03.11.2021
Kæru foreldrar, forráðafólk og aðrir velunnarar skólans.
Við hér í Höfðaskóla erum himinlifandi með frábæra mætingu á menntabúðirnar sem haldnar voru í gær, stuðningur ykkar og áhugi á skólastarfinu skiptir okkur öll máli.
Mikil þekking og reynsla í upplýsingatækni og tækniþróun er til staðar hjá nemendum Höfðaskóla eins og sjá mátti á þeim tæplega 40 stöðvum sem nemendur í 1.-10.bekk settu upp og í gær og fögnum við því tækifæri að geta deilt hugmyndum og reynslu með því að sýna, sjá og ræða saman. Tæknin gerir skólastarfið fjölbreyttara og þau verkfæri og þekking sem hlotnast er oft mögnuð.
Lesa meira
29.10.2021
Sæl öll sömul
Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel. Á mánudaginn fengum við heimsókn frá Samtökunum 78 þar sem allir nemendur og starfsfólk fengu hinseginfræðslu. Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra var svo seinnipartinn þennan sama dag og þökkum við þeim sem sáu sér fært að mæta kærlega fyrir komuna. Það skiptir miklu máli að foreldrar reyni eftir fremsta megni að mæta á viðburði í skólanum og haldi þannig skólasamfélaginu lifandi og skemmtilegu.
Á miðvikudaginn hélt Finnbogi íþróttakennari ásamt nokkrum nemendum til Akureyrar þar sem fram fór kynning á blaki fyrir grunnskólakrakka. Það vel heppnað og skemmtilegt.
Þriðjudaginn 2. nóvember n.k. verður opið hús þar sem nemendur í Höfðaskóla ætla að halda menntabúðir fyrir gesti og gangandi frá kl. 16:00-18:00. Þar ætla nemendur að kynna hin ýmsu tæki og tól og hvetjum við alla til þess að mæta og kynna sér starfsemi og skoða skólahúsnæðið í leiðinni. Nemendur í 10. bekk verða með vöfflur og kaffi/djús til sölu á 500 krónur en Vilko styrkti þau um vöfflumix og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Breytingar verða á starfsmannahaldi eftir helgina þegar Sara Diljá og Fjóla Dögg fara báðar í leyfi. Nánari upplýsingar verða sendar foreldrum/forráðamönnum í tölvupósti.
Næstu tvær vikur verða svo í styttra lagi þar sem vetrarfrí er föstudaginn 5. nóvember og mánudaginn 8. nóvember.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
29.10.2021
Nemendur dunduðu sér við að búa draugalegar til myndir í myndmennt tengt hrekkjavökunni.
Myndir hér
Lesa meira
28.10.2021
Nemendur Höfðaskóla hafa undanfarin ár tekið virkan þátt í þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað í námi og kennslu. Þriðjudaginn 2.nóvember milli kl. 16:00 og 18:00 verður opið hús í Höfðaskóla þar sem forráðafólk, ættingjar og aðrir velunnarar skólans eru hjartanlega velkomnir að kíkja í heimsókn og kynna sér hin ýmu tæki og tól.
Nemendur 10.bekkjar munu selja vöfflur og kaffi/djús á 500kr. Vilko styrkti nemendahópinn um vöfflurnar og þökkum við þeim vel fyrir.
Lesa meira
22.10.2021
Sæl og blessuð
Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Yngsta stig var með haustfund fyrir foreldra s.l. miðvikudag og nemendur á yngsta stigi sáu leikritið Krakkarnir í hverfinu á mánudaginn var. Krakkarnir í hverfinu er leikþáttur þar sem brúður eru notaðar til að fræða börnin um ofbeldi og mikilvægi þess að börn segi frá. Brúðurnar ræða saman um það sem þær hafa lent í. Jóhanna segir frá því hvernig kærasti mömmu hennar snerti hana á óviðeigandi hátt og hvaða hjálp hún fékk eftir að hún sagði frá. Stefán segir vini sínum frá því hvernig mamma Stefáns beitti hann ofbeldi og hvernig þau fengu bæði hjálp eftir að hann sagði kennaranum sínum frá.
Í næstu viku fáum við fræðsluheimsókn frá Samtökunum 78 en þau ætla að koma með fræðslu inn á öll stig, hitta svo starfsfólk skólans og að lokum foreldra á fræðslufundi kl. 17:00. Foreldrafundurinn fer fram í stofum unglingastigs í Höfðaskóla. Það er mjög mikilvægt að sem flestir mæti. Fordómar byggjast oft og tíðum á skilnings- eða þekkingarleysi og er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að vera meðvituð og reyna eftir fremsta megni að uppræta fordóma.
Ef einhverjir utanaðkomandi, aðrir en foreldrar vilja mæta, t.d. ömmur, afar, frænkur, frændur eða aðrir skólavinir er það að sjálfsögðu velkomið.
Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang hjá okkur :)
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
22.10.2021
Clotilde er grafískur hönnuður frá Frakklandi og hefur dvalið hér í 2 mánuði í Nes listamiðstöð. Hún bauð krökkunum í myndmennt yfir í stúdíó Nes og var með stutta kynningu á því hvað það er að vera grafískur hönnuður og hvernig logo eru hönnuð. Krakkarnir fengu síðan að hanna sín eigin form og raða þeim saman á mismunandi vegu og átti það að tákna hinar ýmsu tilfinningar. Þau bjuggu til sitt eigið tungumál úr allskyns formum sem þau klipptu sjálf út og límdu síðan á blað. Þau fengu að sjá dæmi um nokkur abstrakt listaverk og Clotilde útskýrði fyrir þeim hvernig listamaðurinn býr til sitt eigið tungumál úr mismunandi formum og litum.
Krakkarnir fengu líka að skoða nokkrar vinnustöðvar hjá öðrum listamönnum sem eru með aðstöðu í Nes núna.
Þau voru öll til fyrirmyndar og sýndu þessu mikinn áhuga. Við þökkum Nes listamiðstöð fyrir höfðinglega móttökur.
Lesa meira
22.10.2021
Á mánudaginn í næstu viku fáum við fræðsluheimsókn frá Samtökunum 78 en þau ætla að koma með fræðslu inn á öll stig, hitta svo starfsfólk skólans og að lokum foreldra á fræðslufundi kl. 17:00. Foreldrafundurinn fer fram í stofum unglingastigs í Höfðaskóla. Það er mjög mikilvægt að sem flestir mæti. Fordómar byggjast oft og tíðum á skilnings- eða þekkingarleysi og er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að vera meðvituð og reyna eftir fremsta megni að uppræta fordóma.
Ef einhverjir utanaðkomandi, aðrir en foreldrar vilja mæta, t.d. ömmur, afar, frænkur, frændur eða aðrir skólavinir er það að sjálfsögðu velkomið.
Lesa meira
15.10.2021
Nemendur á unglingastigi hafa verið að læra um mismunandi lífverur, frumustarfsemi og líffærakerfi s.l. tvær vikur. Í dag var verklegur tími þar sem nemendur skoðuðu brjóstholslíffæri úr lömbum sem okkur áskotnaðist. Farið var yfir starfsemi nýrna, lifrar, hjarta og lungna. Þessi líffæri voru skoðuð, skorin í sundur og nemendur veltu fyrir sér ýmsum eiginleikum hvers og eins líffæris. Þá var prófað að blása í lungun til að sjá þau þenjast út og barkinn svo skoðaður nánar með því að taka hann í sundur. Nemendur urðu margs vísari eftir daginn.
Við þökkum bændunum á Breiðavaði fyrir aðstoðina við þetta verkefni.
Lesa meira
15.10.2021
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Í gær fór unglingastig inn á Blönduós og sá sýninguna Vloggið og í dag halda þau aftur þangað og taka þátt í valgreinadegi með nemendum úr Blöndu- og Húnavallaskóla.
Í næstu viku fer 7. bekkur í Reykjaskóla og mun dvelja þar í skólabúðum alla vikuna.
Judith Maria hætti störfum í frístund í vikunni og þökkum við henni kærlega fyrir gott samstarf. Í frístund koma í staðin þær Ástrós Villa og Kristbjörg Dúfa ásamt Ernu Ósk sem verður áfram á sínum stað.
Nú förum við að huga að undirbúning fyrir árshátíð sem fyrirhuguð er 18. nóvember og virðist allt benda til þess að hægt verði að halda hana með hefðbundnu sniði sem er gleðilegt. Það verður allt saman auglýst betur þegar nær dregur.
Við minnum aftur á mikilvægi þess að yfirfara endurskinsmerkin þar sem er orðið ansi dimmt á morgnanna þegar við mætum í skólann.
Hafragrauturinn góði er svo alltaf á sínum stað á morgnanna :)
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
14.10.2021
Þjóðleikhúsið lagði af stað í leikferð um landið með sýningu fyrir unga fólkið. Að þessu sinni er það sýningin Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson.
Leikritið Vloggið er spennandi hugleiðing um vináttu, misgóðar forvarnir og myndbandsveituna Youtube. Þar eru Konráð og Sýrri að flytja alheiminum mikilvæg skilaboð í von um að verða heimsfræg, eða allavegana að geta bjargað einhverjum unglingi á Austfjörðum. En kannski snýst þetta, ómeðvitað, meira um að fá viðurkenningu frá hinum krökkunum í skólanum.
Nemendur á unglingastigi Höfðaskóla fóru á Blönduós í morgun og sáu sýninguna í Félagsheimilinu ásamt unglingum frá Blönduósi og Húnavöllum.
Lesa meira