmerkin. Nemendur hafa verið ansi snjóugir og blautir eftir útivist undanfarna daga og gott væri ef auka sokkapar myndi leynast í tösku sem hægt væri að grípa til. Vonandi eigið þið ánægjulega helgi Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Piparkökuhús

Foreldrafélag Höfðaskóla ætlar að selja piparkökuhús og skreytingasett. Pakkinn inniheldur: - piparkökuhús - glassúr tilbúinn í sprautupoka (rauður og hvítur) - sælgæti Verð 2700kr. Hægt er að panta húsin til 22.nóvember og húsin verða svo afhend 2.desember. Pantanir berast áforeldrafelag@hofdaskoli.is
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel, nemendur komu margir hverjir úthvíldir og endurnærðir eftir vetrarfrí. Eins og flestum ætti að vera kunnugt voru tilkynntar breyttar reglur vegna Covid í dag. Helstu breytingarnar í grunnskólanum eru þær að nú verður meter á milli nemendaborða í kennslustofunum fram til 8.des. Árshátíðin okkar hefði samkvæmt skóladagatali átt að vera 19. nóvember, fimmtudaginn í næstu viku. Eins og áður hefur verið upplýst um var henni frestað og verður staðan endurmetin í febrúar. Þar sem desember er rétt handa við hornið ætlum við að halda okkur við að styrkja gott málefni í stað þess að skiptast á gjöfum og langar okkur að velja málefni sem stendur samfélaginu okkar nærri. Ákveðið var að styrkirnir færu til félagasamtaka en ekki einstaklinga. Allar ábendingar um málefni til að styrkja má senda okkur hér. Nemendur verða að sjálfsögðu hafðir með í ráðum þegar kemur að því að velja endanlega hvaða málefni verður styrkt. Barnaheill stendur fyrir símalausum sunnudegi, n.k. sunnudag þann 14. nóvember og hvetjum við alla til að taka þátt. Upplýsingar um þennan dag má sjá hér. Að lokum minnum við ykkur á að hafa samband ef eitthvað er. Netföng allra starfsmanna eru aðgengileg hér á heimasíðunni og símanúmerið í skólanum er 452-2800. Við skulum stilla okkur saman um að tala fallega um skólann okkar og stuðla saman að jákvæðum skólabrag. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Árshátíð - frestun

Eins og öllum ætti að vera ljóst þá heldur Covid áfram að stríða okkur og í ljósi stöðunnar í samfélaginu hefur sú ákvörðun verið tekin að fresta árhátíðinni og kökuhlaðborðinu sem átti að vera 18.nóvember. Staðan verður endurmetin í byrjun febrúar og nánari dagsetning auglýst í kjölfarið.
Lesa meira

Flippíþróttadagurinn

Okkar árlegi flippíþróttadagur var haldinn í dag. Að þessu sinni var hann innandyra en það var ekki til að skemma stemninguna. Nemendur kepptu í hópum, þrjú lið á yngsta stigi, þrjú lið á miðstigi og nemendur unglingastigs kepptu að þessu sinni eftir bekkjarskiptingu. Keppt var í greinum eins og púsli, uppröðun plastglasa og stígvélakasti. Nemendur ásamt starfsfólki skemmtu sér konunglega.
Lesa meira

Föstudagskveðja á fimmtudegi

Heil og sæl kæru vinir! Vikan hefur verið annasöm hjá okkur. Menntabúðirnar á þriðjudeginum heppnuðust með afbrigðum vel og enn og aftur þökkum við ykkur kærlega fyrir komuna. Í morgun héldum við svo okkar árlegu flippíþróttakeppni þar sem greinarnar voru meðal annars stígvélakast, bottleflip og limbo. Framundan er vetrarfrí á föstudag og mánudag svo næsti kennsludagur er þriðjudagurinn 9. nóvember. Á döfinni er svo árshátíðin okkar sem er áætluð 18.nóvember. Við vonum að þið njótið vetrarfrísins. Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira