27.03.2020
Bangsar í glugga
Það er tilvalið að gera sér dagamun í skólanum og fara í göngutúr. Í gær auglýsti yngsta stig skólans eftir böngsum í glugga og það stóð heldur betur ekki á viðbrögðunum.
Glöggir bæjarbúar, sem auðvitað virða tveggja metra regluna, tóku eftir því að á örskotstundu tóku tuskudýr að prýða glugga Skagstrendinga. Bangsarnir horfa misgáfulegir á svip út um gluggann og bjóða góðan dag.
Allsherjar bangsaleit var hjá nemendum yngsta stigs í morgun og skemmtu allir sér vel, nemendur, starfsfólk og bangsar.
Lesa meira
27.03.2020
Heil og sæl
Í næstu viku verður skipulag skólastarfs eftirfarandi:
Yngsta stig mætir í skólann og taka umsjónarkennarar á móti þeim kl. 8:00. 1. og 2. bekkur verða á Bergstöðum með Ernu, Evu Dís og Guðrúnu Rós. 3. og 4. bekkur verða í Dvergasteini og Glaumbæ með Viggu, Ingu og Ástrós Villu. Skóla lýkur hjá 1. og 2. bekk kl. 11:50 og hjá 3. og 4. bekk kl. 12:00. Það er mjög mikilvægt að foreldrar virði þessar tímasetningar og séu mætt á réttum tíma að sækja börnin - mega samt helst ekki koma inn í skólann - þar sem hóparnir mega ekki blandast.
Miðstig mætir í skólann og taka umsjónarkennarar á móti þeim kl. 8:00. Skóla lýkur hjá þeim kl 11:40.
Unglingastig verður heima. Þeim verða sett fyrir ákveðin verkefni og munu umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar heim.
Ef einhverjir foreldrar ætla að halda börnum sínu heima þá endilega skráið það hér, skiptir miklu máli að við vitum hvaða börn eiga að mæta og hvaða börn eru í leyfi til að allt utanumhald gangi upp.
Athygli er vakin á því að ekki verður hafragrautur í boði né hádegismatur. Ávaxtastund á miðvikudaginn fellur niður sem og frístund sem fellur niður alla daga.
Við göngum út frá því að skipulagið verði á þessa leið, ef breytingar verða munum við upplýsa ykkur um það.
Ekki hika við að hafa samband við okkur ef spurningar vakna.
Góða helgi
Kveðja
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
26.03.2020
Í vetur keypti skólinn nokkra þoturassa og hafa þeir verið vel nýttir.
Nemendur yngsta stigs notuðu tækifærið og fóru út í frímínútum og renndu sér og sköpuðu furðuverur úr snjónum.
Lesa meira
25.03.2020
Sæl og blessuð
Niðurstöður úr sýnatöku v. hugsanlegs covid 19 smits var neikvæð, sem er ákaflega gleðilegt.
Við opnum því skóla í fyrramálið og höldum sama fyrirkomulagi og í byrjun viku. Yngsta stig og unglingastig mæta í skóla en miðstig verður heima.
Ég minni á mikilvægi þess að láta okkur vita ef nemendur eiga að vera í leyfi, en það er gert hér: https://www.hofdaskoli.is/is/foreldrar/leyfi
Þeir foreldrar sem þegar höfðu sótt um leyfi þessa viku þurfa ekki að gera það aftur.
Ekki hika við að hafa samband ef þið hafið spurningar.
Kær kveðja
Sara Diljá
Lesa meira
24.03.2020
Sæl og blessuð
Eins og allir vita geta hlutirnir breyst hratt á þessum skrítnu tímum. Upp er kominn grunur um Covid-19 smit í Höfðaskóla og því hefur verið tekin ákvörðun um að færa kennslu alfarið yfir í fjarkennslu frá og með morgundeginum 25. mars. Mun það fyrirkomulag vara á meðan beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatöku.
Umsjónarkennarar munu senda frekari leiðbeiningar heim og deila nauðsynlegum upplýsingum í tölvupósti.
Búið er að taka saman öll þau gögn sem nemendur þurfa að hafa með sér heim og gefst foreldrum kostur á að nálgast þau í skólanum til kl. 16:00 í dag.
Þeir sem ekki hafa tök á að sækja gögnin mega gjarnan senda tölvupóst á saradilja@hofdaskoli.is eða gudrunelsa@hofdaskoli.is og við munum eftir fremsta megni reyna að koma gögnunum til nemenda.
Frekari upplýsingar verða sendar í tölvupósti og birtar á heimasíðu eftir atvikum. Við biðjum ykkur um að sýna stillingu þar sem enn er ekkert staðfest smit á Skagaströnd og er um varúðaráðstafanir að ræða.
Ekki hika við að hafa samband við okkur ef spurningar vakna. Eins bendum við á að það má hafa samband við Sigríði skólahjúkrunarfræðing í síma 7741434.
Kærar kveðjur
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
20.03.2020
Sæl og blessuð
Fyrsta vikan í samkomubanni gekk vel í Höfðaskóla og megum við til með að hrósa bæði nemendum og starfsfólki fyrir að láta hlutina ganga svona vel upp.
Við höfum þurft að endurskipuleggja skólastarfið frá A-Ö en það hefur gengið vel.
Í næstu viku verður skipulagið eftirfarandi:
Miðstig verður heima - þeim verða sett fyrir ákveðin verkefni og munu Fjóla og Gigga senda nánari upplýsingar heim varðandi það.
Yngsta stig mætir í skólann og taka umsjónarkennarar á móti þeim kl. 8:00. 1. og 2. bekkur verða á Bergstöðum með Ernu, Evu Dís og Guðrúnu Rós. 3. og 4. bekkur verða í Dvergasteini og Glaumbæ með Viggu, Ingu, Svenny og Ástrós Villu. Skóla lýkur hjá 1. og 2. bekk kl. 11:50 og hjá 3. og 4. bekk kl. 12:00. Það er mjög mikilvægt að foreldrar virði þessar tímasetningar og séu mætt á réttum tíma að sækja börnin - mega samt helst ekki koma inn í skólann - þar sem hóparnir mega ekki blandast.
Fyrirkomulagið hjá unglingastigi verður eins og í þessari viku, eina breytingin verður að þau fara heim 11:40.
Ef einhverjir foreldrar ætla að halda börnum sínu heima þá endilega farið inná https://www.hofdaskoli.is/is/foreldrar/leyfi, það skiptir miklu máli að við vitum hvaða börn eiga að mæta og hvaða börn eru í leyfi til að allt utanumhald gangi upp.
Athygli er vakin á því að ekki verður hafragrautur í boði né hádegismatur. Ávaxtastund á miðvikudaginn fellur niður sem og frístund sem fellur niður alla daga.
Að lokum langar okkur að þakka ykkur kæru foreldrum/forráðamönnum fyrir skilninginn á þessum skrítnu tímum, það er einstakt að finna hvað skólasamfélagið stendur saman þegar á þarf að halda.
Ekki hika við að hafa samband við okkur ef spurningar vakna.
Góða helgi
Kveðja
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
19.03.2020
Sæl kæru íbúar
Eins og öllum er ljóst eru óvenjulegar aðstæður uppi í samfélaginu þessa dagana. Í Höfðaskóla er skólahald með breyttu sniði og ýmislegt sem við erum að gera öðruvísi en vant er, ástandið kallar á breytta kennsluhætti og aðrar áherslur en vanalega.
Lesa meira
16.03.2020
Sæl og blessuð kæru foreldrar
Það er ljóst að þetta eru fordæmalausir tímar sem núna eru í gangi. Við stöllur höfum unnið að því alla helgi, að höfðu samráði við sveitar- og skólastjóra í A-Hún ásamt Þórdísi fræðslustjóra að gera skipulag fyrir komandi daga og vikur. Hafa skal í huga að skipulagið getur breyst hratt og þá verðið þið upplýst um það.
Skipulag þessarar viku er á þessa leið:
Enginn skóli hjá yngsta stigi. Foreldrar geta verið í sambandi við kennara óski þeir eftir að fá námsgögn heim, þá er annað hvort hægt að nálgast þau í skólanum eða óskað eftir að fá þau send heim, þeim verður þá annað hvort keyrt út eða send verða verkefni sem hægt er að leysa í gegnum tölvuna. Kennarar á yngsta stigi munu nýta þessa viku í að yfirfara stofur, útbúa pennaveski fyrir hvern og einn nemanda og sótthreinsa allt það sem nemendur hafa haft sameiginlegan aðgang að.
Það verður enginn hafragrautur í boði né hádegismatur í Fellsborg.
Hjá miðstigi er mæting kl. 8:20 og skóladeginum lýkur kl. 11:50. Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og eru nemendur beðnir um að fara beint upp í sínar stofur. Búið verður að skipta hópunum upp og breyta uppröðun og mun hver og einn eiga sína heimastöð sem verður hans á meðan á samkomubanni stendur. Hverjum og einum nemenda á miðstigi hefur verið skaffaður ipad sem þau hafa aðgang að fram að páskum, tækin mega þau ekki taka með sér heim. Íþróttir og sund falla niður sem og list- og verkgreinar og munu nemendur vera í sinni heimastofu á meðan á skóladeginum stendur. Ekki verður farið út í frímínútur. Starfsfólk á miðstigi þessa viku verða Gigga, Fjóla og Guðrún Rós.
Hjá unglingastigi er mæting 8:20 og skóladeginum lýkur kl. 12:00. Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og eru nemendur beðnir um að fara beint upp í sínar stofur. Búið verður að skipta hópunum upp og breyta uppröðun og mun hver og einn eiga sína heimastöð sem verður hans á meðan á samkomubanni stendur. Íþróttir og sund falla niður og munu nemendur vera í sinni heimastofu á meðan á skóladeginum stendur. Ekki verður farið út í frímínútur, Kjörbúðarferðir verða ekki í boði og því þurfa nemendur að koma með nesti að heiman. Starfsfólk á unglingastigi þessa viku verða, Elva, Ástrós, Siggi og Berglind.
Nemendur á mið- og unglingastigi eru einnig beðnir um að koma með yndislestrarbók að heiman.
Við biðjum ykkur vinsamlegast að brýna fyrir börnunum ykkar að gæta hreinlætis, takmarka þarf klósettráp, sameiginlegar vatnsflöskur verða tafarlaust teknar úr umferð og ekki verður í boði að nota samlokugrill, örbylgjuofn eða ísskáp.
Nemendur sem ekki hlíta fyrirmælum starfsfólks verða sendir heim. Öllu máli skiptir að nemendur haldi sig við sína heimastöð og séu ekki að rápa inn og útúr stofum.
Við höfum skipt upp salernum í húsnæðinu og mun hver hópur hafa aðgang að tilteknu salerni. Það er gert til að reyna lágmarka líkur á krosssmiti. Lok hafa verið tekin af öllum ruslatunnum og verða hurðar ætíð hafðar opnar svo nemendur þurfi ekki að taka í hurðarhúna, nema á salernum.
Nemendur á unglingastigi geta ekki geymt símana sína í körfum eins og verið hefur en í staðin verða þeir beðnir um að geyma þá í skólatöskunum.
Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman, heimili og skóli og tökumst á við þessar aðstæður af yfirvegun.
Nánara skipulag verður sent út á föstudag og þá verður útlistað hvernig næsta vika mun verða. Enn og aftur ítrekum við að skipulagið getur breyst hratt og verða foreldrar upplýstir um gang mála eftir því sem þurfa þykir.
Aftur minnum við á, að ef einhver kýs að hafa barnið sitt heima á meðan á samkomubanni stendur, verður tekið fullt tillit til þess af hálfu skólans.
Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna.
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira
15.03.2020
Sæl kæru foreldrar
Nú er ljóst að röskun verður á skólastarfi næstu daga/vikur. Það er foreldrum í sjálfsvald sett hvort þeir haldi börnum sínum heima þá daga sem þau annars ættu að vera í skólanum. Gott væri að fá að vita ef einhverjir hafa tekið ákvörðun um að halda börnum sínum heima á meðan á samkomubanni stendur. Óski foreldrar eftir að halda börnum sínum heima verður nemendum send verkefni til að vinna heima. Nánara skipulag verður sent út á morgun en ljóst er að þá daga sem nemendur munu mæta verða þau í skólanum frá 8:20-12:00, ekki verður hádegismatur í boði og frístund fellur niður.
Kær kveðja
Sara Diljá
Lesa meira
14.03.2020
Hér má nálgast viðbragðsáætlun Höfðaskóla
Lesa meira