11.02.2022
Heil og sæl
Enn á ný er kominn föstudagur. Vikurnar líða áfram og brátt er febrúar hálfnaður. Vetur konungur minnti aðeins á sig í upphafi vikunnar en það er nú eitthvað sem við er að búast á þessum árstíma.
Covid er byrjað að narta í hælana á okkur og smit hafa greinst innan skólans. Samkvæmt nýjum reglum þá þurfa einstaklingar sem eru útsettir utan heimilis hvorki að fara í sóttkví né smitgát. Við biðlum til foreldra að vera vel vakandi og fara með nemendur í sýnatöku ef einkenni gera vart við sig. Góðar og gagnlegar upplýsingar er hægt að nálgast á https://www.covid.is/
Foreldrakönnun skólapúlsins hefur verið send út og hvetjum við foreldra til að taka þátt. Skólinn þarf að ná 80% svarhlutfalli svo könnunin teljist marktæk.
Ég minni á mikilvægi þess að láta vita ef nemendur eiga að vera í leyfi, hægt er að hringja að morgni, senda umsjónarkennara tölvupóst eða tilkynna hér í gegnum heimasíðuna.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
06.02.2022
Sæl öll
Það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum að það er afleit veðurspá næstu nótt og fram á mánudagsmorgun. Aðgerðarstjórn almannavarna hefur hvatt skólastjórnendur til að aflýsa skólahaldi mánudaginn 7.febrúar. Skólahaldi í Höfðaskóla er því aflýst á morgun. Þetta gengur vonandi hratt yfir.
Lesa meira
04.02.2022
Heil og sæl
Vikan sem nú er á enda var með rólegra móti.
Uppúr stendur þorrablót á yngsta stigi þar sem nemendur fengu að smakka hinar ýmsu kræsingar sem þóttu misgóðar en flest allir voru tilbúnir að prufa. Myndir hér
Nemendur á miðstigi fóru í heimsókn á mánudaginn á Fiskmarkaðinn og fengu þar kennslu í að slægja fisk ásamt því að fá kynningu á margskonar fisktegundum. Myndir hér
Unglingastigið velur á hverju hausti valgreinar til að nema. Þennan veturinn má nefna forritun og prjónaskap, skemmtilegt að segja frá því að drengirnir sóttu ekki síður í prjónið heldur en stúlkurnar. Myndir hér.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
28.01.2022
Stuttur og léttur vikupóstur.
Hápunktur vikunnar var þátttaka okkar í Samróm. Nemendur, foreldrar, ættingjar og velunnarar skólans lásu, lásu og lásu. Með þessu samstyllta átaki lönduðum við 1. sætinu í C flokki og 3. sæti á landsvísu. Nemendur skólans fögnuðu vel þegar niðurstöður lágu fyrir.
Taka má fram að við þökkum Öxafjarðarskóla fyrir skemmtilega keppni og óskum þeim til hamingju með sinn árangur.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
27.01.2022
Höfðaskóli tók þátt í Samrómi sem er lestrarkeppni grunnskólanna. Allir nemendur og starfsfólk Höfðaskóla tóku þátt ásamt fjölmörgum velunnurum skólans. Samstaða og samheldni einkenndi keppnisanda allra þeirra sem tóku þátt.
Höfðaskóli keppti í C flokki og átti í harðri samkeppni við Öxafjarðarskóla og fóru leikar okkur í hag. Í nafni skólans voru lesnar 153.288 setningar af 353 keppendum. Þess má geta að skólinn var einnig í þriðja sæti á landsvísu.
Í verðlaun fær skólinn glæsilegan þrívíddarprentara og Rasberry pie tölvu sem hvorutveggja munu nýtast skólanum í námi og kennslu.
Skólinn þakkar öllum þeim sem lögðu okkur lið, samstaðan leiddi okkur til sigurs.
Lesa meira
25.01.2022
Lestrarkeppnin, Samrómur, sem skólinn er að taka þátt í er á milli grunnskóla landsins og er haldin í þriðja sinn inni á https://samromur.is/takathatt þar sem keppt er um fjölda setninga sem lesnar eru inn í Samróm. Forseti Íslands setti keppnina formlega 20.janúar. Keppninni lýkur á miðnætti 26. janúar.
Höfðaskóli tekur þátt í ár eins og í fyrra. Þessi keppni er hinsvegar ekki bara fyrir nemendur heldur geta allir, ungir sem aldnir, lagt hönd á plóg og skráð sig til leiks inn í Höfðaskólahópinn og lesið.
Það er síðan framlag hópsins sem telur og eru vegleg verðlaun fyrir þann skóla sem les mest.
Nemendur skólans lesa og lesa, standa sig gríðarlega vel og er skólinn, þegar þetta er skrifað, í öðru sæti í C flokki. Einnig hafa foreldrar og velunnarar skólans tekið mjög virkan þátt.
Lesa meira
21.01.2022
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Flest allir úthvíldir eftir óvænta langa helgi.
Í vikunni var starfsdagur á mánudag og því enginn skóli hjá nemendum, hefðbundinn skóladagur var á þriðjudag en á miðvikudag voru nemendaviðtöl, ný önn hófst síðan á fimmtudaginn 20.janúar.
Lestrarkeppni á milli grunnskóla landsins verður haldin í þriðja sinn inni á samromur.is þar sem keppt verður um fjölda setninga sem nemendur lesa inn í Samróm. Forseti Íslands setti keppnina formlega af stað í gær fimmtudaginn 20.janúar. Keppninni lýkur 26. janúar. Höfðaskóli ætlar í ár að taka þátt í ár eins og í fyrra og biðjum við foreldra um að aðstoða börnin sín við að fara inn á síðuna, samromur.is og skrá sig til leiks í Höfðaskóla. Þessi keppni er hinsvegar ekki bara fyrir nemendur heldur geta allir í bæjarfélaginu lagt hönd á plóg og skráð sig inn í Höfðaskólahópinn og lesið. Það er síðan framlag hópsins sem telur. Vegleg verðlaun eru fyrir þann skóla sem les mest.
Við minnum að lokum á að hafragrauturinn er á sínum stað alla þá morgna sem hefbundið skólastarf er, frá klukkan 7:45 og ánægjulegt er hversu margir nýta sér það.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
14.01.2022
Heil og sæl
Helgin hófst aðeins fyrr en áætlað vegna Covid smits sem kom upp á unglingastigi.
Allir nemendur og starfsmenn skólans fóru í úrvinnslusóttkví frá og með miðvikudagskvöldinu 12.janúar kl. 22:30 og gildir hún í 48 klukkustundir nema annað komi fram. Minnum á að sömu reglur gilda í úrvinnslusóttkví og sóttkví (sjá á https://www.covid.is/undirflokkar/sottkvi)
Erfiðlega hefur gengið að fá leiðbeiningar um næstu skref frá rakningarteyminu en við erum í góðu sambandi við almannavarnir hér á svæðinu ásamt hjúkrunarfræðingi og við tökum því sem að höndum ber og vonum að allir fari varlega. Ef ekki berast upplýsingar fyrir kvöldið þá gæti farið svo að úrvinnslusóttkví verði lengd um sólarhring.
Við minnum á mikilvægi þess að skoða tölvupóstinn sinn og heimasíðu skólans til að vera upplýst þegar breytingar berast.
Við erum ótrúlega þakklátar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem skólasamfélagið allt hefur sýnt í þessu ástandi.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
13.01.2022
Vegna staðfests smits í Höfðaskóla, unglingastig, verða allir nemendur skólans í úrvinnslusóttkví þar til frekari upplýsingar koma frá smitrakningarteyminu. Mikið álag er á rakningarteyminu og því verður skólinn lokaður bæði fimmtudag og föstudag. Frekari upplýsingar verða sendar eins fljótt og hægt er.
Úrvinnslusóttkví: Meðan verið er að vinna úr smitrakningu eru hópar nemenda og/eða starfsmanna settir í úrvinnslusóttkví. Í smitrakningu er verið að skoða hverjir hafa mögulega smitast af einhverjum sem er með Covid-19. Í úrvinnslusóttkví gilda sömu reglur og á við um sóttkví. Úrvinnslusóttkví gildir í innan við 48 klukkustundir.
Við minnum á að allar upplýsingar um Covid má nálgast á https://www.covid.is/ og ítrekum að fara strax í PCR-sýnatöku ef einkenni gera vart við sig, hversu lítil sem þau eru.
Nú þurfum við öll að standa saman.
Með góðri kveðju
Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira
07.01.2022
Komið þið sæl
Nú er skólastarf hafið að nýju eftir áramót og eflaust einhverjir sem lögðust í ferðalög yfir hátíðirnar, ýmist innanlands eða erlendis. Sérlega mikilvægt er að allir gæti að persónulegum sóttvörnum og hugi að smitvörnum. Í reglugerð um sóttkví og einangrun og sóttvarnarráðstafanir á landamærunum Íslands vegna COVID-19 stendur:
„Jafnframt skal ferðamaður með tengsl við Ísland gangast undir mótefnavakapróf (antigen-hraðpróf) eða PCR-próf á næstu tveimur dögum frá komu til landsins.“
Farþegar fara því í sýnatöku við komuna til landsins, hvort sem er PCR eða hraðpróf tveim dögum frá komu til landsins. Við hvetjum til þess að það sé farið í PCR á flugvellinum, þó svo hraðpróf séu einnig gild. Sýnataka er ókeypis.
Við hvetjum foreldra/forráðamenn að halda börnum á leik- og grunnskólaaldri heima þann tíma sem sóttkví varir og beðið er eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Eins væri gott, ef hægt er að börn fari í hraðpróf eða PCR próf áður en þau mæta í skólann.
Hátt hlutfall smita utan í sóttkvíar bendir til þess að talsvert sé um veirusmit í samfélaginu. Mjög mikilvægt er að verja skóla- og frístundastarf eins og hægt er við þessar aðstæður og óskum við eftir samstarfi varðandi það.
Öll einkenni á að taka alvarlega, líka kvef og hálsbólgu, hvort sem er hjá börnum eða öðru heimilisfólki. Á heimasíðu Covid.is eru nánari upplýsingar um einkenni: https://www.covid.is/undirflokkar/ad-fordast-smit
Okkur hefur tekist að halda skóla- og frístundastarfi hér á Skagaströnd í nokkuð góðum farvegi en fréttir annars staðar af landinu benda til þess að lítið megi bregða út af til að raska starfseminni, með tilheyrandi íþyngjandi afleiðingum á borð við sóttkví eða einangrun.
Leggjumst á eitt og gerum allt sem í okkar valdi stendur, fylgjum tilmælum sóttvarnalæknis og drögum úr líkum þess að raska lífi barnanna okkar meir en orðið er.
Lesa meira