22.11.2024
Heil og sæl
Enn ein skemmtileg vika að baki í Höfðaskóla og nú styttist heldur betur í desember. Á miðvikudaginn s.l. var dagur mannréttinda barna og unnu nemendur á yngsta stigi með hugmyndir um drauma skólalóðina sína og nemendur í 5.-10. bekk hittu stjórnendur og unnu hópavinnu um sex mismunandi þætti skólastarfsins, hvaða breytingar þau vilja sjá og hvaða óskir þau hafa. Það var margt áhugavert og skemmtilegt sem þar kom fram og munum við eftir helgi hefjast handa við að vinna úr niðurstöðunum og sjá hvaða breytingar við getum gert til að koma til móts við óskir nemenda.
Það hefur verið mikið fjör hjá nemendum að leika sér í snjónum og mikilvægt að öll séu vel klædd. Kuldaboli getur heldur betur bitið í kinnar þegar verið er að leika sér úti.
Skammdegið færist alltaf meira og meira yfir og endurskinsmerkin mjög mikilvæg. Nú væri ráð að yfirfara þau öll um helgina og passa uppá að allur útifatnaður og töskur sjáist örugglega vel í myrkinu.
Hér á heimasíðunni okkar eru svo alltaf ýmsar nýjar fréttir og myndir sem við hvetjum ykkur til að vera dugleg að skoða. Á meðfylgjandi mynd er skólahópur leikskólans sem kom í heimsókn í vikunni, en það er alltaf fjör að fá vini okkar í heimsókn og frábært hversu vel kennarar beggja skólanna standa að samstarfinu milli skólastiga.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
22.11.2024
Í textíl á yngsta stigi bjuggu nemendur til Íslenska fánann í þrívídd í tilefni daga íslenskrar tungu. Myndir hér.
Lesa meira
22.11.2024
Nemendur og kennari fengu tvo keramik listamenn til þess að kenna nemendum yngstastigs og miðstigs hópum í myndmennt og síðan fór annar miðstigshópur og hitti gullsmið sem kenndi þeim að búa til skartgrip úr kopar. Myndir hér.
Enn og aftur njótum við góðs af frábæru samstarfi við Nes, við kunnum svo vel að meta það að fá að taka þátt í því sem verið er að gera þar.
Lesa meira
21.11.2024
Nemendur á yngsta stigi skelltu sér út að renna í snjónum í vikunni. Kalt - en ótrúlega skemmtilegt :) Myndir hér.
Lesa meira
15.11.2024
Heil og sæl
Vikan í Höfðaskólka var aldeilis fjölbreytt, bæði þegar kemur að veðrinu og náminu. Við fengum Kiwanis og lögregluna í heimsókn til 1. bekkjar, sjá frétt um það hér og Skáld í skólum heimsóttu yngsta stig, sjá hér.
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta árshátíðinni okkar sem fyrirhuguð var 28. nóvember en hún verður haldin 3. apríl 2025.
Í næstu viku er dagur mannréttinda barna. Þann dag verður nemendaþing Höfðaskóla haldið líkt og í fyrra og munu stjórnendur hitta alla nemendur skólans og ræða hin ýmsu málefni.
Veturinn er heldur betur að minna á sig í dag og þegar svo er, er mikilvægt að nemendur komi vel klædd í skólann og það er alltaf gott að vera með auka sokka í skólatöskunni.
Desember er svo handan við hornið, en frá 1. desember verður breyting á ávaxtastund og nestismálum í skólanum. Nestistímarnir sem slíkir heyra þá sögunni til og ekki verður lengur boðið upp á hafragraut áður en kennsla hefst. Í staðin verður morgunmatur fyrir alla nemendur frá kl. 9-10 þar sem þau koma í nokkrum hollum niður í morgunmat. Við munum senda foreldrum frekari upplýsingar í tölvupósti.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
14.11.2024
Nemendur á yngsta stigi fengu heimsókn frá Karítas og Helen en þær komu á vegum verkefnisins Skáld í skólum.
Skemmtileg heimsókn :)
Lesa meira
13.11.2024
Nemendur í 1. bekk fengu góða heimsókn frá fulltrúum Kiwanis klúbbsins og Lögreglunnar á Norðurlandi vestra þegar Kiwanis klúbburinn færði nemendunum endurskinsvesti í gjöf. Vestin koma sér vel núna í svartasta skammdeginu. Takk kærlega fyrir heimsóknina og þessa góðu gjöf.
Lesa meira
08.11.2024
Heil og sæl
Það var aldeilis margt um að vera hjá okkur í vikunni. Nemendur á miðstigi saumuðu sér svuntur í textílmennt og má sjá myndir frá því hér. Nemendur á yngsta stigi fóru í útikennslu í stærðfræðitíma að læra um form, fjölda og stærðir og má sjá myndir úr þeim skemmtilega tíma hér. Þá voru nemendur í 7.-10. bekk með sitt árlega draugahús í félagsmiðstöðinni sem var virkilega skemmtilegt að heimsækja, hræðilegt en frábært :) Þá voru nemendur í 8.-10. bekk í sjónlista viku, við fengum frábæra gjöf frá Hertz en allt þetta má sjá í fréttum á heimasíðunni okkar.
Í dag gengum við svo eina mílu saman í tilefni dags umburðarlyndis. Leiðtogi göngunnar í ár var Rögnvaldur Mar Í. Ragnarsson og stóð hann sig með stakri prýði.
Í næstu viku kemur Skáld í skólum í heimsókn til nemenda á yngsta stig og eitt og annað skemmtilegt verður brallað.
Við færumst nær og nær jólum og því er kjörið að fara að ræða tilvist jólasveinanna okkar við börnin og leggja áherslu á að trúin flytur fjöll og við berum virðingu fyrir því hverju aðrir trúa eða trúa ekki og ræðum það ekki innan veggja skólans :) Lítil eyru heyra ótrúlegustu hluti.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
07.11.2024
Í haust hafa nemendur í nemendafélagi Höfðaskóla leitað á náðir nokkurra fyrirtækja um styrk til að efla tækniþróun Höfðaskóla enn frekar. Markmið okkar er að vera með nægilega marga ipada á yngsta stigi svo hver nemandi geti verið með eitt stykki og verða tækin notuð við kennslu, fyrst og fremst í lestri og stærðfræði.
Við þökkum HERTZ kærlega fyrir þessa góðu gjöf sem mun koma sér virkilega vel.
- Nemendafélag Höfðaskóla
Lesa meira
06.11.2024
Nemendur í 8.-10. bekk eru í list- og verkgreinaviku þessa dagana og er áherslan núna á sjónlistir. Þau hafa verið að mála og vinna verkefni um listasögu og listamenn ásamt því að þau heimsóttu NES listamiðstöð þar sem þau æfðu sig í grafík list. Myndirnar eru unnar með því að rista í t.d. línóleum dúk og síðan er málað á dúkinn og myndinni þrykkt á pappír. Með þessari aðferð er hægt að þrykkja mörg eintök af sömu myndinni.
Enn og aftur njótum við góðs af samstarfinu okkar við NES og erum heppin að hafa slíka aðstöðu hér á svæðinu.
Myndir hér.
Lesa meira