Fréttir

Fjör á föstudegi

Það var heldur betur glatt á hjalla í morgun þegar skellt var í eitt gott BINGO á yngsta stigi. Nemendur skemmtu sér konunglega og þökkum við Kjörbúðinni fyrir vinningana.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Fyrstu dagar eftir páskafrí hafa gengið vel. Nemendur lögðu lokahönd á og tóku upp árshátíðaratriðin sín sem verða send foreldrum/forráðamönnum í dag. Nemendur í 9. og 10. bekk sem og starfsfólk skólans fór á skyndihjálparnámskeið hjá Karli Lúðvíkssyni sem gekk vel. Í næstu viku kemur Þorgrímur Þráinsson og heimsækir unglingastig með fyrirlesturinn sinn ,,Verum ástfangin af lífinu". Nánari upplýsingar munu berast foreldrum/forráðamönnum nemenda´a unglingastigi frá umsjónarkennurum. Það hefur verið heldur kalt hjá okkur undanfarna daga og við minnum á mikilvægi þess að passa uppá að nemendur séu alltaf með hlýjan og góðan útifatnað. Þemavika unglingastigs verður kláruð í næstu viku og við stefnum að því að klára samræmd próf fyrir þá sem þess óska af nemendum 9. bekkjar síðustu vikuna í apríl. Að lokum minnum við enn og aftur á hafragrautinn góða, sem er í boði alla virka daga frá 7:45. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Páskakveðja

Heil og sæl Páskafríið hófst aðeins fyrr en áætlað vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Við tökum því sem höndum ber og vonum að allir fari varlega. Ástandið er vissulega orðið þreytandi að marga mati en við þurfum að standa saman og klára þetta erfiða verkefni sem nú hefur staðið yfir í heilt ár. Dagana þrjá í þessari viku sem skóli var opinn var þemavika á unglingastigi sem gekk vonum framar. Nemendur virtust una sér vel og litu mörg spennandi og skemmtileg verkefni dagsins ljós. Við stefnum að þið að klára þá tvo daga sem eftir eru þegar við snúum til baka. Nemendum í 9. og 10. bekk stóð líka til boða að fylgjast með starfakynningu frá Landspítala og voru nokkrir sem þáðu það. Ný reglugerð um skólastarf í hertum aðgerðum mun berast í páskafríinu og við munum upplýsa ykkur um skólastarf eftir páska um leið og hún liggur fyrir. Við óskum ykkur gleðilegra páska og þökkum gott samstarf það sem af er skólaári. Páskakveðjur Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel, ungarnir halda áfram að stækka og dafna og gengur uppeldið á þeim vonum framar :) Nemendur hafa verið í danskennslu hjá Ingunni Hallgrímsdóttur þessa viku og hrósar hún krökkunum mikið fyrir framkomu og fas í tímunum. Dansinn hefur gengið vel og vonumst við til að festa danskennslu í sessi annað hvert ár. Framsagnarkeppnin okkar fór fram í gær hjá nemendum á miðstigi og stóðu krakkarnir sig frábærlega, frétt um keppnina ásamt myndum má sjá hér. Í næstu viku verður þemavika hjá unglingadeild þar sem þau verða í list- og verkgreinum frá 8:20-12:00 alla vikuna, umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar um skipulagið heim í dag. Alþjóðlegi vöffludagurinn verður á fimmtudaginn í næstu viku og stefnum við að sjálfsögðu að því að halda hann hátíðlegan hér í Höfðaskóla, það verður nánar auglýst þegar nær dregur :) Næsta vika er síðasta vikan fyrir páskafrí. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Framsagnarkeppni Höfðaskóla

Í dag fimmtudaginn 18.mars var framsagnarkeppni Höfðaskóla haldin í Hólaneskirkju. Nemendur 5., 6. og 7. bekkjar tóku þátt og stóðu sig öll með prýði. Á myndinni má sjá þau Þórdísi Kötlu Atladóttur, Sigríði Kristínu Guðmundsdóttur og Loga Hrannar Jóhannsson sem hrepptu þrjú efstu sætin í 7. bekk en undir venjulegum kringumstæðum færu þau áfram í stóru upplestrarkeppnina og myndu keppa fyrir hönd skólans. Á meðfylgjandi myndum má sjá þá nemendur þóttu skara frammúr í lestri í 5. og 6.bekk.
Lesa meira

Danskennsla

Á mánudagsmorgun hófst danskennsla undir stjórn Ingunnar Hallgrímsdóttur frá Dalvík. Krakkarnir munu fá kennslu í klukkustund á dag út þessa viku og eru tímarnir stigskiptir. Allir skemmtu sér konunglega.
Lesa meira

Föstudagskveðja í snjó og kulda

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla varð óvænt stutt í annan endan þar sem aflýsa þurfti skóla í dag vegna veðurs. Veturinn minnti á sig og í gær borðuðum við hádegismatinn í skólanum í stað þess að fara upp í Fellsborg. 9. bekkur átti að vera í samræmdum prófum í vikunni gekk fyrirlögnin ekki alveg nógu vel eins og fólk hefur eflaust séð í fréttum. Til stóð að færa prófin yfir í næstu viku en nú hefur Mennta- og menningamálaráðherra tekið ákvörðun um að aflýsa prófunum. Nemendum 9. bekkjar mun standa til boða að taka aðra útfærslu af samræmdum könnunarprófum og munum við auglýsa fyrirkomulag þeirra þegar það liggur fyrir. Í vikunni fjölgaði um níu í Höfðaskóla þegar ungarnir komu úr eggjunum einn af öðrum. Það er búið að vera skemmtilegt, fróðlegt og spennandi að fylgjast með þessu ferli og krakkarnir hafa haft gaman af. Sjá myndir hér. Í næstu viku verður danskennsla hjá okkur og verður skipulag hennar eftirfarandi: Mánudag-fimmtudag: 10:00-11:00 - yngsta stig, 11:00-12:00 - miðstig og 12:40-13:40 - unglingastig. Föstudagur: 9:20-10:20 - yngsta stig, 10:40-11:40 - miðstig og 11:40-12:40 - unglingastig. Danskennari er Ingunn Hallgrímsdóttir. Að lokum minnum við á drög að skóladagatali, endilega skoðið það hér og sendið inn ábendingar og athugasemdir. Við fengum fyrirspurn hvers vegna væri hægt að hafa val um 175 eða 180 daga og það er vegna þess að ef um 175 daga er að ræða eru nemendur einni kennslustund lengur á viku til þess að vinna upp dagana fimm. Við vonum að þið njótið helgarinnar, sem óvænt varð löng :) Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Ungarnir

Eins og áður hefur verið sagt frá voru hænuegg sett í útungunarvél í Höfðaskóla fyrir nokkru síðan. Eggin voru níu talsins og á dögunum fóru ungarnir að láta sjá sig einn af öðrum og í skrifuðum orðum eru sjö komnir úr eggjum. Tvö egg eru ennþá í vélinni og bindum við vonir við að fá úr þeim unga líka. Skólastarfið er því með líflegra móti þessa dagana og ungir sem aldnir skemmta sér yfir ungviðinu. Nemendu á yngsta stig fóru og kíktu á ungana í dag og fengu að halda á þeim, vakti þetta mikla lukku.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel. Veðrið lék við okkur og eru nemendur sumir hverjir farnar að koma á hjólum í skólann. Við minnum á að það er skylda að vera með hjálm og að rafmagns hlaupahjólin má aðeins nota til að koma sér til og frá skóla en að öðru leyti skulu þau látin ósnert á skólatíma. Nemendur á miðstigi bíða spenntir eftir ungunum sem eru væntanlegir á næstu dögum. Hér varð uppi fótur og fit í morgun þegar útungunarvélin gaf upp öndina og þurfti að hafa hraðar hendur við að redda nýrri græju sem gekk sem betur fer upp og eggin komust fljótt aftur í hlýju og við vonum að þeim hafi ekki orðið meint af. Nemendur á yngsta stigi fengu ný borð í vikunni, borðin er hægt að raða skemmtilega upp og nýtast þau vel bæði sem einstaklingsborð og hópaborð. Borðin eru kærkomin nýjung þar sem gömlu borðin voru farin að láta vel á sjá. Í næstu viku fer 9. bekkur í samræmd próf mánudag, þriðjudag og miðvikudag og höfum við trú á að þau rúlli þeim upp. Að lokum minnum við enn og aftur á heimasíðuna okkar góðu, þar er að finna allar helstu upplýsingar og fréttir af skólastarfinu ásamt myndum. Við vonum að þið njótið helgarinnar og áframhaldandi blíðviðris. Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Skóladagatal 2021-2022

Skóladagatal fyrir skólaárið 2021-2022 er nú í vinnslu. Hér má sjá drög að tveimur útfærslum. Athugasemdir og ábendingar óskast fyrir 24. mars n.k. á hofdaskoli@hofdaskoli.is
Lesa meira